15 júlí 2008

Ræða Kolbrár í afmælinu mínu

Til Elísabetar
Já, já, og ég sem hélt að ég væri að fara flytja örlítinn ræðustúf yfir fjölskyldumeðlimum sem eru venjulegt alþýðufólk. Og það er nú þannig fólk sem mín elskulega systir hefur valið í kringum sig í gegnum tíðina enda fellur hún jafn vel í fjöldann og fíll í maurabúi.

Hvað sem því líður þá hlýtur það að vera kærkomin tilbreyting, hvort sem er fyrir okkar nánustu fjölskyldu eða aðra sem til þekkja að ég skuli halda hér tölu. Ég er sú eina af systkinunum sem er ekki að baða mig í sviðsljósinu frá morgni til kvölds og tjá mig um allt milli himins og jarðar sem er reyndar svolítið öfugsnúið þar sem ég er sú eina af systkinunum sem hef vit á því sem er milli himins og jarðar.

Samt sem áður hefur það ekki skort að systir mín tjái sig um allt sem hægt er að láta sér detta í hug og í raun miklu meira en það. Hún talar um sjálfa sig, tilfinningar, leikhús, náttúruvernd, sjálfa sig, tilfinningar, fossana, sjálfa sig, klettana, tilfinningar, æskuna, fótbolta sjálfa sig, umhverfismál svo ég nefni nú ekki tilfinningar.

En talandi um tilfinningar þá er það ekki skrítið þó þær beri á góma þar sem systir mín er listamaður og listamenn eru tilfinningaverur. Listamenn eru í raun svolítið eins og Síamskettir eða Púðulhundar. Þeir þurfa mikla athygli, það þarf að klappa þeim, hrósa þeim og þeir þurfa mikla alúð og umönnun enda geta þeir í fæstum tilfellum séð um sig sjálfir. Þessi samlíking á þó ekki að öllu leyti við systur mína því síamskettir eru undantekningalaust mjög þrifaleg kvikindi.

Talandi hinsvegar aftur um ræðumennsku þá man ég reyndar eftir mjög athyglisverðu ræðutímabili hjá systur minni um tíma, en það var “leggja á borð” tímabilið. Þá dröslaði Elísabet með sér alls kyns skran og dót upp á svið er hún flutti ræður og lagði á borð, allt mjög gildishlaðið að sjálfsögðu!

Og skranið var allt frá dúkum, hnífasettum, kötlum, kjöthömrum, kertum, matarafgöngum, vigtum, sælgæti, skrauti og ég man ekki lengur hverju.... en að sjálfsögðu var hver og einn hlutur á borðinu tákn um eitthvað stórkostlegt og mjög tilfinningalegt....Þetta er það næsta sem Elísabet hefur komist að vera húsmóðir og í raun fátt í hennar fari sem minnir á eldhússtörf, nema náttúrulega útlitið því líkamsbyggingin og hárgreiðslan svipar töluvert til uppþvottabursta frá sjöunda áratugnum.

Og ég man líka eftir því að ekki máttu fleiri en þrír fjölskyldumeðlimir safnast saman öðruvísin en ræðuhöldin skullu á, rétt eins og í Tónaflóði hjá Julie Andrews, og allt brast allt í söng.. Því legg ég það til að við launum systur minni þessi góðu afköst og þökkum fyrir okkur með því að flytja öll góðan og tilfinningahlaðinn ræðustúf henni til handa.

Og ef einhver ykkar viljið grípa með ykkur eitthvað af dóti... borð eða annað, garðsláttuvélar eða húsdýr... er ég viss um að Elísabet kynni að meta það!!

En það að vera litla systirin í þessu sambandi var ekki alltaf auðvelt, trúið mér. Og við vorum aldrei neitt Yin og Yan, ooo sei sei nei. Við rifumst, elskuðumst og rifumst, rifumst og rifumst á ný ef því var að skipta.... Og stundum átti ég hreinlega ekki til orð yfir þessari systur minni, enda hafði hún ávallt yfir í orðræðunni........ enda manneskja bæði orðsins og ræðunnar.

Ég man t.d. eitthvert sinnið sem við fórum saman í sund, ég á viðkvæmasta skeiði kynþroskans, rétt um 13 – 14, uppfull af hormónum og sérlega komplexaður unglingur, var rétt að skola af mér í sturtunni til þess að hraða mér í sundbolinn og hylja nekt mína er ég heyri í gegnum vatnsniðinn í henni (sem og allar hinar 8 konurnar sem staddar voru í sturtuklefanum)
“ Guuuuð, Kolbrá!! Ertu rauðhærð að neðan????”

Þið farið kannski hjá ykkur?? En ég vorkenni ykkur ekki rassagat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið!!!!

En það er líka mjög auðvelt að vera stoltur af systur minni, og ég er það ansi oft....
Og það er í gegnum baráttur hennar...

Hvort sem er alkólismi, geðveiki, uppeldi uppáhaldsfrænda minna, ástar, náttúrverndar eða skáldskapar... Alla þessa málaflokka sem hún ber á sínum grönnu herðum.
Ég meina, hver þarfnast systkina sem gæti t.d. verið afreksmenn í íþróttum þegar maður hefur Elísabetu sem er afreksmaður í kynlífslýsingu í bókmenntum og geymir öll sín leyndarmál í píkunni???

Ef það er ekki afreksíþrótt þá veit ég ekki hvað. Og þegar maður les lýsingar Elísabetar þá getur maður ekki ímyndað sér annað en það hafi verið hún sem fann upp kynlífið.

Ég verð að segja fyrir mig... ég gæti bara gæti ekki verið stoltari!!!!
Ég gæti sagt svo margt fleira mín kæra sys en þú ert náttúrulega búin að segja það allt sjálf og svo miklu betur.

Ég árna þér heilla og vona að líf þitt verði skrautlegt og skemmtilegt næstu fimmtíu árin.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er enn að hlæja þegar ég hugsa til þessarar ræðu hennar Kolbrá. Ekki síst hvernig hún flutti hana. :)

Nafnlaus sagði...

já kolbrá er gjörningalistakona, af guðsnáð,

ellastína

Kristín Bjarnadóttir sagði...

jebb, alger snilldar húmoristi þessi systir þín,
takk til ykkar beggja að birta ræðuna hér
kb

Nafnlaus sagði...

Einsog ég segi, mínar ræður eru dæmdar til að mistakast hér eftir, einsog dæmin sanna, hoppaði bara í síðustu ræðu hjá Braga..

ha ha ha ....

Elísabet Sæta Æðislega

og ÞAKKA ÞÉR FYRIR AÐ LESA