28 mars 2007

Blái fíllinn

Einu sinni fór Ella Stína í sjóinn, svo datt hún um stein, af því hún var svo annars hugar, hún var alltaf svo annars hugar og við vitum nú öll út af hverju, það var einsog hún væri í öðrum heimi, svo annars hugar var hún þarsem hún datt um stein í sjónum þarsem hún var að vaða, hún ætlaði að vaða sér til skemmtunar því það var líka örlítið sólskin þennan dag en svo datt hún og drukknaði. Já hún drukknaði og enginn vissi það því Ella Stína lét engan vita. En Ella Stína drukknaði semsagt og líkið flaut uppá yfirborðið og flaut alla leið frá Seltjarnarnesi því það var einmitt þar sem hún hafði drukknað, já frá Seltjarnarnesi og að ferðamannaströnd á Spáni þarsem túristabörnin fundu líkið, já rákust utan í líkið á Ellu Stínu og héldu að þetta væri blár útblásinn fíll.

Þau drösluðu bláa fílnum á land og reyndu að hossa sér á honum en svo nenntu þau því ekki lengur og hentu honum aftur í sjóinn svo Ella Stína er einhverstaðar á floti, það veit enginn hvar.