30 mars 2007

Valið hennar Ellu Stínu

Ella Stína á ekki um annað að velja heldur en heiminn, eða hvað? Hún hefur þrjá kosti, lokaða herbergið, hlekkina eða heiminn. Það er að segja, hún getur flakkað á milli lokaða herbergisins og hlekkjanna, fram og aftur, það gæti endað með geðveiki eða dauða þar sem lokaða herbergið er geðveikin og hlekkirnir dauðinn. Því það er ekki bara þannig að Ella Stína dragi áfram sína hlekki, ónei, hlekkirnir geta líka dregið hana til dauða. Hlekkirnir geta öðlast sjálfstætt líf. Það hlýtur að vera til saga um það. Já saga um Ellu Stínu á bjargbrúninni og hlekkirnir dingla fram af og engill kemur Ellu Stínu til hjálpar á bjargbrúninni á síðustu stundu og hvíslar í eyra hennar: Þú ert á bjargbrún Ella Stína. Ó, sagði Ella Stína, ég sem hélt að ég væri að greiða gíróseðil frá Rauða krossinum í bankanum.

Svo núna hafa þau undur og stórmerki gerst að Ella Stína hefur ekki bara fundið hlekkina heldur líka heiminn. Lokaða herbergið fannst 2004 og hafði þá legið undir ryklagi í langan tíma, hvort það var ryk eða beinamylsna, nei grín. En þegar svona margir staðir finnast á skömmum tíma þýðir að einhver sérstök hreyfing er á himintunglunum eða eitthvað.

Þetta er einhver bylgja.

Einsog þegar margir fljúgandi furðuhlutir eru tilkynntir frönsku geimferðastofnunni á sama tíma. Þetta er allavega einhver bylgja. Hreyfing.

Hreyfing Ellu Stínu.

Svo núna á Ella Stína semsagt tvo kosti, það er halda áfram flandrinu á milli lokaða herbergisins og hlekkjanna EÐA fara útí heiminn. Eða bara vera í heiminum. Verður hún að gera einsog í ævintýrunum og fara útí heim.

Og hvað á hún að gera ef hún byrjar að hugsa Róbert.

Og hvað á hún að gera ef allt verður skyndilega mjög erfitt.

Á hún þá að breiða út faðminn og láta fallast á hnén í auðmjúkri bæn og hvísla: Vorið, vorið, sólskin og vorið.

Hvað ef hún myndi segja Róbert í staðinn fyrir sólskinið og vorið?

Eða ef hún stæði bara á miðju gólfi í bankanum þegar gjaldkerinn kallaði númerið hennar og gæti ekki hreyft sig útaf hlekkjunum?

Verður hún ekki að eiga vini? Verður hún ekki að fá sér spjald um hálsinn þarsem stendur: Hringið í þetta númer ef hún segir Róbert eða hreyfist ekki.

Og hver getur sagt Ellu Stínu að heimurinn muni ekki leggja á flótta undan henni?

Engin ummæli: