30 mars 2007

Göfuglyndi Ellu Stínu

Ella Stína hafði tildæmis farið í skóla allt útaf tómu göfuglyndi. Til að fórna sér fyrir leikrit sem hún hafði verið að skrifa í fjórtán ár. Ekki af því hana langaði í skóla heldur langaði hana en hún losnaði ekki við Róbert það var sama hvað hún skrifaði það kom alltaf Róbert Róbert Róbert Róbert, þá vissi hún að hún var inni í lokaða herberginu og þurfti stjórn, hún var hætt að þola Róbert svo hún var að hugsa um að skipta um nafn á honum en hún hafði reyndar oft skipt um nafn á honum, svo hún var líka orðin hundleið á því, hún vissi ekkert hvað hún átti að gera annað en að skrifa því hvert orð var einsog skref sem leiddi hana útí heiminn en hún var mest hrædd um að það leiddi hana inní lokaða herbergið fyrir fullt og allt, því lokaða herbergið var alltaf að minnka, einu sinni hafði það verið svona þokkalega stórt, nú var það orðið bara ekki stærra en klósett en ég get alveg sagt ykkur við hvað Ella Stína var mest hrædd við og það var að þegar orðin myndu leiða hana útí heiminn og hún færi alltaf lengra útí heiminn myndi hún að lokum villast og týnast og einhver myndi gera henni eitthvað og hún myndi ganga fram af bjargi í blindbyl eða bíll klessa á hana eða einhver nauðga henni drepa og ræna allt í vitlausri röð eða hún myndi aldrei rata heim til sín án þess að hafa átt raunverulegt heimili fyrst og einmitt á þessu augnabliki var Ella Stína skelfingu lostin hvert þessi orð myndu leiða hana og svo hugsaði hún: OG HVAÐ EF EINHVER LES ÞETTA!!! Og þá myndi einhver vita hvernig henni liði og hvernig hún hugsaði. Það mátti enginn vita hvernig hún hugsaði. Ella Stína var búin að koma sér upp þvílíku hugsanakerfi að enginn gat fylgt því eftir og hún gat ekki einusinni skrifað það niður sjálf, eða hún reyndi það ekki einu sinni, - en jæja, og enginn mátti vita að Ella Stína gæti orðið hrædd því þá myndi þessi sami annaðhvort hlæja að henni eða hræða hana enn meira. Ella Stína var líka hrædd um að fara svo langt útí heiminn að hún myndi fara í maníu en það var sérstakt ástand sem Ella Stína hafði farið í þegar pabbi hennar dó eða hún varð fyrir ástarsorg eða eitthvað, komum að því síðar, byrjum á pabba hennar sem var fyrsta heilaskemmdin, eða gerði Ellu Stínu þann greiða að loka hana inní lokaða herberginu en ef lesandinn tekur núna eftir því hvað allt er ruglingslegt það er útaf því að óttinn hefur heltekið Ellu Stínu um að Róbert muni lesa þetta, Ella Stína vill alltaf að einhver stjórni henni, því hún veit ekki hvert hún á að fara..... heila málið... eina leiðin fyrir Ellu Stínu er að vera heiðarleg og skrásetja allar hugsanir einsog heimsbyggðin var skrásett á sínum tíma, þe. heimsveldið en það máttu víst ekki allir vera með í þeirri skrásetningu en Ella Stína gæti komist að kjarna málsins ef hún héldi bara ótrauð áfram nú eða þá bara bullað eitthvað og sýnt hvað maður getur verið hræddur, ráðvilltur, spenntur, glaður, vongóður en samt hræddur við að skrifa eða halda áfram og það sést allt í textanum því þetta er hún bara að gera fyrir sjálfa sig. Hún er hrædd við að fara útí heiminn. Af því heimurinn er utan við hana. Ella Stína situr núna einsog Pyþagóras og hugsar: Er lokaða herbergið þá ekki heimurinn? Og já. Nú var stutt stopp og Ella Stína komst að því að hún er sannfærð um að hún finni ekkert í sjálfum HEIMINUM af því heimurinn heitir ekki Ella Stína. Hægt er að kalla lokaða herbergið Ellu Stínu ef maður vill kalla það eitthvað, og hægt er að kalla hlekkina Ellu Stínu vilji maður kalla þá eitthvað en heiminn er ekki hægt að kalla Ellu Stínu, það þýðir að heimurinn er ókunngur. Og Ella Stína óttast að finna ekkert. Finna ekkert í þessum ókunnuga heimi. Sjá ekkert. Akkúrat. Hún heldur að hún sjái ekkert, heyri ekkert, að heimurinn fari framhjá henni. Og hún geti ekki sagt frá neinu í heiminum því þetta er ekki heimurinn hennar. En þá er það næsta verkefni fyrir Ellu Stínu að lýsa einhverju sem hún á ekki.

Nema þá að kalla heiminn Ellu Stínu og þá gæti Ella Stína verið glötuð að eilífu eða hvað. Allavega Ella Stína, lýstu einhverju sem þú átt ekki. Ella Stína hefur nefnilega eignað sér allt. Og það sem hefur ekki eignað sér vill hún eignast. En það er önnur saga. Bíðum spennt eftir að Ella Stína leysi verkefnið: Lýstu einhverju sem þú átt ekki.

Engin ummæli: