29 október 2009

Hjartað

Ég er að tala við þig, ég veit ekki hvað þetta er
en þetta er eitthvað alvöru búið til úr hafinu
og ekkert smávegis hafi heldur risastórum öldum
í hjartanu, hjartanu, hjartanu,hjartanu.

Og það færði mér heim sanninn um það
að stundum þekki ég ekki hjartað í mér
fyrren ég sé það í öðrum og þá langar mig

að ná því aftur.

Nokkur orð

Ég trúi því varla að ég hafi séð hann
svona einmana, trylltan og óttasleginn,

og ég hafi haft allt þetta í mér
og það sé hægt að vekja það upp

á augabragði.

Ljóð

Augu þín brenna
af einsemd og ótta
einsog augu mín

fyrir löngu

en þá dæmdi ég
sjálfa mig
fyrir að vera óttaslegin
og einmana

nú skil ég þig.

*

27 október 2009

Velkomin og sæt

Það væri nú gaman að vita hverjir eru alltaf að lesa þetta blogg, annars eruð þið öll velkomin og sæt.

Rauðu stafirnir

Halló, þetta er góður dagur, ég fór með hundana í labbitúr útað bekknum og nú er ég komin heim að skrifa, og það er svo góð útilykt af mér og yndislegt að vera til.

26 október 2009

Húsið -

1. Vantar þakrennur úr járni
2. Útidyramottu
3. Setja þrefalt gler
4. Mála þakið
5. Fóðra suma veggi
6. Gera við útidyrahurðina
7. Mála stigann
8. Mála nokkra ofna og hurðir
9. Nýjan ofn í stofuna
10. Hurð fyrir geymsluna

Listi yfir það sem vantar

Nú er nóvember skammdegið að bresta á, ég á eitt eða tvö kerti og vantar lak, hér er listi yfir það sem mig vantar:

1. Lak
2. Útidyramotta
3. Mynd af Emblu í ramma
4. Mynd af Jökli og Kristínu í ramma
5. Ljósaperur
6. Parmesean ost
7. Kjúklingabringur
8. Meira te
9. Ávexti
10. Þykkni
11. Að naglalakka mig
12. Þvottapoka
13. Gluggatjöld fyrir borðstofuna
14. Sápur
15. Sjampó
16. Að koma sjónvarpinu í lag
17. Kjöt í kjötsúpu, - á grænmetið
18. Kjötsúpupott
19. Borga hituveitureikninginn
20. Og símreikninginn
21. Buxur
22. Nærbuxur
23. Sykur
24. Efni tilað þrífa baðið
25. Stálull

25 október 2009

Ég er svo æðisleg kona....

*

fékk að heyra þetta frá ungum aðdáenda alveg óvænt. Vissi þetta auðvitað, það var bara svo gaman að heyra það, ég set það hér svo ég gleymi því ekki.

23 október 2009

Veit loksins til hvers karlmenn eru....

17 ára edrúafmæli jíbbí

Ég hef fengið að vera edrú í 17 ár.... í dag 23.október 2009. Þá eru 17 ár síðan ég fór í áfengismeðferð á Vífilsstöðum, fyrsta daginn fór ég útá stétt að reykja og labbaði svo útí grasið "skv. eðlisávísun" og fann felgulykil.

Ég elska edrúmennskuna mína, dásamlegur tími, stundum erfiður en hef farið allsgáð í gegn!

*

22 október 2009

Fréttir af rólegheitum

Ég er ennþá mjög róleg.

*

eða einsog töfradrottningin sagði: þú hefur í þér mikla ró.

21 október 2009

Rólegheitaprógrammið

Ég er í prógrammi í því að vera róleg, ég skrifa mjög rólega núna, tek til allt rólega, anda, hlusta, rólega, slakaðu á, slakaðu á og orkan kemur.

15 október 2009

Reykjavík - Madness

Slóðir maníu og þunglyndis í Reykjavík

Boðið verður uppá ferðir undir leiðsögn Elísabetar Jökulsdóttur um Reykjavík þarsem gestir fá að kynnast borginni með augum manneskju í maníu og er einhverstaðar pláss fyrir þunglyndið.

Í þessum ferðum þýðir Vonarstrætið von, von fyrir mannkynið, og ef farið er uppá Haðarstíg kemur í ljós að við göngum blindandi um heiminn en Höður var blindi ásinn í goðatrúnni.

Þannig verða göturnar þræddar með augum manneskju sem er rekin áfram af því að frelsa heiminn og ráða í dulda merkingu sem býr á bak við allt sem er.

Hvað þýðir Laugavegur.... raunverulega? Eða Sóleyjargata....?

Jafnvel umferðarskiltin, verslunarskiltin, .... hvar endar þessi ferð?

Skráið ykkur tímanlega!

*

13 október 2009

Að búa til kærleika

Ég, Zizou og Keano bjuggum til kærleika í göngutúrnum í dag, það var haustsól, gulnuð strá, farfuglar í undirbúningsvinnu, sjórinn skall að landi, einmana golfari að sveifla kylfunni sinni, skýjafar, mávager í kríuvarpi, grátt grjót og við að labba og búa til kærleika.

Viltu hlusta?

í dag hefur hrukkunum fjölgað, þær hafa breytt sér í strik, rauð strik, sérstaklega þetta sem lítur út fyrir að vera horn á enninu, - svo hef ég komist að því að ég get verið hrædd, ég þarf að útbúa umsókn fyrir starfslaun listamanna, og fara í bað, draga frá gluggatjöldin og svona ýmislegt, annars að fara í göngutúr með hundana og passa emblu, - svo er spurning hvort ég kíki inná drafnarstíg, ég er alltaf í þann veginn að skrifa bréf og segja hvað ég eigi bágt, er þetta þunglyndið, sveiflan í sálinni, af því ég er með geðhvörf, eða bara aumingjaskapur eða skapur aumingja, þetta eru ekki góðir dagar, best að sækja um á póstinum, annars ætlaði ég að strauja sængurfötin, og setja utanum sængina, hvar væri ég ef ég hefði ekki bloggið, þetta er ekki nógu hreint og beint, þori ekki að segja hlutina beint út, en mig vantar stuðning. eða hvort mig vantar bara að tala og einhver hlusti.

12 október 2009

Hrukkuþunglyndið

Ég er svo blönk, ég á ekki fyrir mat eða ljósaperum, búin að skrifa fimm handrit af ýmsu ljóð eða sögukyns en kem því ekki út, með viðvarandi þursabit, þetta er raunveruleikinn, eina sem heldur mér á floti eru fundir, sef of mikið en er þó að lesa eina bók: Unaccustomed earth eftir Jhumpa Leri og setti í þvottavél áðan og hengdi útúr annarri, þessi blankheit valda þunglyndi, en ég ætla sækja um hjá póstinum og svo klofnar hausinn á mér, - fara bera út póst, flytja útá land, og bíða eftir að einhver bjargi mér, - það er allt byrjað að síga og ég hugsa ekki um annað en elli og hrukkur, þetta er sennilega þunglyndi en ég sé hrukkur allstaðar á öllum.

05 október 2009

Oktoberkvöld

Lífið er dásamlegt og tunglið er fullt, það var tunglskin yfir öllu suðurlandi í kvöld, merlaði á fjöllin og þau urðu svo draugalega rómantísk í birtunni, svo sást Júpíter, (Júppí) og Karlsvagninn skínandi utanúr himingeimnum, þessum stóra stóra geim og mig langaði að kúra mig hjá einhverju fjalli og vera inní þögn landsins og sleikja soldið útum og ekki fara í bæinn.

En Jóhanna Líf gisti hér og fór á kostum, bjó til leikhús og heillaði alla uppúr skónum, við fórum í sund og útað borða, í bæinn og á kaffihús, og hún var svo skemmtilegur félagsskapur. Svo núna er tómt í kotinu. Ég keyrði hana til pabba síns sem var hjá Guðjóni pabba sínum og Jónu konu hans. Þar átti ég yndislegt kvöld, spjall og læri!!! En Guðjón átti afmæli svo það voru líka kökur og meðal annars heit eplakaka... namm namm. Og meira spjall, gaman gaman, að koma til þeirra og þar hitti ég Alexíu sem var sól og faðmlagasnillingur, og kemur um næstu helgi og gistir.

Svo hitti ég líka Gunnar Óla, Guðrúnu kærustuna hans og Önnu systir Gunnars og Kristjóns. Dásamlegt kvöld og kyrrð og stjörnur og ísbirnir við hvert fótmál í innkeyrslunni.

Svo brunaði ég í bæinn og í nótt koma norðurljós... hugsa ég.