05 október 2009

Oktoberkvöld

Lífið er dásamlegt og tunglið er fullt, það var tunglskin yfir öllu suðurlandi í kvöld, merlaði á fjöllin og þau urðu svo draugalega rómantísk í birtunni, svo sást Júpíter, (Júppí) og Karlsvagninn skínandi utanúr himingeimnum, þessum stóra stóra geim og mig langaði að kúra mig hjá einhverju fjalli og vera inní þögn landsins og sleikja soldið útum og ekki fara í bæinn.

En Jóhanna Líf gisti hér og fór á kostum, bjó til leikhús og heillaði alla uppúr skónum, við fórum í sund og útað borða, í bæinn og á kaffihús, og hún var svo skemmtilegur félagsskapur. Svo núna er tómt í kotinu. Ég keyrði hana til pabba síns sem var hjá Guðjóni pabba sínum og Jónu konu hans. Þar átti ég yndislegt kvöld, spjall og læri!!! En Guðjón átti afmæli svo það voru líka kökur og meðal annars heit eplakaka... namm namm. Og meira spjall, gaman gaman, að koma til þeirra og þar hitti ég Alexíu sem var sól og faðmlagasnillingur, og kemur um næstu helgi og gistir.

Svo hitti ég líka Gunnar Óla, Guðrúnu kærustuna hans og Önnu systir Gunnars og Kristjóns. Dásamlegt kvöld og kyrrð og stjörnur og ísbirnir við hvert fótmál í innkeyrslunni.

Svo brunaði ég í bæinn og í nótt koma norðurljós... hugsa ég.

Engin ummæli: