29 desember 2009

Dreymandi fljót

Það er kalt úti og allt fýkur um allt og sjórinn kemur að landi með kaldar bylgjur, úfinn og ósofinn, mig vantar kuldaskó og hó hó, allt fýkur og allt er kalt, ég ætti að leggja mig, púff, steinsofna í hálftíma, líklegt, alltílagi að prófa, - og það væri soldið töff af ríkisstjórninni að einmitt núna að láta allar ár í friði á Íslandi, Skjálfandafljót, Þjórsá, - leyfa þeim að streyma og dreyma.

28 desember 2009

Fallegasta jólakveðjan

Garpur og Jökull komu um hádegi á aðfangadag til að segja gleðileg jól..... þeir voru svo fallegir, hátíðlegir, stríðnislegir, góðir og sætir, með jólasveinahúfur og svo myndarlegir og ótrúlega ævintýralegir, komu gangandi stíginn og inní eldhús og föðmuðu mig, og ég fór að hugsa um öll árin hér, öll jólin hér, allar útgáfurnar af okkur hér, jólaenglar og jólaást, ... þeir koma mér endalaust á óvart.

Kærleikssambandið

Vaknaði hálftólf og var að hugsa um konuna í lokaða herberginu, að ég hefði átt að gefa hana út, það er ekki alltaf að marka svefnrofurnar, svo hringdi síminn, ég ákvað að fara á fætur og fá mér kaffi áðuren ég ansaði, kærleikshugsun, því annars væri ég úti á þekju og ekki með á nótunum, hitaði mér kaffi, tók lyfin mín, á eftir að tannbursta mig, því síminn hringdi aftur þegar ég ætlaði að gera það, á eftir að taka lýsi og vítamín, tók samt af rúminu, þvottavélin ennþá biluð, en á aðfangadag kom maðurinn með skrúfuna. Kærleiksrík snjókorn svífa til jarðar, langar í sund og bankann en ekki búin að ákveða hvort ég fæ minn kærleiksríka súrefnisskammt í dag, las Ragnar í Smára í gær, merkilegur maður, soldið stíf lesning þótt bókin sé vel skrifuð, höfundurinn treður þessu soldið inní formið sitt, og lesandinn ég stundum soldið mikið að hugsa, já mikið er þetta smart hjá höfundinum, en Ragnar í Smára og Ólöf Nordal komast til skila, líka Jón Helgason. Já kærleikurinn, ég hef kærleiksfingur sem slá á lyklaborðið, en þessi sem hringdi vildi að ég gæfi út fleiri bænabækur. En þar á undan hringdi Garpur og spurði hvort Embla mætti gista. Lífið er dásamlegt og fínt að hafa þessi snjókorn.

27 desember 2009

Hvernig væri það?

Nú hellist hann yfir - einmanaleikinn, ég er alein heima að sjóða nautatungu og get ekki kveikt á kerti, ekkert kertaljós, hundaskítslykt ef ég opna út, og kuldi ískuldi, ekki að hringja í neinn, bara eiga bágt og vera einamana, svo eru jól og bók tilað hrökkva ofaní, ef ég spyr þennan einmanaleika, bið hann um upplýsingar;:

Ég: Kæri einmanaleiki? Afhverju kemur þú?

Einmanaleikinn: Ég átti ekki í önnur hús að venda.

Ég: Afhverju?

Einmanaleikinn: Ég vil ekki segja það.

Ég: Nú?

Einmanaleikinn: Ég skammast mín fyrir að vera til, ég á engin skartklæði.

Ég: Langar þig að heyra í einhverjum.

Einmanaleikinn: Ég vil frekar vera einmana.

Ég: Langar þig í kjól.

Einmanaleikinn: Það sér mig enginn.

Ég: Bara hafa það kósí.

Einmanaleikinn: Ég vil eignast mann.

Ég: Mann????

Einmanaleikinn: Já, sem hreyfir sig.

Ég: Það tekur nú tíma að ná sambandi við mann.

Einmanaleikinn: Já, þess vegna nenni ég því ekki.

Ég: En ef við segjum, allt fer vel, og vonum það besta.

Einmanaleikinn: Það er allt svo tómt eftir öll þessi skrif.

Ég: Tómleikinn getur verið góður.

Einmanaleikinn: Ég var bara að vekja athygli á honum.

Ég: Ég vil ekki viðurkenna að mig langi í mann, þá verð ég svo upptekin af honum. Að ég gleymi öllu öðru.

Einmanaleikinn: Hvernig væri það?

13 desember 2009

Bænahús Ellu Stínu - bænabók

í vikunni kemur út bænabók, Bænahús Ellu Stínu, - bókin er dýrgripur, skeytt ljósmyndum, blómamyndum, akrílmyndum og skiptist í fimm kafla:

1. Bænahúsið
2. Kærleikssambandið
3. Bænir
4. Þakkargjörðir
5. Andleg vakning

Fáðu þér bænabók

Takmarkað upplag

*

03 desember 2009

Reglurnar og lífið

Lífið snýst um að læra reglurnar, ... og líka nýju reglurnar og breytingar á reglunum, og svo er eitthvað sem þrengir sér í gegn og það er ekki reglan...

*

01 desember 2009

Stór spurning

Er búið að brjóta hana svo mikið niður að hún vill ekki koma út???

*