31 desember 2008

Embla Karen farin að ganga

Embla létt er lögð af stað
lífsins gang hún finnur
skrifar skrefin sín á blað
skært lúðrar hljóma

*

Embla litla er lögð af stað
lífsins gang hún finnur
enn og aftur emblustað
útum heiminn finnur

*

Englar gæti Embluveg
allan lífsins ganginn
stoppin líka stórmerkileg
stúlkan hugfangin.

Verndarsvæði Ellu Stínu

Ella Stína opnar á næstunni verndarsvæði þarsem Ellu Stínu verður komið fyrir og hún nýtur sérstakrar og tilhlýðilegrar verndar...

.... hugmyndina fékk Ella Stína eftir að hún fór með Kristínu og Jökli á verndarsvæði Cherokee Indíana en þar er mikið dót...

... og þar má enginn koma við Ellu Stínu...

26 desember 2008

Englar úr smjörpappír og glimmer

Einn daginn hérna í Greensboro langaði mig að búa til engil, helst að teikna risastóran engil við borðið hjá Jökli og Kristínu. Svo teiknaði ég engil í teikniblokkina mína, hann tókst!!! Og úr þessum engli hef ég gert tvo engla úr smjörpappír, og setti glimmer á þá, annar er silfraður og hinn gylltur. Ég gaf þeim englana í jólagjöf en ég er með frumritið og get bætt við englum í heiminum.

Mínar helgustu stundir í Karólínu

Mínar helgustu stundir eru þegar ég labba í skóginum með Zizou og hún eltir íkorna og ég elti hana, trén eru einsog súlur guðs, birtan smeygir sér á milli, og fyrir utan skóginn þá er það bara ég og hundurinn.

Dýrastra líþíumtafla í heimi

Þegar ég var nýkomin hingað til Karólínu komst Zizou í líþíumtöflu og át hana hálfa. Sama dag var mikilvægur leikur í boltanum. Kristín fór með hana til dýralæknis og hann sagði að hundar væru stundum með geðhvörf og fengju þá líþíum!!!! Heimsóknin til læknisins kostaði hinsvegar tvö hundruð dollara. Ég beið heima í dramakasti en komst á leikinn. Jökull og félagar unnu. En hinsvegar verður þessi tiltekna tafla að teljast dýrasta líþíumtafla í heimi!!!!!!!!!!!!!!!!

*

Heims um ból

Ég hef ekkert heyrt Heims um ból svo ég ætla syngja smá.... heimsumból

heims um ból ból ból
heimsum ból heims um um um bóóóóólllllllllllll

heims heims heims um ból ella stína í kjól helg eru jól silent night
liggur í jötunni.............lávarður seims hins guðlega heims um ból ból helg

En svo fór Jökull að blístra heims um ból og þá varð allt gott....

heimsblís umtur blísturból

Jólagjafirnar mínar í Karólínu

Ég fékk húfu með útsaumuðum stöfum Ella Stína, hvít með ljósbláum stöfum, hið ljósbláa hefur ráðið ríkjum hér, keypti 2 boli með ljósbláu í, .... ljósblátt í.....

svo fékk ég fiðrildi sem búið var að pakka, kínversk..... undralitir....

i hate packing.
just pack the butterflies

hér er ég stökk í leikritinu mínu.

Og svo fékk ég mynd af Jökli með boltann, stórglæsileg mynd, töframaðurinn.

Ég beið á kaffihúsi, Starbökk, meðan verið að sauma stafina í húfuna og versla fiðrildin.

19 desember 2008

Jökull stærðfræðingur

Jökull útskrifaðist í gær og er orðinn stærðfræðingur, þetta var algjör snilld, allir voru í búningum frá sextándu öld og Jökull var í bláum kufli og með skott húfu. Hann var glæsilegur. Svo teinréttur og glæsilegur. Það voru haldnar sniðugar ræður einsog:

Dont ask what the world wants,
ask what makes you come alive.

Og svo var annar prófessor sem sagðist ekki nenna að vinna, nema kenna nemendum sínum sem mættu aldrei í tíma og taldi upp allar afsakanir þeirra.

Jökull var í hafi af tvö þúsund útskriftarnemum, og við Kristín sátum fremst annarstaðar í salnum og höfðum gætur á lögreglunni að hún færi að handtaka neinn fyrir að klappa.

Svo fórum við heim, Kristín var búin að útbúa þvílíkar kræsingar, og Jökull fékk gjafir frá okkur, stærðfræðiboli frá henni og nafnspjöld frá mér. Um kvöldið fórum við á Red lobster og héldum ræður og einsog þessir humrar voru settir í sjóðandi vatn og þá kom kjötið út úr skelinni, þá vorum við líka öll soðin í tilfinningahita og rifum út á okkur hjartað og tjáðum ást og þakklæti.

Um miðnætti fórum við rúnt að skoða ótrúlegar skreytingar hér í bæ og fórum svo með Zizou og Keono út að hlaupa og skemmta sér. Kristín vann svo Jökul í körfubolta meðan hundarnir skutust inní runna að leita að íkornum, og í lokin fékk ég að skora eina körfu.

Þetta var dásamlegur dagur.

16 desember 2008

Hóstakast

Jökull er að fara útskrifast á fimmtudaginn og það má ekki klappa, þá verður maður handtekinn. Það er kannski þessvegna sem fólk er svona rosalega næs hérna, það skælbrosir við manni milli rekkanna í stórmarkaðnum, einsog það sé að hitta gamlan vin, og svo handtekur það mann fyrir að klappa, svona nottla æsir uppí manni hugmyndaflugið, ætti ég kannski að hósta, taka rosalegt hóstakast þegar hann stígur uppá pallinn með þessa frægu húfu.

ps. Það má heldur ekki vera með blöðrur. Balloon...

11 desember 2008

Tveir menn á pallbíl og guð

Í gærkvöldi var ég keyrð heim af tveimur mönnum á pallbíl, ég spurði þá hvernig þeir upplifðu guð og þeir sögðust báðir halda að guð ynni í gegnum fólk.

06 desember 2008

Stop thinking and trust god

Hæ, hæ, það er yndislegt að geta verið með fólkinu sínu alveg frá morgni til kvölds, keypt í matinn, viðrað hundana, horft á sjónvarpið, borðað saman, spjallað, leitað að lyklunum, pening í þvottavélina, dáðst að jólatrénu, fengið sér pepsi, ...

og úti er skógur, og þrjúhundruðþúsund íkornar sem Zizou heldur að guð hafi plantað alveg sérstaklega handa henni tilað eltast við, Keonó litli bróðir hennar er hinsvegar ekki búin að fatta íkornana en hann er svo magnaður að hann á örugglega eftir að ná einum. Hann er samt ekki magnaðri en Zizou, þau eru bæði alveg.... en ég hef aldrei séð hund sem ég upplifi að sé guðleg vera sem er Zizou.

Ég er hér að skrifa og sæki AA-fundi, annan hvern dag, þeir eru alveg búnir að sjá í gegnum mig og endurtaka: STOP THINKING AND TRUST GOD.

ferskeytla um fótbolta

Mörðu þá í Maryland
menn úr okkar liði
grófu þá í grýttan sand
grimmur fyrirliði.

Loksins fréttir

Ég geri ráð fyrir að allir séu byrjaðir á hata mig fyrir að hafa ekki bloggað djók. En ég er ekki með netið, Kristín og Jökull eru svona lærimeistarar mínir og vildu að ég skrifaði en ekki bloggaði, enda kláraði ég heila 19 kafla í handritinu mínu. Og eftir smá hvíld sneri ég mér að leikritinu. Svo vil ég minna á íkornana í trjánum.