22 ágúst 2012
Dagatalið
Hver ropi, þetta skyndilega holrúm sem myndast og endar með stunu, er minning, prump sem alltíeinu leysist úr læðingi og kemur úr iðrunum, þörmunum, andardrátturinn sem getur endað fyrirvaralaust, hefst og hnígur, andvarp sem hegðar sér einsog alda, eða stuna sem byrjar í munnholinu og endar í brjóstinu, hjartslátturinn sem ég veit ekki hvað endist lengi, hraður, hægur, hver hreyfing, augnlokin sem lyftast, þegar teygt er úr sér, eða þegar þarf að rembast, snýta sér, hósta, eða maður fær eymsli og gefur frá sér seigar langar stunur, eða stunur sem maður kæfir, grátur sem brýst fram og skekur axlirnar, brjóstholið bifast og gráturinn æðir uppí munnholið, tárin útúm augun og horið útum nefið, snöktið, hljóðlátt snökt um nótt sem enginn heyrir en merkir endalok tilverunnar, að tíminn er afmarkaður, að þetta snökt er merki um líkama sem einn daginn á eftir að síga ofaní moldina og verða eitt með moldinni, líkami sem hættir að hreyfa sig, dansa, snýta sér, hósta, - og veinið, skerandi vein sem brýst einsog hnífur úr iðrum líkamans, og klýfur höfuðið í tvennt, hausverkurinn, magapínan, harðlífið, vöðvabólgan, verkirnir, og svitinn, svitinn maður minn, svitinn sem sprettur fram, úrgangur úr líkamanum, eitthvað er farið úr honum og kemur aldrei aftur, svitinn, klístraður, ofurfínn, perlar, smjattið, augun uppglennt, eyrun spennt, og sumstaðar er líkaminn mjúkur, annarstaðar harður, liðirnir, teygjanleikinn, takmarkanirnar, svo koma hrukkur í líkamann, varirnar ekki lengur þrýstnar, vöðvarnir slapa, liðirnir stirðna, öll þessi merki sem telja tímann, telja tímann, búta hann niður, minna á hann, og brosið, hláturinn, flissið, hnussið, hummið, þetta er gjörsamlega óviðráðanlegur heimur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli