07 júlí 2013

Söknuður

Ástin er læða
og læðist um
en skyndilega sviptir sig klæðum
flassar og flissar
æ ég bara sakna
þótt ég vilji það ekki
hvenær ætlar þessi söknuður
að rakna upp.

06 júlí 2013

Ég 18

ég ætla ná sambandi við hana sem hætti að borða franskbrauð og hugsaði um heilsuna og fór í sund með litla barnið sitt.

03 júlí 2013

Elskaðu. Fyrsti dansinn í heiminum

Fyrsta hreyfing hennar inní heiminn var dans.... allar hreyfingar eru dans, hún vissi það bara ekki fyrren hún losnaði úr lokaða herberginu og hlekkjunum, hætti að vera fáviti og vörður og hætti að vera vörður sem var að passa fávita,.... og fann eina örskotsstund eitthvað annað,

eitthvað annað, eitthvað annað já,....

dans... dans í heiminum

og heimurinn var búinn til úr dansi

og hún er orðin svo góð í dansi að hún dansar heima hjá sér á kvöldin undir dynjandi tónlist sem fær hana tilað engjast af þrá eftir lífinu, mótsögninni, þránni, hitanum, einhverjum á móti hennar sem hefur hönd og mjöðm....

dans dans dans dans dans

ef þú þarft að komast í sund .... dansaðu

ef þú þarft að komast útí búð .... dansaðu

ef þú þarft að komast í gegnum vegabréfaeftirlitið .... dansaðu

ef þú þarft að hitta hann .... dansaðu

dansaðu með barnabörnunum

og hlustaðu á tónlistina

hlustaðu með mjöðmunum

hlustaðu með olnbogunum

hlustaðu með fingrunum

hlustaðu með hnjánum

hlustaðu með rassinum

og nefinu

og dansaðu elskan min elskaðu dansaðu dansaðu elskaðu dansaðu elskaðu dansaðu dansaðu elskaðu hlustaðu dansaðu.... ELSKAÐU

Minntu mig á að segja þér hana!!!!

Hún var fegin að hann var farinn útúr heiminum hennar því hann hafði komist inní hann og þurrkað hann næstum út svo hún varð að stofna heimsveldi og heimsveldi eru hættuleg, þar eru svo mikið af reglum og allt verður að vera einsog í heimsveldinum en í heiminum er HEIMMMMMMUUUUUUUUUUURIIIIINNNNNN.....

En hvernig þurrkaði hann út heiminn.

Og hún sem var nýbúinn að eignast hann.

Það er saga til næsta bæjar.

Minntu mig á að segja þér hana.

End of Story

Hún ímyndaði sér hún væri í kúrekakofa og svo kæmi Indíáni. End of Story.

Hún var oft að hugsa um hann

Að hann myndi sjá nýju kápuna hennar.
Að hann sjá hillurnar sem hún setti græjurnar á.
Að hann myndi sjá svefnherbergið hennar og lampann á nýja staðnum.
Að hann myndi hitta nýju vinkonu hennar.
Að þau mundu fara saman í bíó.

En þá mundi hún eftir því að hann var ekki í heiminum, ekki í heiminum hennar svo þetta var allt í lagi.

Svo sætir

Svo sá hún litla unga í Grasagarðinum, pínu litla sæta unga, og sólin skein, pínu litla sæta unga í grasinu, og tjörn rétt hjá, þeir voru svo sætir, svo pinúlitlir og sætir.

Þjónustufulltrúa af holdi og blóði

Og hún þurfti líka að fá lán í bankanum, sameina skuldirnar, og hún er ekki búin að því enn, höfuð hennar verður blýþungt, hlekkirnir birtast en kannski ef hún labbaði í bankann og hitti þjónustufulltrúa af holdi og blóði.

Er hún heimurinn?

Svo þurfti hún að labba í sund, það var voðalegt, fyrst að berjast útúr lokaða herberginu og ef hún komst útúr því þurfti hún að vorkenna sér í hlekkjunum að labba alla leið í sund og kannski myndu innbrotsþjófar koma á meðan og hún hafði bara labbað þessa leið svo oft, svo hvað gat hún gert tilað komast, hún gæti sagt, heimurinn þarfnast þess að þú farir í sund því þú ert heimurinn.

ER ÉG HEIMURINN.

Hana langaði í meira appelsín og fékk sér það

Já, svoleiðis var nú það, hún bað strákinn á kassanum að opna flöskuna, hann spurði er heitt úti en hún sagðist alltaf vera þyrst og hann bað hana um skrifa á afritið og hún gerði broskall. Þá brosti hann.

Og hvað meira?

Jú, hún þurfti að spyrja búðakonu hvað þessi kjóll kostaði, og var hrædd um að búðakonan væri sætari en hún svo hún var að hugsa um að breiða út faðminn og spyrja: Hvaaaðð koooooosstaaar haaaann?

Svo þurfti hún stundum að labba framhjá fólki

Hún þurfti stundum að labba framhjá fólki sem sat á kaffihúsi eða hún kom í strætó og einu sinni var svo grípandi lag í útvarpinu að hana langaði að dansa og spurði strætóbílstjórann, má ég dansa. Og hann sagði, það er enginn sem bannaði þér það. En hún þorði því ekki, allir myndu fara glápa á hana og hana langaði líka tilað gleðja farþegana en lokaða herbergið skaust einsog hula yfir hana og hún settist í sætið sitt.

Faðmaði heiminn

En fyrst faðmaði hún heiminn. Það var einfalt. Hún breiddi út faðminn. Það virkaði alltaf. Ef hún mætti Gerði vinkonu sinni í heita pottinum eða á ganginum breiddi hún út faðminn og hrópaði: Geeeerrrðuuur.

Hún fékk sér appelsín

Ella Stína var mjög feimin, já og líka soldið stirð þegar hún fór fyrst útí heiminn. Þá fór hún í Grasagarðinn og sá allskonar merkt blóm og fiska í tjörn og fólk á borðum, hún fékk sér appelsín.