13 mars 2008

Þingvellir

Þegar ég var lítil fór við með afa og ömmu til Þingvalla á hverjum sunnudegi, amma smurði nesti og afi tottaði pípuna og svo brunuðum við til Þingvalla og fengum að vita hvað öll fjöllin hétu, sáum hvað gjárnar voru djúpar og já það var landslag þarna og mosi. Foss og rólur. Þetta var mjög skemmtilegt og gerði mig að óbilandi þjóðernissina. Ég fór ekki svona oft með tvíburana til Þingvalla, ég man eftir tveimur skiptum, í eitt skiptið létu þeir einsog ég veit ekki hvað í landslaginu og klifruðu uppeftir allri Öxará, óðu yfir hana þvers og kruss svo ég átti fullt í fangi með að tína þeim ekki. Í hitt skiptið vorum við á leið á Gullfoss og lögðum okkur í mosanum á Þingvöllum. Tvíburarnir vildu helst sofa þarna alla nóttina enda var nóttin björt. Ég smurði aldrei neitt nesti, ég keypti kannski samlokur á bensínstöðinni ef ég átti pening. En núna hefur málið verið það í nokkur ár að Íslendingar (og Pólverjar) þeir fara bara allsekki á Þingvöll á sunnudögum og vita ekki hvað fjöllin heita og amma þeirra smyr engar samlokur. Fólk fer bara í Kringluna, það er svona sunnudagsbíltúr, og já kemur líka í staðinn fyrir að gefa öndunum. Ég fór nokkrum sinnum með tvíburana að gefa öndunum en þeir spiluðu aðallega á gítar fyrir þær. En svona er þetta orðið svo ég ætlaði að stinga uppá því að flytja Þingvelli í Kringluna og þegar ekkert er eftir af Þingvöllum á Þingvöllum þá getum við kannski... ég veit það ekki. Haldið áfram að segja sögurnar, já ég man þegar við fórum í Kringluna að leika í boltunum og skoða í búðirnar og borða franskar og Hrafnabjörgin blöstu við í suðri og Skjaldbreiður á sínum stað, já það var allt á sínum stað og ég fékk mér alltaf ógeðslega mikla tómatssósu, ég fyllti Almannagjá.

Engin ummæli: