Mig langar að yrkja ástarljóð
um venjulegan mann,
ekki fótboltamanninn sem rífur
kjaft við dómarann og er merki
um það villta í náttúrunni,
ekki skipstjórann sem stýrir
að landi sem hann á ekki,
ekki alkóhólistann sem ég ein
get sent í meðferð,
ekki fangann sem ég þarf
að frelsa úr fangelsinu,
eða innilokaða manninn
sem ég opna uppá gátt,
ekki manninn sem er nógu langt
í burtu tilað hægt sé að elska hann,
ekki manninn sem meiðir mig
svo ég geti fengið bernskuna mína aftur,
ekki rómantíkerinn sem bullar tóma
froðu og ég baða mig í,
ekki leikarann á sviðinu
svo ég fæ ofbirtu í augun,
ekki þennan sem vill breyta mér
í mömmu sína og vælir í mér,
ekki pabba minn sem á bjarga mér,
hlusta á mig, stjana við mig, dýrka mig,
leiða mig áfram einhverja leið
sem ég vil ekki fara
af því ég þykist vera blind og opna
augun bara þegar ég sé hann í hlutverkinu,
og ekki manninn sem ég get meitt
og tekið allt frá af því það er svo gott að meiða
á meðan finn ég ekki eigin sársauka,
ég á nefnilega engan sársauka
og sýningin gengur út á það,
sennilega finn ég ekki manninn
fyrren ég afsala mér heiminum mínum.
*
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli