18 ágúst 2009

Lífið á Framnesvegi

Embla Karen kom hér í gær og hélt tónleika fyrir tíu lukkutröll, litaði myndir, huggaði agnarsmáa gyðju og lét hana fara að sofa, gaf nokkrum leikföngum að borða, og trallaði um og gladdi hjarta ömmu sinnar. Svo í dag komu Zizou og Keano og voru hér allan daginn, við fórum í tvo göngutúra, annan út að Eiðistorgi, og þá var ég bara búin að drekka einn kaffibolla, jamm, og lífið var allsekki komið í gang en eftir göngutúrinn vissi ég hvað átti að gerast næst í sögunni minni, og það var dásamlegt.

Í seinna skiptið fórum við Sólvallagötuna og inní Hólavallakirkjugarð, þarsem við hittum leiksýningu í fullum skrúða, ég fékk kaffi og þeir aðdáun, Raggi frændi var samt smeykur, hélt ég væri með úlfa. Fórum svo í Hljómskálagarðinn þarsem þau veiddu nokkrar gæsir, endur og máva og tóku svoleiðis heljarstökkin tilað ná því.

Og nú er jazz í útvarpinu, áðan var viðtal við Lilla Berndsen þann mikla sómamann sem var nágranni okkar Garps og Jökuls á Ránargötunni og yndislegur. Því miður tapaði Víkingur, ég bara úff, þeir voru með unna stöðu. Óþolandi leiðinlegt.

Og af því ég átti ekkert í ísskápnum eldaði ég hrísgrjón, steikti egg með fullt af hvítlauk, sauð gulrófur og þetta var fullkomin máltíð. Zizou nagaði í sundur eitt lukkutröll. Mjög gaman hjá henni og Keano dáðist að. Svo slógust þau aðeins í stofunni, minnir alltaf á dans slagsmálin þeirra.

Blíbb.

2 ummæli:

afsprengill.bloggar.is sagði...

sæl
ég er komin úr bloggbindindi og þarfað lesa færslur marga mánuði aftur í tímann... næstum eins og jólin.

ótrúlegt hvað það er stutt síðan Embla Karen fæddist og allt í einu talar hún.
Lísbet

Nafnlaus sagði...

halló lísbet,

hér hefur enginn kommað í háa herrans tíð og þá kemur þú einsog engill, takk fyrir það,

fór á facebook og bloggið datt eitthvað niður,

er að þjóta í leikhús núna,

knús fallega kona, þín elísabet