26 nóvember 2010

Að eldast

Þegar ég varð fimmtug fékk ég áfall, mér fannst ég og allir orðnir svo gamlir, alltí einu breyttist skynjun mín á tímanum, mér fannst að ég ætti tíu ár eftir ólifuð, svo væri allt búið, um leið byrjaði heilsu minni að hraka, ég fékk mígreni, stirðleika, og allt hvað eina. Ég gerði mér grein fyrir að ég myndi deyja og hvað yrði þá um dótið mitt, þá myndi einhver koma einsog ég kom til ömmu þegar hún var dáin og horfði á inniskóna hennar, byrja að sortera allt og pakka, henda og geyma sumt og eiga annað. En líkami minn væri liðið lík, stjörf, ég myndi aldrei vakna aftur. Ég horfði á jafnaldra mína einsog hvert annað undur, hvernig aldurinn tók þá til sín, gerði eina hrukku hér, bætti við einum drætti hér, litaði hár grátt, við fitnuðum, varirnar þynntust, samt talaði enginn um þetta, það var einsog þetta væri upphafið á langri ferð, ég starði á þetta í hryllingi og forundran og hugsaði hvort þessi sem ég var að horfa á væri að hugsa það sama, að ég væri að eldast, - og bráðum væru mínar fögru hendur alsettar hrukkum en hendurnar voru það sem elskaði mest við ömmu mína og voru undraverk því þær voru ekki einsog mínar.

Engin ummæli: