29 maí 2008

Kristín Bjarna á stórafmæli

Hún vinkona mín, til þrjátíu ára, á stórafmæli í dag 29.maí, ég þori ekki að segja hvað hún sé gömul því hún er svo mikil filmstjarna, það er ekki víst hún vilji það, það verður þá að koma fram í kommenti, ég kynntist Kristínu fyrst þegar hún kom heim með pabba, hann kom heim tilað deyja en hún sat við saumavélina og saumaði á hann slopp svo hann gæti dáið, það passaði svona nokkurnveginn og sloppurinn passaði alveg þótt hann mátaði aldrei sloppinn. Svo sá ég Kristínu næst á horni Týsgötu og Skólavörðustígs, þá var hún að tala við sjálfa sig af því hún var svo sorgmædd. Hún var oft gestur í Suðurgötunni og orti ljóð í hvert sinn hún kom í heimsókn og hló þá að öllu, hún var byrjuð að hlæja og síðan hefur hún verið hlæjandi, á mínu heimili er hún kölluð Hlátursskjóðan af því að r0kurnar svoleiðis standa út úr henni, lífsglaðar og smitandi, það eru örfáir sem hafa fengið þess heiðurs aðnjótandi að vera uppnefndir en Garpur og Jökull sáu um það, hún var einsog einhver síhlæjandi ævintýraprinsessa í þeirra augum og hló mest við eldhúsborðið, hún var líka einsog farfugl, hún kom og fór, sást ekki mánuðum saman en sat svo dag eftir dag við eldhúsborðið og hló og alltaf með ljóðabúnka með sér. Og sína sérstöku sýn á lífið. Alltaf til í að sjá heiminn útfrá sínum sjónarhól, Kristínarhól, þegar ég var löngu búin að negla niður heiminn ásamt öðrum vinkonum mínum kom Kristín og sagði: Hvað með það? Og er eitthvað slæmt að hafa þráhyggju??? En í mínum íslenska vinahópi hefur það þótt næsta glæpsamlegt en Kristín talar um þráhyggjur einsog sérstakar vinkonur sínar eða gjöful element. Já svo heimsótti hana til Haga þarsem hún bjó sem krakki, hún var ljóð strax á barnsaldri, ég kynntist foreldrum hennar, systkinum hennar, silungsvatni sem sál hennar dvelur jafnan í, harmoníkkuböllum, sveitaböllum, þúsund milljón svönum sem syngja allar nætur þar fyrir norðan, ég held líka að það sé sál Kristínar. Svo fórum við norður að ná í Kristjón á einhverjum furðulegum bíl, já komumst alla þessa leið og ég ólétt að tvíburunum ánþess að vita það. Þar á undan hafði ég búið hjá henni á Öldugötunni eftir að Suðurgötuævintýrið leið undir lok og dópheimurinn gleypti ástina sem hafði búið mig til uppá nýtt, þar svaf ég í stofunni og Kristín hvæsti á mig einhverntíma þegar ég svaf hjá manni heima hjá henni og klóraði hann svo mikið á bakinu að hann er sennilega tattóveraður síðan. En það voru allskyns stórmenni að heimsækja hana, svona fallega skáldkonu og leikkonu undir súðunnfi sem átti fallega hringborðið og var alheimsbóhem og húnvenstk blóm, Thor, Atli, Rúnar, og ég veit ekki hvað, þeir sátu svoleiðis um hana og sungu mansöngva fyrir utan í bjartri vornóttinni ef hún hleypti þeim ekki inn. Hún labbaði alltaf mjög hratt og gerir eiginlega ennþá. Við fórum mikið saman í sund og svo varð ég geðveik og spurði hana hvort hjartað gæti brostið. Og ég hefði ekki munað þetta nema hún mundi þetta. Og hún var algjör skvísa og er ennþá. Svo er hún líka örlætisbolti, hún getur alltaf lesið eftir mig, og ég er alveg í lausu lofti ef hún getur það ekki og hún kemur alltaf með önnur komment og svo gerir hún kröfur, þegar hún fær eitthvað að lesa spyr hún: Hvað viltu að ég hugsi um?

Hún dæmir mig aldrei. Hún bara elskar mig. Og svo er hún svo sæt.

Svo lék hún og dansaði á bryggjunni og lánaði mér gular trúðabuxur sem gáfu mér lífið uppá nýtt.
Hún dansar tangó.

Hún trúir á tangó.

Hún yrkir tangóljóð.

Hún er með sterka réttlætiskennd. Hún er vitur.

Hún fékk krabbamein og bloggaði krabbameinið úr sér.

Hún er heimur útaf fyrir sig.

Hún kom að heimsækja mig til Dublin. Svo ég hef vitni.

Hún tók einu myndirnar af mér sem til eru í Dublin.

Það er gaman að vera með henni.

Hún er femínisti.

Það er hægt að tala við hana um allt.

Ég vona hún verði hundrað ára. Hún er norn og engill. Hún er silungur, tré, vatnsköttur og hvítir skór í myrkrinu. Hún er eyrun mín.

Hún er hörkutól.

Gáfuð.

Ofurgáfuð.

Ljóðskáld.

Alvöru leikkona.

Hún er Kristín Bjarna og ég tek ofan fyrir henni að eilífu, hún er heilt fang af örlæti, forvitni og öllum sínum útúrsnúningum sem snúast alltaf í skemmtilega átt.

Hún er vinur.

Hún er vinur minn.

Hún kemur. Og þarna stendur hún með rauðu töskuna, mér finnst hún líka vera í rauðri kápu, hún er lent. Hún er komin.

Kriiiiiissssssssssssssstttttíín.

Allir elska hana.

Hún hugsar vel um sjálfa sig og er með húð úr sólargeislum, blá augu úr lynginu, sem stundum eru dreymandi, stundum hvöss, stundum glöð, stundum hugsandi.

Til hamingju með afmælið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk elsku Elísabet
mikið er ég skemmtileg hjá þér hahaha
og allt mögulegt sem ég næstum gleymdi að þú vissir

... Þetta er svo falleg ræða og ég gleymi því að ég er kannski soldið gömul enda er hver dagur gjöf og því hljóta árin að vera það líka. (Er að spá í að fá mér miss sixtý blússu sem er opin í mjóhrygginn!)

takk blóm
XX Kristín

Nafnlaus sagði...

Já, fáðu þér blússu og skó, manstu líka þegar við hittumst í dýragarðinum og fengum okkur túr á vatninu meðan strákarnir mínir skoðuðu ljónin,

eða öll leikhúsin sem við höfum farið í, eða göngutúrarnir, eða þegar ég fylgdi þér heim og við hittum Einar Þór að kaupa pizzur,

eða seldum ljóð í Melabúðinni, eða dóum úr hlátri og lifnuðum við í hlátri,

eða þegar þú varst að leika ástarsöguna í kjól sem virtist vera saumaður úr gluggatjöldum,

eða þegar við sátum á tröppunum og þú alltaf með vatnsflöskuna.