31 júlí 2008

Meira um sófann

Ég á sófa eftir Einar Ben og í honum finn ég tengingu við alheimssálina og allt það, þessi sófi er einsog rónasófi, en voða þægilegur, og mikill karakter og yfirklæddur með gulli og ég hætti við að henda honum en ég ætlaði að henda honum en svo gat ég ekki hent honum eða ég gat það alveg en vildi það ekki en það kostar 300þús að laga hann og sauma hann saman og þá gæti Einar Ben mætt sig og Gullfoss hætt að streyma í hausnum á honum. Amen.

Sófinn hans Einars Ben.

Systir mín vill ekki að ég fari með Einræður Starkaðar á Einarshátíð sem hún er að skipuleggja, nei nei, hún ætlar að fá einhvern leikara, ég meina hvað geta þeir, en ég ætla þá bara sjálf að fara með Einræðurnar og taka 20.þús kall fyrir. Og ég ætla byrja á því að hringja í Hreiðar Má og fara með þær fyrir hann. Já!!!

Sjónvarpið mitt

Ég elska sjónvarpið mitt, ég lá í allt kvöld og horfði á íranskan standuppara, bara góður, ég hló upphátt, og nýjan þátt um sex vini í New York, úff, alveg yndislegur þáttur, og ég er virkilega tilbúin að taka þátt í lífi þessara persóna.

Persónuleikaröskun

Ég er búin að koma auga á fallegan mann, ég sé hann að vísu ekki í augnablikinu en hann er ólíkur öllum mönnum sem mér hafa fundist sætir. Þetta sýnir sennilega að ég hef orðið fyrir alvarlegri persónuleikaröskun.

Gyðjurnar

Ég safna gyðjum og nú er komið gyðjuborð, nokkrar feitar og pattaralegar og þokkafullar gyðjur frá Austurlöndum úr steini, María Mey úr plasti og líka plastgyðja með sverð sem Matthías Viðar gaf mér einu sinni í afmælisgjöf eða þegar hann kom frá Mexíkó, svo er ég að lesa uppúr brennandi bók, tvær Maríur frá Lindu á vaxkertum og hreiður úr Flóanum, þetta er svona upprennandi, já líka teikning eftir sjálfa mig af Isisi teiknuð í Sýrlandi, svo vantar mig norn.

24 júlí 2008

Elísabet í mótþróanum

Nútímatrúarbrögð ganga útá að við eigum að vera í núinu, vera skapandi, og ekki safna neinu því við tökum það ekki með í gröfina.

Ég er aldrei í núinu, ég er í framtíðinni, nútíðinni og fortíðinni, - þrjár meginelfur sem streyma saman, skiptast og sameinast. Ég er aldrei skapandi nema ég sé um leið eyðandi. Um leið og ég skapa þessi orð eyði ég öðrum orðum.

Og ég safna hjartasteinum. Og langar að safna sápum. Og safna bókum eða safna þeim ekki en læt þær safnast að mér, líður vel að hafa þær í kringum mig, í stöflum, á borði, í skápum, í hrúgu.

Ef ég ætti að fara með eitthvert safn í gröfina myndi ég taka hjartasteinasafnið ef Alexía væri ekki búin að panta það handa sér og fleiri ömmubörnum. En ég fer kannski með einn stein, mitt eigið hjarta....

Amma Elísabet safnaði þjóðbúningadúkkum, það hefði verið fallegt ef dúkkurnar hefðu farið með henni. Þær hefðu kannski breyst í þjóðbúningadúkku-engla.

Meðvirkni er ævintýraheimur

Ég er Mjallhvít og dvergarnir eru skapgerðarbrestir mínir, ótti, gremja, sjálfsvorkun, sýndarmennska, kvíði, stjórnsemi, píslarvætti, - ég er alltaf að hugsa um þá og senda þá uppí námurnar að grafa út meiri kvíða, ótta, og svo framvegis. En ég er ógeðslega pirruð útí þessa dverga þótt ég sýnist vera næs og ég er að bíða eftir frelsun, björgun, prinsinum, sem gæti verið
1. karlmaður
2. lottóvinningur
3. stöðuhækkun
4. bara eitthvað stórkostlegt.

Og auðvitað er þetta allt foreldrum mínum að kenna því komu mér í þessa aðstöðu.

ÞAÐ MÁ EKKERT TRUFLA ÞENNAN ÆVINTÝRAHEIM.

Ef einhver bankar uppá felli ég hann inní ævintýraheiminn.

Getur verið að nornin sé að reyna fá mig tilað sjá að hlutirnir eru ekki í lagi?

En ég held áfram að vera svo fáranlega góð.

Nornin nottla fær mig tilað sofna, eplið hrekkur ofaní mig, hún kann ekki alveg á þetta en hún er að reyna en það þýðir ekki neitt, ég breyti henni í norn en í rauninni er þetta kannski vinkona mín.

ÆVINTÝRAHEIMURINN ER SKOTHELDUR.

MEÐVIRKNI ER ÆVINTÝRAHEIMUR.

23 júlí 2008

Embla Karen kíkti inn og skríkti

Hver nema Embla Karen kom hér í heimsókn í dag með foreldrum sínum, Ingunni og Garpi. Það er svo yndislegt að halda á henni í fangi sér og dáðst að henni, og svo skríkir hún af fögnuði og gleði yfir því að vera til. Og er svo íhugul og sposk á svipinn. Hún var með nýtt dót, alveg svakaflott, ég er að hugsa um að panta svona dót í jólagjöf, en lífið er yndislegt.

21 júlí 2008

Vinkonur

Ég er í mesta basli með vinkonur mínar þessa dagana. Kristín tildæmis hún hálfvegis þrælaði mér til Hveragerðis, ÚTÚRBÆNUM!!!! með því að segja þegar ég sagðist ekki komast af því blómin mín færu bráðum að blómstra, þá sagði hún eitthvað á þessa leið, ER ÉG ÞÁ EKKI LENGUR BLÓM!!!

Þetta var ekki sem hún átti að segja!!!!

Og Linda, hana hafa ég nú varla séð í marga mánuði og við hittumst fyrir tilviljun á Laugaveginum og fengum okkur KAFFI!!!! - eftir vandræðagang og almennt spjall um daginn og veginn, og fórum að tala saman og ég mannaði mig uppí að segja henni, já, mér fannst svo leiðinlegt þú hjálpaðir mér ekki að pakka þegar ég fór til Írlands og hjálpaðir mér ekki heldur fyrir fimmtugsafmælið mitt. Og þá sagði hún eitthvað á þessa leið: Já, þetta er einmitt eitthvað sem vinir eiga að gera!!!!

Þetta var ekki það sem hún átti að segja!!!!

Kristín átti að segja, já komdu bara þegar blómin hafa blómstrað, eftir svona tvær vikur. Ekkert mál, þá verð ég farin héðan.

Linda átti að segja, Elísabet, þú getur ekki verið að stjórna mér svona, að....

Kristín átti að verða auðmjúk og Linda átti að verða brjáluð.

Já, það er gott að vita hvaða pókerslag maður tekur í vináttu-bandinu.

Kær kveðja, Elísabet krútt

ps. ég er nú bara að blogga um þetta því ég heyri ekkert frá þeim!!!!

Sönn vinátta

ég er búin að vera í allt sumar að reyna berja saman atburðarás í leikritið mitt, það ætti nú að vera auðvelt, ég var að skrifa það í þrjá mánuði í vetur en það var nú öðru nær, gekk ekkert né rak fyrren ég fór til stínu bjarna í hveragerði þarsem hún hefur hreiðrað um sig og byrjuð að baka rúgbrauð með tilheyrandi, já segjum ekki meir, ég smitaðist, það var komið nýtt hverasvæði í líkama minn, en þarna eitt kvöldið bjó ég til sögumann og þá fór skriðan af stað, þetta var kannski alltútaf því að við kristín erum hættar að hlæja, eða því heldur hún fram, við vorum að koma úr sundlauginni, ég lagði arminn utanum hana og sagði, jæja, hvað var nú gott að fara í sund, samt hafði hún verið lungann úr tímanum að lyfta og ekki tala við mig, en þá segir hún og slær mig gjörsamlega útaf laginu, VIÐ ERUM HÆTTAR AÐ HLÆJA SAMAN, AFHVERJU ERUM VIÐ HÆTTAR AÐ HLÆJA SAMAN, mér fannst þetta ekki fyndið, ég bara réði ekki situasjónina, og varð ógeðslega pirruð, ég hafði ekki stjórn á aðstæðum, þá verð ég pirruð, frýs, fer í fýlu eða gríp til annarra óyndisúrræða, í staðinn fyrir að leyfa þessari yndislegu setningu að fljóta þarna um á jarðskjálftasvæðinu, en afhverju verð ég alltaf að hafa stjórnina, já afhverju verð ég alltaf að hafa stjórnina. það er svo að guð komist ekki að.

en guð er sprunga.... og gegnum þessa sprungu kemst ljósið inn.

og afhverju má guð ekki komast að.

ókei, við vitum hvernig fór fyrir sókratesi, gerði lítið úr konunni sinni og var svo alltaf halló strákar. en þessi spurning, afhverju má guð ekki komast að, það gæti verið efni í næsta blogg.

fyrsta sem mér dettur reyndar í hug er, að það gæti bent til þess að ég væri manneskja ha ha ha ha ha ha ha. ef guð er til þá er ég manneskja.

Hamingjan einsog í gær

Þá fyllti tunglið sem var fullt og ekkert venjulega fullt, heldur maraði svona í himinkafi og titraði í gegn, það var semsagt sunnanmegin í íbúðinni en norðanmegin í eldhúsglugganum voru öll hvítu blómin mín, að ilma svo þegar ég fór framúr einhverntíma í nótt þá glitraði allt, ilmaði og skein. Takk guð.

Hafið

Ef þú sefur hjá mér eina nótt
skal ég breyta þér í hafið,
í hafið salt og mjúkt,
ólgandi og blátt, löðrandi,
öldur, brim, þú mátt vera hafið
þessa einu nóttsem þú sefur hjá mér.

Já, þú mátt fylla uppí loft,
flæða útum gluggana,
þrengja þér að veggjunum,
titra og finna þrýstinginn,
þegar húsið gefur eftir,
við flæðum út,
þá er miðnætursól,
klukkan er rétt hálffjögur.

17 júlí 2008

Vinur minn rapparinn

Þetta var mitt eigið altari

þarsem ég tignaði sjálfa mig

öll kerin full af fortíð.

Nákvæmar leiðbeiningar um mig

og hvernig mig bæri að nálgast.



En þá hellir hann yfir mig textanum

og honum er alveg sama

hvernig hann kemur út,

orðin bara streyma

og ég er alveg að fara að gráta.

To Andrew

He came one day
trying to open up my door,
I am very supioucious,
he must be up to something,
perhaps want to eat my nails,

I dont believe somebody want to open
my door, they are always closed,
I never let anybody in,
maybe therefore he came at night,
and woke me up.

I am pretending, being strong, wice,
cool, perfect, with endless energie,
and I am acutally getting very sick
in all this show-business,
not knowing how to stop.

Villistrákur

strákur einsog blóm,
einsog eldur, vindur, hreyfing,
æ komdu með mér útá heimsenda,
við náum þangað í kvöld.

strákur með allt
blikandi og mosaþúfu
skerandi stjörnur
sem fljóta í hafinu

í þessari bylgjuhreyfingu
sem hann vekur í mér.
Ég meina eld sem hann vekur
og algjöra hlýðni,

tilað storka alheiminum.

16 júlí 2008

Allt í kærleika

Ég elska þegar er matur í ísskápnum og líka að elda, kótelettur með salti og pipar og nýjar íslenskar kartöflur, eitthvað svo namm og ég elska Elísabetu.

Ella Stína og stíngurinn

Ella Stína er lítil og hrædd, á himni eru stjörnur. Stjörnurnar byrja að stinga Ellu Stínu svo hún verður að píra augun. Allur heimurinn stingur Ellu Stínu svo hún er útstungin. Ella Stína á bágt. Loks stingur Ella Stína heiminn. Þá á hún ekki lengur bágt og á ekki lengur heim.

15 júlí 2008

Ræða Kolbrár í afmælinu mínu

Til Elísabetar
Já, já, og ég sem hélt að ég væri að fara flytja örlítinn ræðustúf yfir fjölskyldumeðlimum sem eru venjulegt alþýðufólk. Og það er nú þannig fólk sem mín elskulega systir hefur valið í kringum sig í gegnum tíðina enda fellur hún jafn vel í fjöldann og fíll í maurabúi.

Hvað sem því líður þá hlýtur það að vera kærkomin tilbreyting, hvort sem er fyrir okkar nánustu fjölskyldu eða aðra sem til þekkja að ég skuli halda hér tölu. Ég er sú eina af systkinunum sem er ekki að baða mig í sviðsljósinu frá morgni til kvölds og tjá mig um allt milli himins og jarðar sem er reyndar svolítið öfugsnúið þar sem ég er sú eina af systkinunum sem hef vit á því sem er milli himins og jarðar.

Samt sem áður hefur það ekki skort að systir mín tjái sig um allt sem hægt er að láta sér detta í hug og í raun miklu meira en það. Hún talar um sjálfa sig, tilfinningar, leikhús, náttúruvernd, sjálfa sig, tilfinningar, fossana, sjálfa sig, klettana, tilfinningar, æskuna, fótbolta sjálfa sig, umhverfismál svo ég nefni nú ekki tilfinningar.

En talandi um tilfinningar þá er það ekki skrítið þó þær beri á góma þar sem systir mín er listamaður og listamenn eru tilfinningaverur. Listamenn eru í raun svolítið eins og Síamskettir eða Púðulhundar. Þeir þurfa mikla athygli, það þarf að klappa þeim, hrósa þeim og þeir þurfa mikla alúð og umönnun enda geta þeir í fæstum tilfellum séð um sig sjálfir. Þessi samlíking á þó ekki að öllu leyti við systur mína því síamskettir eru undantekningalaust mjög þrifaleg kvikindi.

Talandi hinsvegar aftur um ræðumennsku þá man ég reyndar eftir mjög athyglisverðu ræðutímabili hjá systur minni um tíma, en það var “leggja á borð” tímabilið. Þá dröslaði Elísabet með sér alls kyns skran og dót upp á svið er hún flutti ræður og lagði á borð, allt mjög gildishlaðið að sjálfsögðu!

Og skranið var allt frá dúkum, hnífasettum, kötlum, kjöthömrum, kertum, matarafgöngum, vigtum, sælgæti, skrauti og ég man ekki lengur hverju.... en að sjálfsögðu var hver og einn hlutur á borðinu tákn um eitthvað stórkostlegt og mjög tilfinningalegt....Þetta er það næsta sem Elísabet hefur komist að vera húsmóðir og í raun fátt í hennar fari sem minnir á eldhússtörf, nema náttúrulega útlitið því líkamsbyggingin og hárgreiðslan svipar töluvert til uppþvottabursta frá sjöunda áratugnum.

Og ég man líka eftir því að ekki máttu fleiri en þrír fjölskyldumeðlimir safnast saman öðruvísin en ræðuhöldin skullu á, rétt eins og í Tónaflóði hjá Julie Andrews, og allt brast allt í söng.. Því legg ég það til að við launum systur minni þessi góðu afköst og þökkum fyrir okkur með því að flytja öll góðan og tilfinningahlaðinn ræðustúf henni til handa.

Og ef einhver ykkar viljið grípa með ykkur eitthvað af dóti... borð eða annað, garðsláttuvélar eða húsdýr... er ég viss um að Elísabet kynni að meta það!!

En það að vera litla systirin í þessu sambandi var ekki alltaf auðvelt, trúið mér. Og við vorum aldrei neitt Yin og Yan, ooo sei sei nei. Við rifumst, elskuðumst og rifumst, rifumst og rifumst á ný ef því var að skipta.... Og stundum átti ég hreinlega ekki til orð yfir þessari systur minni, enda hafði hún ávallt yfir í orðræðunni........ enda manneskja bæði orðsins og ræðunnar.

Ég man t.d. eitthvert sinnið sem við fórum saman í sund, ég á viðkvæmasta skeiði kynþroskans, rétt um 13 – 14, uppfull af hormónum og sérlega komplexaður unglingur, var rétt að skola af mér í sturtunni til þess að hraða mér í sundbolinn og hylja nekt mína er ég heyri í gegnum vatnsniðinn í henni (sem og allar hinar 8 konurnar sem staddar voru í sturtuklefanum)
“ Guuuuð, Kolbrá!! Ertu rauðhærð að neðan????”

Þið farið kannski hjá ykkur?? En ég vorkenni ykkur ekki rassagat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið!!!!

En það er líka mjög auðvelt að vera stoltur af systur minni, og ég er það ansi oft....
Og það er í gegnum baráttur hennar...

Hvort sem er alkólismi, geðveiki, uppeldi uppáhaldsfrænda minna, ástar, náttúrverndar eða skáldskapar... Alla þessa málaflokka sem hún ber á sínum grönnu herðum.
Ég meina, hver þarfnast systkina sem gæti t.d. verið afreksmenn í íþróttum þegar maður hefur Elísabetu sem er afreksmaður í kynlífslýsingu í bókmenntum og geymir öll sín leyndarmál í píkunni???

Ef það er ekki afreksíþrótt þá veit ég ekki hvað. Og þegar maður les lýsingar Elísabetar þá getur maður ekki ímyndað sér annað en það hafi verið hún sem fann upp kynlífið.

Ég verð að segja fyrir mig... ég gæti bara gæti ekki verið stoltari!!!!
Ég gæti sagt svo margt fleira mín kæra sys en þú ert náttúrulega búin að segja það allt sjálf og svo miklu betur.

Ég árna þér heilla og vona að líf þitt verði skrautlegt og skemmtilegt næstu fimmtíu árin.

Flateyjarbók

ÚR FLATEY
Ella situr í fjörunni og horfir á rauða spóann. Hún vill taka hann inní klaustrið sitt, skera hann upp, taka út innyflin og borða þau. Svo getur hún flogið burt einsog rauði spóinn.

Ella horfir á ölduna sogast að landi og falla út aftur, alltaf sama hreyfingin, og hún hugsar sér að hún liggi í fjörunni og hvað verði þá um hana þegar guð tekur hana.

Ella horfir á litlu æðarungana sem stundum hverfa í sælöðrinu og skjóta svo upp kollinum, og hún hugsar sér að hún búi til óróa úr þeim og hengi óróann upp.

En það er ekki þannig, hún horfir á þetta allt gerast, hreyfast, og uppgötvar að þetta er ein harmónía. Þá biður hún bænirnar sínar.

Ella sér stelkina, steindepilinn og þrjár teistur, það er líka sjór og klettar, tvær teistur fljúga burt en sú þriðja er lengi kyrr áðuren hún flýgur. Ella var að hugsa um hvort hún gæti lagt hana á stein.

Ella sér margar kríur, og kríurnar ráðast á hana svo hún verður að bölva þeim og þá verður guð óþolinmóður.

Það eru fjöll allt í kringum Flatey, Ella veit af fenginni reynslu að þau þurrkast burt úr minninu og eyjan verður ein eftir.

Ella horfir lengi útum gluggann, klukkan er fjögur um nótt og sólin er hátt á lofti, hún hugsar um að ganga útí nóttina, í grasinu en er hrædd um að rekast á einhvern eða vera ekki ein.

Ella horfir á sjóinn, sólin glampar á hann, svo hverfur hún inní klaustrið sitt, þar er líka sól og sjór.

Ella fer inní húsið þarsem Flateyjarbók er geymd, það eru svo fallegir stafir í bókinni einsog á legsteinunum í kirkjugarðinum.

Ella les á alla legsteinana, hún passar að skilja engan útundan, þetta er svo erfitt verk að hún er að hugsa um að koma daginn eftir, svo þekkir hún eina konuna.

Ella bíður eftir bátnum, hún er að hugsa um skipstjórann en hann gæti eyðilagt klaustrið hennar sem hún er orðin svo leið á en það er á heimsminjaskrá.

Það eru engin ský á himni, en það voru ský í gær og hvöss austanátt. Þar á undan var steikjandi logn, það var líka sólstormur.

Ella er mjög áhyggjufull, það er útaf því sálin í henni er full af skelfingu og örvæntingu en er samt tóm. Svo Ella hugsar um eitthvað annað en það sem hún er að gera.

Þarsem vegurinn endar

: Mig langaði fyrst við erum komin úr Ártúnsbrekkunni að segja þér að ég fæ soldið í hnén gagnvart þér.
: Já, heldurðu að þú jafnir þig ekki á því.
: Ha, jú sjálfsagt. (Smá hlátur) Ég er nú ekkert vön að fá í hnén.
: Þetta gleður mig. Er það ekki málið, að gleðja fólk.
: Jú, það er gott að þetta gleður þig.
: Hvað er annars að frétta af Hrafni bróður þínum?
: Hrafni! Allt gott, hann býr í Trékyllisvík.
: Ég las þessa fínu bók eftir hann, þar sem vegurinn endar.

11 júlí 2008

Kristín Arna á afmæli í dag

Kristín Arna tengdadóttir mín en þau Jökull hafa verið sama í sex ár, - á afmæli í dag, hún er algjör snillingur og fegurðardís, og gaman að tala við hana, hún er núna í heimsreisu, tilgangur ferðarinnar er að finna hjartasteina handa tengdó ha ha ha.

Til hamingju, hamingju, hamingju!!!! Víííííí....;)

Hún er alltaf að koma á óvart og finna uppá einhverju sniðugu, hefur Kristínarlega sýn á lífið, og er bara algjört krútt og yndisleg ung kona. Takk fyrir að vera þú Kristín, - hvar sem þú ert í heiminum, hún er í heimsreisu!!! Ég elska þig.

10 júlí 2008

Að rústa ímyndinni

Ég er ekkert svona töff og kúl, ég er blíð og viðkvæm en þori bara ekki að vera það, því það gæti rústað ímyndinni, ég rústa bara sjálfri mér í staðinn, svo hef ég líka mikið skap en það gæti líka rústað ímyndinni. Og svo þori ég ekki í sólbað útá tröppurnar mínar því iðnaðarmennirnir í næsta húsi gætu haldið að ég þyrfti ekkert að vinna. Svo skil ég ekki afhverju ég er að játa þetta, ég er ekki fyrir neinum dómstól, því miður.

Hrefnuveiðimaðurinn

Hrefnuveiðimaðurinn var soldið góður í sjónvarpinu í gær, þegar Sigursteinn Másson sagði að við þyrftum að passa uppá ímynd Íslands, þá svaraði Hrefnuveiðimaðurinn: Hver er hún?

Þetta er einmitt góð spurning tilað spyrja sóleyjarnar að og fjalldrapann og telja svo inní nokkur sjálfsmorð unglinga af því þeir eru fastir í ímynd og geta ekki beðið um hjálp.

Ímynd Elísabetar

Hver er ímynd Elísabetar Jökulsdóttur, er hún eitthvað merkileg, er hægt að átta sig á ímyndinni, fer hún aldrei útfyrir mörkin, er hún hlýðin og góð og heldur sig innan rammans tilað passa uppá ímyndina, meira gullið, en ég er samt svo meðvirk að ég er alltaf að hugsa hverjir lesa þetta blogg og afhverju þeir kommenteri ekki og hvort ég sé svona leiðinleg og mig vantar einhvern tilað hugsa um mig og ef vændi væri leyfilegt þá mundi ég kaupa mér mann, og láta graffa húsið mitt en nú þarf víst leyfi til þess, ég er klikkuð yfir svona, leyfi tilað graffa húsið sitt, en nýja vodafone auglýsingin er skemmitleg, (nú er ég orðin einsog hinir bloggararnir og farnir að tala um þjóðfélagsmál, ég tala bara um málin í mínum haus) en mig vantar einhvern tilað hugsa um mig, vekja mig á morgnana, færa mér kaffi, elda mat handa mér, minna mig á eitthvað, setja harmóníkkutónlist á fóninn, pressa brúðarkjólinn, mig vantar svo mann á bak við konuna sem er nottla bara klisja en mig vantar svoleiðis klisju, ég held það yrði hrikaleg viðurkenning einsog Guðbergur segir, afhverju er hann annars ekki láta rökstyðja bullið í sér, hann er alltaf að segja þetta með viðurkenninguna, og alltaf að segja þetta með að vanti hugsun í ísl. bókmenntir, og svo bara þessu slegið fram, ég meina ég elska Guðberg en.... (þetta er tildæmis meðvirkni) afhverju má mér ekki finnast eitthvað ánþess að segjast elska hann. Og svo eitt, ég hitti konu um daginn, þá var ég í silfurslegnu þunglyndi og hún sagði: ég hélt þú værir svo stór og sterk, guð minn góður, ég hélt þú værir svo stór og sterk og svo ert þú bara svona, auminjga konan fattaði ekki að ég er allskonar, tilað ég geti verið stór og sterk get ég verið veik, en nei, nei, pína mig inní ímyndina, sjálfa Elísabetu Jökulsdóttur, pína hana inní stóru og sterku ímyndina, og ef ég á að vera þar, þá bara dey ég eða verð hauskúpa af hrossi, eða póstkort já. Ég meina, ef ég á að vera ímynd, en ekki ég sjálf.... Kafka hefði nú bilast yfir þessu ég sjálf.... stundum flýtur guð tildæmis inní mig.... ´já eða ýmislegt, ég er hætt að hugsa um karlmenn á kvöldin, ég hugsa bara um hvar ég er og ég er mikið að hugsa um að skipta um herbergi.

09 júlí 2008

Rósrauður haugur

Svo lagðist rósrauði ísbjörninn til hvílu og fólk lagði rauðar rósir ofaná hann og smám saman varð til einn stór rósrauður haugur. Og þannig varð miðnætursólin til.

*

08 júlí 2008

Undur og stórmerki

Ég fékk alltíeinu leið á karlmönnum, undur og stórmerki, sennilega á augnabliki einsog þessu sem alheimurinn hefur orðið til.

*

Þramm

Þramm, þramm, þramm, sagði ísbjörninn. En þá heyrði hann bamm, bamm, bamm.

Ísbjarnaröskur

Það skilur enginn í mér, hugsaði rósrauði ísbjörninn hnugginn, enda er ég villtur. En ég man þegar gengu 18 ísbirnir á land og þá voru ekki öll þessi læti og þegar eitthvað svona villt rekur á fjörurnar þá verður allt svo skrítið og ég get ekki hætt að segja ísbjarnarsögur svo ég rek upp ísbjarnaröskur. (Ýttu hér)

Ísbjarnarblóð

Þið munið eftir blóðinu á nefi ísbjarnarins, það var ekki blóð, þetta var rósrauði ísbjörninn.

Grátur rósrauða ísbjarnarins

Rósrauði ísbjörninn fór alltíeinu að gráta og hann grét og grét og grét og ætlaði aldrei að geta hætt. Tárunum var safnað í vaskafat og svo var hrært í þeim alveg þangað til þau voru komin á fleygiferð og búið að myndast svona svelgur.

Rósrauði ísbjörninn fær sófa

Þegar rósrauði ísbjörninn hafði verið smástund á Íslandi bauðst einhver tilað gefa honum sófa en rósrauði ísbjörninn skildi ekki sófann. Hann skildi bara allsekki sófann.

Þriðji ísbjörninn

Þriðji ísbjörninn var með hófa og hrútshorn og spratt þannig beint útúr goðsögunni eða þjóðsögunni.

Maðurinn í brúnni

Það er ekki alltaf hægt að flokka allt, hvað sé sólarlag, hvað séu fjöll, hvað himinn, hvað haf og maðurinn í brúnni.

*

Sólarlagið

Rósrauði ísbjörninn laumaðist inní sólarlagið, það var sama kvöldið og þetta rann allt saman.

*

Rósrauði ísbjörninn á forsíðu

Rósrauði ísbjörninn var með hramma og klær, allt mátulega stórt tilað rota mann með, svolgra hann í sig, velta sér um hamingjusamur á eftir en í dýrabókum stendur að dýr geti ekki orðið hamingjusöm og ekki tré eða blóm heldur, hamingjan er forréttindi mannskepnunnar einsog svo margt annað í þessum heimi svo það var ísjakinn sem rósrauði ísbjörninn átti útaf fyrir sig, því enginn maður vildi sitja á honum nema rétt þegar var verið að taka forsíðumyndina.

Rósrauði ísbjörninn - ritgerðarefni

Börnin í skólanum voru fengin tilað skrifa ritgerð sem hét: Rósrauði ísbjörninn, ekkert þeirra kannaðist við hann en blöðin voru öll útí tárum.

Ísbjarnarsál

Menn vita ekki hér að ég kem frá landi sjamana, frá landi goðsögunnar þarsem sálin á enn sinn fasta bústað, já menn vita ekki að ég er með sál, ísbjarnarsál og ef kallað er á sálina mína að fylgja sér þá gerir hún það en viðbúið að hún kalli aftur.

Ísbjörn í æðarvarpi

Ísbjörn í æðarvarpi, hugsaði ísbjörninn með sér, þetta hljómar eitthvað svo vel og svo át hann öll eggin og hugsaði: Æðarvarp í ísbirni, rosalega er ég fyndinn, víííí....

Ísbjörn í æðarvarpi II

Loksins er ég orðinn krútt, hugsaði ísbjörninn í æðarvarpinu, ég ætla gera mér sæng úr öllum þessum æðardúni og í staðinn mega kollurnar fá feldinn minn.

En fréttin sú komst aldrei í loftið enda hver skilur að fréttir ferðist nútildags bara í loftinu þegar ísbjörninn synti alla þessa leið.

*

Þriðji ísbjörninn

Þegar ísbirnirnir voru lagðir að velli höfðu menn engin huggunarorð handa sjálfum sér svo þeir fóru í messu en guð var kominn svo langt uppí himinninn að þeir gátu ekki teygt sig í hann, svo eftir heilabrot og niðurgang fundu þeir út að þetta voru fjölmiðla-ísbirnir og því réttdræpir og menn þyrftu enga huggun yfir því að hafa drepið þá. En þá fór ísbjörn að ofsækja þá í draumi og lapti upp vatnið þeirra sem þeir höfðu sett í skál fyrir utan húsið, vatnið var gert úr kristöllum og á hverjum degi settu mennirnir nýtt vatn í skálina og ísbjörninn lapti allt upp í draumum þeirra, menn fengu eitthvað í kverkarnar, og vissu ekki að þarna var þriðja ísbirnum rétt lýst.

Ráðgáta

Það kom jarðskjálfti í Hveragerði 29. maí og enginn vissi að konan sem átti afmæli þennan dag býr í miðju þorpinu.

Rósrauði ísbjörninn I

Þegar rósrauða ísbjörninn rak að landi skömmuðust menn svo fyrir hann að þeir földu hann í gróðurhúsi þarsem voru ræktaðar rósir. Þar skalf rósrauði ísbjörninn af tilbeiðslu eða ótta eða hvort hann át allar rósirnar, þær gætu líka hafa étið hann, ég er alveg að fara að gráta.

Rósrauði ísbjörninn II

Einu sinni rak rósrauðan ísbjörn að landi, ég veit ekki afhverju mér datt það í hug, það kom í gærkvöldi þegar mér leiddist yfir því að fara að sofa, og miðnætursólin hafði glennt sig einsog risastórt kvikmyndatjald yfir kvöldið. Sumt kemur bara og ég held þetta hafi ekkert haft með hlýnun jarðar að gera.

Rósrauði ísbjörninn

Einu sinni rak rósrauðan ísbjörn að landi, hann sat prúður og penn á ísjakanum sínum, svona rósrauður og fínn, allir komu hlaupandi niðrí fjöru tilað bjóða hann velkominn og hentu rósum til hans, rósrauði ísbjörninn, rósrauði ísbjörninn, og svo upphófust miklar spekúlasjónir hvar átti að hafa ísbjörninn því einhverstaðar varð að hafa hann og var honum að endingu komið fyrir í Ikea. Þar breyttist þessi rósrauði ísbjörn í glórulaust rándýr sem eirði engu og var hann uppfá því kallaður Ikea-björninn en hafði áður verið rósrauður en engum datt í hug að setja hann aftur á jakann sinn enda hafði gleymst að setja jakann í frysti.

07 júlí 2008

Góð í höfðinu

Ég var að tala um að þetta væri allt í höfðinu á mér að ég væri ekki nógu góð, ég held ég sé ekki nógu góð í höfðinu.

Ha ha ha ha ha ha... ég er svo fyndin.

Sólskinið í júlí

Ég er góð en ég kemst ekki útí sólskinið. Fjöllin er í blámóðu og sjórinn dúar, hann er svo sléttur.

Ég er góð

Ég er alltaf að skammast í mér að ég sé ekki nógu góð, ekki nógu góð móðir, rithöfundur, dóttir, vinkona, systir, amma, aa-manneskja, tengdamamma, og svo endalaust framvegis. Ég komst að því í dag að þetta er vitleysa, þetta er bara í höfðinu á mér, þetta stendur hvergi, þetta hefur ekki komið í mogganum, það hefur enginn kvartað í fjölskylduboðunum og kassadömurnar hafa ekki minnst á þetta einu orði.

05 júlí 2008

Ferðahugur

Þegar ég var lítil voru mörg orð skrítin, einsog ferðahugur, einsog eitthvað gæti breytt huganum og hann gæti orðið ferðahugur, einsog ferðahugurinn laumaðist einhverstaðar inní hugann, var ferðahugur kannski hugtak útaf fyrir sig?

Er kominn ferðahugur í þig?

Svo voru mörg fleiri skrítin orð einsog bráðkvaddur, það var alveg voðalegt orð, að kveðja í skyndingu, fyrirvaralaust, einsog maður bráðnaði inní sig, gæti kannski ekki einu sinni kvatt, og líka eitthvað dularfullt sem enginn réði yfir þegar ég spurði mömmu en hún kunni venjulega skil á öllum orðum.

*

03 júlí 2008

Halló

Ég hef fylgst með fólki, það talar við sjálft sig, já það hefur ýmislegt að segja sjálfu sér, margt áríðandi, léttúðugt og allt þar á milli, þetta er bara svona þessi leynilega aðgerð sem fólk hefur þörf fyrir.

02 júlí 2008

Töfrahugsun

Ég er með töfrahugsun, í kvöld var ég að hugsa um að skreppa á tangóball þarsem vinkona mín væri en var eiginlega ekki í stuði svo ég sleppti því þangað til það rann upp fyrir að hugsanlega gæti maðurinn sem ég er skotin í verið þar, (ég veit ekki tilþess hann hafi áhuga á tangó en hann gæti skyndilega hafa fengið hann) nú ef hann væri ekki þar, væri hugsanlega sá sem mér væri ætlaður þar. Þetta er töfrahugsunarháttur. Einsog um daginn hitti ég mann á bar sem ég var að tala við og þá kom vinkona mín og sagðist þurfa að flýta sér heim svo ég kvaddi en fékk svo rosalega bakþanka að kannski hefði ég átt að fara og kynnast manninum betur, og kannski væru örlögin eitthvað að pæla sem ég hefði nú sundurslitið. Þetta er töfrahugsunarháttur.

Ráð við sektarkennd

Muna eftir sakleysinu.

*

Ráð ef maður heldur að maður hafi fengið póst

Athuga póstinn sinn. Í hvert sinn.

Ráð ef illa gengur að hafa sig að verki

Hugsa um að þetta sé ekki rétti tíminn og best sé að gera annað.

Ráð tilað endurnýja sig

Fá leið á því sem maður hefur verið að gera, fá alveg uppí kok, þangað til maður ælir af leiðindum. Leiðinn er stórlega vanmetinn.

Og svo er hérna ráð tilað fá kjark tilað gera eitthvað nýtt þegar maður hefur leið á því gamla: Byrja á því að GÆLA við hugmyndina. Gælur er stórlega vanmetnar.

Ráð til að hætta að hanga á netinu

1. Vera á netinu allan daginn og alltaf þegar maður kemst á netið og alltaf að tjékka á póstinum, fréttunum, hinum bloggsíðunum, segja öllum frá því og tala ekki um annað, og fara svo aftur heim og á netið þangað til maður er kominn með svo ógeðslega mikið leið á þessu að maður hættir því.

Hvernig komast skal 20 ferðir í sundi

1. Taka eina ferð í einu.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Ímynda sér að heilinn sé sófi og maðurinn liggi í honum.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Hugsa ekki um neitt annað.

Gott ráð ef maður hefur mann á heilanum

1. Skera úr sér heilann, fylla hann af hveiti og rúsínum, baka hann í ofni, setja hann í frysti, taka hann út, skera hann í marga litla bita og fá sér með kaffinu.

Gott ráð ef maður kemst ekki í sund

1. Hanga heima allan daginn og hugsa um það.

Gott ráð við afbrýðissemi

Skera sig með rakvélarblaði uppeftir handleggjunum og kveikja svo í kjólnum.

01 júlí 2008

Góð ráð við ástinni

Taka nál og þráð og sauma fyrir öll sárin með ástinni.

Ella Stína hlutgervingur

Ella Stína las um konur væru hlutgerðar svo hún neitaði að verða kona og þegar brjóstin byrjuðu að vaxa á hana píndi hún þau inni, svo ef horft er inní Ellu Stínu er hún hlutgerð.

Hugsuðurinn Ella Stína

Hvernig get ég breytt einhverju ef ég er allt? dæsti Ella Stína. Ég get ekki breytt fjöllunum því þau eru Ella Stína, ég get ekki breytt veginum því hann er Ella Stína, ég get ekki breytt vatninu því vatnið er Ella Stína.
Þú verður bara að breyta Ellu Stínu, sagði Ella Stína.
En þá hrynur heimurinn, sagði Ella Stína.
Við komum að því síðar, sagði Ella Stína.

Frímerki af Ellu Stínu

Ella Stína lét útbúa frímerki af sér, og þar var mynd af lóu, og svo lét hún útbúa bréfsefni og umslög með sér, þar voru svona myndir af Ellu Stínu, og hún undirritaði öll bréf í heimsveldinu, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, og svo lét hún setja mynd af sér framan á hrísgrjónapakkana og kókapöffspakkana og mjólkurfernurnar, og Ella Stína fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína og þá fór hún aftur að búa til frímerki af sér og gerði allt aftur af sér og gerði þetta allt aftur og fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína, og þá gerði hún það aftur, allt uppá nýtt, og hún fékk alltaf sömu útkomuna, og þá kom stærðfræðingurinn uppí Ellu Stínu (hún las þetta reyndar í sporunum) að ef maður gerði alltaf það sama fengi maður sömu útkomuna, svo Ella Stína hætti að gera frímerki af sér, og bréfsefnin, hrísgrjónapakkana, en bjó til plaköt af sér en varð jafnþreytt, hún var alltaf að riða einsog hún væri að riða til falls, sljó og mundi ekki neitt, já riða til falls, og þá fann Ella Stína út að það var ekkert heimsveldi, hún var heimsveldi, - er það ekki önnur útkoma, spurði hún. Nei, nei, nei, það er samasemmerki, og má ekki vera samasemmerki. Voðalega er erfitt að skrifa söguna, sagði Ella Stína, voðalega erfitt, afhverju var mynd af lóu á frímerkinu þínu, af því ég er allt, sagði Ella Stína, þú verður að breyta einhverju tilað fá aðra útkomu. Já, sagði Ella Stína. Já einmitt.

Skrímslið

Ella Stína trúði ekki á Skrímsli og það kom henni í koll þegar Skrímslið kom loksins og síðan vitum við ekkert hvað gerðist.

Kóngurinn Ella Stína

Ella Stína var kóngur og það erfitt fyrir hana því hún bjó ekki í höllinni.

Ofnæmi

Ég er með:

1. Nikkelofnæmi
2. Skeggofnæmi
3. Moskítóofnæmi

Man ekki eftir fleirum ofnæmum, nema kannski er ég með ofnæmi fyrir gróðri og verð að búa við hafið, og svo er ég með ofnæmi fyrir því en þó ekki líkamlegt, meira andlegt ofnæmi fyrir því að drekka úr plastglösum, ég verð að hafa postulínsbolla.