ÚR FLATEY
Ella situr í fjörunni og horfir á rauða spóann. Hún vill taka hann inní klaustrið sitt, skera hann upp, taka út innyflin og borða þau. Svo getur hún flogið burt einsog rauði spóinn.
Ella horfir á ölduna sogast að landi og falla út aftur, alltaf sama hreyfingin, og hún hugsar sér að hún liggi í fjörunni og hvað verði þá um hana þegar guð tekur hana.
Ella horfir á litlu æðarungana sem stundum hverfa í sælöðrinu og skjóta svo upp kollinum, og hún hugsar sér að hún búi til óróa úr þeim og hengi óróann upp.
En það er ekki þannig, hún horfir á þetta allt gerast, hreyfast, og uppgötvar að þetta er ein harmónía. Þá biður hún bænirnar sínar.
Ella sér stelkina, steindepilinn og þrjár teistur, það er líka sjór og klettar, tvær teistur fljúga burt en sú þriðja er lengi kyrr áðuren hún flýgur. Ella var að hugsa um hvort hún gæti lagt hana á stein.
Ella sér margar kríur, og kríurnar ráðast á hana svo hún verður að bölva þeim og þá verður guð óþolinmóður.
Það eru fjöll allt í kringum Flatey, Ella veit af fenginni reynslu að þau þurrkast burt úr minninu og eyjan verður ein eftir.
Ella horfir lengi útum gluggann, klukkan er fjögur um nótt og sólin er hátt á lofti, hún hugsar um að ganga útí nóttina, í grasinu en er hrædd um að rekast á einhvern eða vera ekki ein.
Ella horfir á sjóinn, sólin glampar á hann, svo hverfur hún inní klaustrið sitt, þar er líka sól og sjór.
Ella fer inní húsið þarsem Flateyjarbók er geymd, það eru svo fallegir stafir í bókinni einsog á legsteinunum í kirkjugarðinum.
Ella les á alla legsteinana, hún passar að skilja engan útundan, þetta er svo erfitt verk að hún er að hugsa um að koma daginn eftir, svo þekkir hún eina konuna.
Ella bíður eftir bátnum, hún er að hugsa um skipstjórann en hann gæti eyðilagt klaustrið hennar sem hún er orðin svo leið á en það er á heimsminjaskrá.
Það eru engin ský á himni, en það voru ský í gær og hvöss austanátt. Þar á undan var steikjandi logn, það var líka sólstormur.
Ella er mjög áhyggjufull, það er útaf því sálin í henni er full af skelfingu og örvæntingu en er samt tóm. Svo Ella hugsar um eitthvað annað en það sem hún er að gera.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Elísabet, ég elska þessi ljóð, þetta er alveg nýr tónn, og ég elska þig líka útaf lífinu.
Skrifa ummæli