01 júlí 2008
Frímerki af Ellu Stínu
Ella Stína lét útbúa frímerki af sér, og þar var mynd af lóu, og svo lét hún útbúa bréfsefni og umslög með sér, þar voru svona myndir af Ellu Stínu, og hún undirritaði öll bréf í heimsveldinu, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, Ella Stína, og svo lét hún setja mynd af sér framan á hrísgrjónapakkana og kókapöffspakkana og mjólkurfernurnar, og Ella Stína fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína og þá fór hún aftur að búa til frímerki af sér og gerði allt aftur af sér og gerði þetta allt aftur og fann út að það var mikil vinna að vera Ella Stína, og þá gerði hún það aftur, allt uppá nýtt, og hún fékk alltaf sömu útkomuna, og þá kom stærðfræðingurinn uppí Ellu Stínu (hún las þetta reyndar í sporunum) að ef maður gerði alltaf það sama fengi maður sömu útkomuna, svo Ella Stína hætti að gera frímerki af sér, og bréfsefnin, hrísgrjónapakkana, en bjó til plaköt af sér en varð jafnþreytt, hún var alltaf að riða einsog hún væri að riða til falls, sljó og mundi ekki neitt, já riða til falls, og þá fann Ella Stína út að það var ekkert heimsveldi, hún var heimsveldi, - er það ekki önnur útkoma, spurði hún. Nei, nei, nei, það er samasemmerki, og má ekki vera samasemmerki. Voðalega er erfitt að skrifa söguna, sagði Ella Stína, voðalega erfitt, afhverju var mynd af lóu á frímerkinu þínu, af því ég er allt, sagði Ella Stína, þú verður að breyta einhverju tilað fá aðra útkomu. Já, sagði Ella Stína. Já einmitt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli