16 ágúst 2008

SÚK - arabískur markaður

"SÚK“

Glæsimarkaður í Perlunni, laugardaginn 30. ágúst 2008

Arabísk stemmning, vandaðar vörur, flott uppboð og ævintýralegar uppákomur!
Ágóðinn rennur óskiptur til uppbyggingar á skóla fyrir börn og konur í Jemen

Nú getur þú lagt góðu málefni lið!
Ef þú átt vandaðan fatnað eða muni sem hægt er að selja á markaðnum
getur þú með einföldum hætti látið gott af þér leiða.
Tekið er á móti fatnaði og munum að Síðumúla 15*

Við óskum eftir:
Vönduðum og vel með förnum nýjum og notuðum fatnaði; kjólum, skóm, pilsum, buxum, peysum, jökkum, veskjum, slæðum, sjölum, höttum, hönskum, jakkafötum, skyrtum, bindum, ermahnöppum, frökkum, beltum, töskum, barnafötum, leikföngum, hálsmenum, hringum, eyrnalokkum, armböndum, fallegum bókum, púðum, teppum, mottum, vösum, lömpum, myndum og málverkum.

Upphaf ævintýrisins
Árið 2005 fékk Jóhanna Kristjónsdóttir verðlaun fyrir bók sína Arabíukonur og fyrir verðlaunaféð stofnaði Jóhanna sjóð til styrktar jemenskum stúlkum. Stofnfjárhæðin var 350 þúsund krónur. Nefndi hún sjóðinn Fatimusjóðinn í höfuðið á stúlkunni Fatimu í Þúla sem þá var 14 ára gömul og átti sér þá ósk heitasta að komast í háskóla. Jemen er fátækasta ríki arabaheimsins og staða fólks, einkum kvenna, bágborin. Talið er að um 60 prósent kvenna séu ólæsar.

Börn og konur fá tækifæri
Þökk sé Jóhönnu og samstarfi hennar við Nouriu Nagi, sem rekur miðstöð fyrir börn í Sanaa, fá 250 börn tækifæri til að ganga í skóla og njóta annarrar aðstoðar. Auk þess fá 24 konur að sækja námskeið. Börnin og konurnar eiga það sameiginlegt að búa við afar bág kjör og erfiðar aðstæður.
Í miðstöðinni komast börnin í skóla, fá skólabúning, skólavörur, reglulega læknisskoðun, leiðbeiningar og aðstoð við heimanám þrisvar í viku, föt fyrir hátíðir og þegar mjög illa stendur á hjá fjölskyldum eru þær styrktar með matargjöfum. Auk þess fá börnin kennslu í skyndihjálp, íþróttum, handmennt, tónlist, ljósmyndun og fleiru sem almennt er ekki í boði í jemenskum skólum.

Konurnar læra að sauma, fá lestrarkennslu, tölvukennslu og leiðbeiningar um hreinlæti og ungbarnavernd. Að auki hefur þeim boðist að taka þátt í teiknitímum og leikrænni tjáningu. Konurnar fá leiðbeiningar um hvernig þær geta stofnað lítil fyrirtæki og hafa sumar konurnar útbúið ýmsa gripi sem þær selja. Það kostar um 270 dollara á ári að styrkja hvern einstakling í miðstöðinni. Mörg börn og konur bíða þess að komast að.

Frábær árangur
Hanak Al Matari sem stundað hefur nám í miðstöðinni verður fyrsti nemandinn til að hefja háskólanám í haust. Stúlkan mun leggja stund á hagfræði og stjórnmálafræði. Þetta er stórkostlegur árangur. Hanak er úr stórri fjölskyldu og foreldrar hennar eru bláfátækir. Faðirinn er húsvörður í verksmiðju í Hadda og fær lítið húsnæði fyrir fjölskylduna í stað launa. Móðirin, sem vinnur við ræstingar, hefur sótt fræðslu í miðstöðinni og lætur sig nú dreyma um að setja á stofn litla saumastofu.

Framtíðarhúsnæði
Markmiðið er að miðstöðin geti sinnt 400 börnum og 40 konum en til þess að það sé hægt þarf stærra húsnæði. Áætlaður kostnaður er ríflega 30 milljónir fyrir húsnæði, tæki og búnað. Í húsnæðinu verður einnig aðstaða fyrir sjálfboðaliða sem munu starfa þar tímabundið. Nýja húsnæðið verður mikill akkur fyrir alla starfsemina.
Ef þú ásamt góðum hópi fólks ert til í að leggja þitt af mörkum mun ætlunarverkið takast!
* Opnunartími að Síðumúla 15 (gengið inn baka til)
Fimmtudagur 14. ágúst 11-13
Laugardagur 16. ágúst kl. 10-16
Þriðjudagur 19. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 20. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 21. ágúst kl 11-13
Laugardagur 23. ágúst kl. 10-13
Þriðjudagur 26. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 27. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 28. ágúst kl. 11-13

Allar nánari upplýsingar veitir Sigþrúður Ármann í síma 699-6613

SÚKK Í PERLUNNI 3o.ÁGÚST....

Og í Arabalöndunum heitir þetta: Eigum við að skella okkur í súkkið, skellum okkur í súkkið!!!

2 ummæli:

Kristín Bjarnadóttir sagði...

flott framtak ... kemst því miður ekki í súkkið fyrr en þá í næstu viku, er á Dans-og leiklistarhátíð í Gautaborg ... hún er meiriháttar, bloggaði smá í gær,
lúkk att my side!
love/kb

Nafnlaus sagði...

hello dear lyng, ... takk fyrir komment, vona þú sjáir eitthvað skemmtilegt á hátíðinni,

þín elísabet