03 júlí 2012
Litla stúlkan með maníurnar
Litla stúlkan með maníurnar notaði alltaf eina og eina maníu í einu tilað lýsa líf sitt upp. Þegar hversdagsleikinn var að drepa hana þá tendraði hún eina maníu og fylltist ofurkrafti, hún sá allt í nýju ljósi, heimurinn hafði tilgang, hún varð falleg og gædd snilligáfu, hún var útvalin af guði til góðra verka og þurfti bara að komast í sjónvarpið tilað segja öllum að hún ætti að breyta heiminum, allt breytti um merkingu, mannanöfn, götuheiti og svo framvegis öðlaðist nýja og spennandi merkingu í ratleik sem Litla stúlkan með maníurnar stjórnaði.
En svo dró ský fyrir sól, manían kulnaði og litla stúlkan með maníurnar var annað hvort svipt sjálfræði, lokuð inni á Kleppi eða hún bað sjáf um innlögn, þar ráfaði hún um ganga, iðraðist sáran, heimurinn varð aftur venjulegur og hún varð hún en ekki frelsari mannkynsins eða ástkona heimsins, þvílík leiðindi og svo fékk hún pillur.
En svo kom að því að Litla stúlkan með maníurnar dró upp eina maníu úr pússi sínu og þá varð nú fjandinn laus og flugeldasýningarnar gátu byrjað, hún fékk aftur hlutverk í heiminum, fylltist ofurkrafti og tilgangurinn draup af hverju strái, það var hún ein sem bjó yfir þessu leyndarmáli, stundum töluðu blómin, og dýrin, orðin fengu aðra merkingu, stórbrotinn hugur hennar brann að lokum út.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli