29 júlí 2009

Fallegustu hundar í heimi


Þetta eru ömmuhundarnir mínir Zizou og Keano í eigu Jökuls og Kristínar, fyrstu hundar sem ég kynnist, undursamlegt að ganga með þá, ég gleymi öllu öðru, og get ekki hugsað um annað á meðan. Miklir persónuleikar.
Myndin er tekin útí Gróttu af ljósmyndara ÁMJ.

Bullaðu bara eitthvað: Ég er byrjuð að tala.

Svo fallegt tungumálið hennar Emblu Karenar, mig langar að eiga það á bandi. Ég fór í kyrrðarstund í Kristskirkju í hádeginu, orgel básúna og söngur.

13 júlí 2009

Sjálfshyggjan á bálið


Hér sést engillinn sem Elísabet breyttist í eftir að hafa kastað sjálfshyggjunni sinni á bálið. Einsog þið sjáið er hún í bleiku, angurvær og sterk, og hún er að drekka úr túrkísbláum bolla. (Myndirnar tók Hafdís Hrund en þetta er í fyrsta sinn sem Ekj tekst að setja myndir inná bloggið og hætta að væla í öðrum að gera það fyrir hana. En þær komu samt í öfugri röð en hva!!)





Hér er bálið sem nornin Elísabet kastaði sjálfshyggjunni sinni á. Konan með skallablettinn sem notar sjálfshyggjuna sem staf tilað styðjast við það er Elísabet. Hún uppgötvaði í þessum gjörningi að hún notar sjálfshyggjuna sem lurk tilað "lemja fólk með" og sem staf tilað styðjast við.




Hér sjáið þið nornina Elísabetu sem er á leið með sjálfshyggjuna á bálið. Hún hefur valið sér lurk í Kolgrafarvík á Ströndum þareð hún var búin að fá nóg af sjálfshyggjunni og allt þetta ég ég ég... ég á bágt, ég er feit, ég er edrú, ég þarf að keyra þessa vegi, ég þarf að fá mér tyggjó, ég þarf að anda, ég þarf að eiga bágt, ég þarf að vera í sokkum, allt þetta ég ég ég. Einn daginn í Trékyllisvík var hún tilbúin að kasta því á bálið og hefja nýtt líf. 5.júlí 2009






Góðan daginn, tæknin lætur ekki sér hæða.

Tilkynning

Bráðum kemur stórkostlegt blogg með myndum um sjálfshyggjuna. Þegar ég verð búin að læra að setja myndir inn. Takk fyrir.

Sófasaga

Konan í hálsinum fannst hálsinn merkilegur staður, svo merkilegur að hún lagði sig í sófann og hugsaði um það.

Alvarleg veiki

Einu sinni var kona sem var alltaf að reyna að stjórna og þegar það tókst ekki reyndi hún enn meira að stjórna og þegar það tókst ekki heldur tók hún bláu pillurnar sínar... virkilega gott stjórntæki. Og þá fyrst sást að konan var veik, að stjórnsemi getur verið veiki.

Um stjórnun

Sumt fólk er alltaf að reyna stjórna manni, það notar allskonar ráð til þess, hrós, áhyggjur, hótanir, beitir öðru fólki fyrir sig, peninga, það er alltaf að reyna að stjórna og ef það stjórnar heldur það að það sé ekki veikt, segir sumsé: Fyrst ég get stjórnað öðrum er ég ekki veik.

Kok og kúgun

Konan í hálsinum flutti enn lengra, hún flutti niður í kok en það er þar sem kúgunartækið býr, það sem lætur mann kúgast.

Konan með hálsinn

Einu sinni var kona með háls, í hálsinum geymdi hún ýmislegt einsog peningaveskið sitt, minnisbókina, gleraugun, og sólhlífina. Einu sinni þurfti hún að skúra eldhúsgólfið og það var verulega sárt. Það var þó bót í máli að verið var að leika Hvíta máva í útvarpinu.

Ömmuhelgi

Embla Karen gisti um helgina í fyrsta sinn og kenndi ömmu sinni mikilvæga lexíu. Hún lá í rúminu sínu og var að æfa sig að halda á snuðinu með tánum!!! Þegar það tókst klappaði hún en þegar það mistókst reyndi hún aftur.... Alveg í algleymi æfingarinnar.

En það var yndislegt að heyra andardráttinn hennar á Framnesvegi um nótt og vakna svo um morgun og fara og tína blóm og elta kisur. Svo spilaði hún á píanóið og sagði Gakur sem hlýtur að túlkast sem Garpur og mamma. Annars á hún sitt eigið gullfallega tungumál sem streymir tildæmis fram þegar hún talar í síma við einhvern greinilega mikinn vin hennar.

Svo í kvöld passaði ég Zizou og Keanó og við fórum í göngutúr útí Gróttu!!! Það var yndislegt og veðrið með ólíkindum. Þau voru svo sæt og forvitin, svo öguð og lífsglöð, - munaði engu að þau veiddu spóa í matinn og grilluðu hann á teini.

Ég sagði þeim að mófuglar og spófuglar á Íslandi væru háheilagir en þau skildu það ekki, þau sáu bara grill-spóann á hlaupum fyrir framan þau og ég átti fullt í fangi með að halda þeim. Svo stilltu þau sér upp fyrir ljósmyndara. Svo þetta var algjör dásamleg ömmuhelgi.

11 júlí 2009

Kristín 25 ára!!!

Kristín Arna konan hans Jökuls á afmæli í dag hún er snillingur og getur séð lífið beint framundan. Hún er 25 ára fögur blómarós og hefur vísindalega sýn á lífið. Til hamingju Kristín.

Ella Stína kakali

Ég var að koma úr Reykholti, alveg búin á því, ég er að fatta að það er eitt sem ég þarf að nota og það er sjálfstraustið mitt, ekki það að mig vanti sjálftraust, heldur nota ég það ekki alltaf.

08 júlí 2009

Jóhanna Engilráð

Ég var í skírn í Trékyllisvík, Hrafn bróðir minn og Elín kona hans skírðu litla barnið sitt, það hlaut nafnið Jóhanna Engilráð, ... sterkt og hugljúft nafn. Barnið ómótstæðilegt og forvitnilegt, veislan unaðsleg í þoku sem sveipaði allt dulúð. Þeim tókst að ná saman bróðurpartinum af fjölskyldunni alla leið norður og héldu fallegar ræður og svo kyrjuðum við meiraðsegja kærleikann. Allir í sveitinni komu í veisluna og börnin sáu um skemmtiatriðin, - á eftir fórum við í Krossneslaugina þarsem öldurnar sleikja fjórða vegginn og um kvöldið var brenna og tveir bálkestir, annar til að grilla sykurpúðana, hinn tilað loga glatt.

Söngur Emblu Karenar

Ég var að passa Emblu Karen í gær og söng allar vísurnar og svo byrjaði hún að syngja la la la la la la la....

Taktu inn

Hvernig laufið bærist í golunni, hljóðið í lyklaborðinu þegar fingurnir þjóta yfir það, og bakkspeisið.

Veit ekki svörin

Ég hitti gamla kennarann minn úti á götu um daginn og spurði hvernig karakter ég hefði verið:Það var ekki hægt að kvarta undan þér sagði hann. Þið voruð tvær sem hétuð Elísabet. Mér fannst þetta ekki nógu krassandi svar en bætti við að pabbi og mamma hefðu verið nýskilin, og ég hefði verið lögð í einelti í bekknum. Já, sagði gamli kennarinn minn og horfði þessum blíðlegu augum sínum útí loftið, ég vissi ekkert af því. Við vissum ekki alltaf svörin. Mér fannst þetta svo flott hjá honum að viðurkenna það.

Svo hitti ég unga stúlku sama dag sem hafði verið að segja kærastanum sínum upp og var á algeru óvissusvæði, nú veit ég ekkert hvað gerist, sagði hún, ég veit ekki svörin.

Þarsem ég var búin að heyra sama frasann tvisvar sama dag fór hjátrúin að gera vart við sig, nú gæti eitthvað hræðilegt gerst fyrir mig en þegar ég fór að hugsa þetta betur sá ég að þetta átti best við í kærastamálum mínum: Ég hringi aldrei í einhvern sem ég er skotin í tilað bjóða honum á stefnumót af því ÉG VEIT EKKI SVARIÐ.

Góðar stundir.

06 júlí 2009

Taktu inn

Murrið í olíunni á pönnunni undir hrefnusteikinni, brakið í skornum lauknum, glamrið í pottlokinu þegr kartöflurnar sjóða, hvítu blómin í gylltum eldhúsglugganum sem vísar til hafs. Og rennandi vatn úr krananum.

Að taka inn lífið

Að taka inn lífið, taka inn blómin, vatnið, kertalogann, að taka inn allt lífið svo maður fái innsæi.

Ég sá litla stelpu með pabba sínum á bílaplaninu við Nóatún og hún sagði, sjáðu pabbi, pollur, en pabbinn var að flýta sér og þau horfðu ekkert í pollinn en í honum speglaðist himinninn og svo var soldið skítugur. En pollur sem hún greinilega tók inn. Eða veitti athygli. Tók inn, útilokaði ekki, hafnaði ekki.

Ég lærði þetta á bekknum hjá Erni í dag, þessi þráláti verkur í þriðja auganu, einsog einhverju sé stungið inn og hrært. Allt lokaðist. Svo prófaði ég að taka inn, nuddstofuna, sporthúsið, kópavoginn, ég lærði þetta af Trékyllisvík sem sagði við mig: Elísabet, geturðu ekki tekið mig einsog ég er, gleymt því að ég er að fara í eyði, eða fara ekki í eyði, og séð mig einsog ég er, dregið mig inní þig. Takk.

Góða ferð.

Farið hefur fé betra

já, ég bloggaði hér um daginn að maður væri heilbrigður á milli maníukasta, þvílík gleðitíðindi, en, það er eitt en, að ég hef látið það eftir mér að verða hrædd við maníuna á milli, eða þunglyndið, og ég var að hugsa um það þegar menn detta ofanaf húsþaki eða eru næstum drukknaðir, keyra útaf, þá geta þeir orðið hræddir við húsþök, vatn eða vegi, ég er alltaf hrædd við að fara í maníu og hræðslan truflar venjulegt líf. Hér koma nokkur ráð í því sambandi:

1. Taka utan um sjálfan sig og segja: Æ, æ, æ, veiktistu skinnið mitt, svona svona þetta verður allt í lagi, ég skil að þú hefur orðið hrædd. Það er svo vont og sárt að veikjast svona.

(Ef maður getur ekki tekið utanum sjálfan sig er gott að fá einhvern annan til þess.)

2. Segja við sjálfan sig: Hvað með það þótt maður fari í maníu, þú lifðir þetta af, þótt þú finnir byrjunareinkennin geturðu leitað hjálpar.

3. Ef þetta dugar ekki segir maður: Farið hefur fé betra!

En það er semsagt betra að nota þessi ráð heldur en að láta hræðsluna ná tökum á sér "á milli".

Góðar stundir.

02 júlí 2009

Hún var greind með fórnarlamb

Ég gúgglaði geðhvörf eða bipolar 1 einsog ég er haldin. Einkennin eru sveiflur, háar hugmyndir, minnkaður svefn, og svo framvegis. Þetta kannaðist ég vel við og fékk síðast svona maníu fyrir tíu árum. En svo stóð eitt í viðbót: Fólk er heilbrigt á milli.

Heilbrigt á milli!!!

Ég er búin að vera tvo daga að jafna mig, eða þeas. fórnarlambið í mér því er ég er haldin af fórnarlambi þótt ég hafi ekki verið greind með það. Það verða virkileg framför í læknavísindum þegar fólk fer að greinast með fórnarlamb.

Styrkur

Reyndu að koma auga á styrkleika í fari annarra, það gefur styrk.

Heimsóknir

Í dag kom Zizou og Keano, Embla Karen, Garpur og Jökull í heimsókn, ég fílaði mig einsog alvöru mömmu og ömmu af því ég átti harðfisk og kókómjólk, og svo kom Linda í heimsókn og ég fílaði mig einsog alvöru vinkonu af því ég átti kanelkringlu með smjöri handa henni.

Fullkomleiki

Það er ekki bara ég sem verð að vera fullkomin, kærastinn minn verður líka að vera fullkominn.

01 júlí 2009

Konan síðan í gær

Ég hef ekki drukkið gos í fimm daga. Ótrúlegt en satt.

Hvar í andanum hefur þú verið?

Ert þú konan síðan í gær?