08 júlí 2009

Veit ekki svörin

Ég hitti gamla kennarann minn úti á götu um daginn og spurði hvernig karakter ég hefði verið:Það var ekki hægt að kvarta undan þér sagði hann. Þið voruð tvær sem hétuð Elísabet. Mér fannst þetta ekki nógu krassandi svar en bætti við að pabbi og mamma hefðu verið nýskilin, og ég hefði verið lögð í einelti í bekknum. Já, sagði gamli kennarinn minn og horfði þessum blíðlegu augum sínum útí loftið, ég vissi ekkert af því. Við vissum ekki alltaf svörin. Mér fannst þetta svo flott hjá honum að viðurkenna það.

Svo hitti ég unga stúlku sama dag sem hafði verið að segja kærastanum sínum upp og var á algeru óvissusvæði, nú veit ég ekkert hvað gerist, sagði hún, ég veit ekki svörin.

Þarsem ég var búin að heyra sama frasann tvisvar sama dag fór hjátrúin að gera vart við sig, nú gæti eitthvað hræðilegt gerst fyrir mig en þegar ég fór að hugsa þetta betur sá ég að þetta átti best við í kærastamálum mínum: Ég hringi aldrei í einhvern sem ég er skotin í tilað bjóða honum á stefnumót af því ÉG VEIT EKKI SVARIÐ.

Góðar stundir.

Engin ummæli: