13 júlí 2009

Ömmuhelgi

Embla Karen gisti um helgina í fyrsta sinn og kenndi ömmu sinni mikilvæga lexíu. Hún lá í rúminu sínu og var að æfa sig að halda á snuðinu með tánum!!! Þegar það tókst klappaði hún en þegar það mistókst reyndi hún aftur.... Alveg í algleymi æfingarinnar.

En það var yndislegt að heyra andardráttinn hennar á Framnesvegi um nótt og vakna svo um morgun og fara og tína blóm og elta kisur. Svo spilaði hún á píanóið og sagði Gakur sem hlýtur að túlkast sem Garpur og mamma. Annars á hún sitt eigið gullfallega tungumál sem streymir tildæmis fram þegar hún talar í síma við einhvern greinilega mikinn vin hennar.

Svo í kvöld passaði ég Zizou og Keanó og við fórum í göngutúr útí Gróttu!!! Það var yndislegt og veðrið með ólíkindum. Þau voru svo sæt og forvitin, svo öguð og lífsglöð, - munaði engu að þau veiddu spóa í matinn og grilluðu hann á teini.

Ég sagði þeim að mófuglar og spófuglar á Íslandi væru háheilagir en þau skildu það ekki, þau sáu bara grill-spóann á hlaupum fyrir framan þau og ég átti fullt í fangi með að halda þeim. Svo stilltu þau sér upp fyrir ljósmyndara. Svo þetta var algjör dásamleg ömmuhelgi.

Engin ummæli: