28 febrúar 2010

Ég vona ég þurfi ekki að dansa...

Metsölubók

Ella Stína heyrði að hún væri alkabarn... alkabarn, hugsaði Ella Stína með sér til hryllingi og var að labba í skólann og þá fór með orðin: Af alkabarni ertu komin og að alkabarni skaltu aftur verða. Guð minn góður, hugsaði Ella Stína, ég verð í Alanon til dánardags... en ég get nú hætt á fundum, ha.... af alkabarni ertu komin og að alkabarni skaltu aftur verða, .... ég verð alltaf alkabarn, hugsaði Ella Stína, ég verð að reyna að skrifa metsölubók.

26 febrúar 2010

Guð við morgunverðarborðið

Ert þú ekki soldið lítill og krumpaður alla daga, spurði guð mig við morgunverðarborðið.
Jú, sagði ég, þannnig lagað...
En þú berð þig vel, sagði guð.
Já ætli það ekki, ansaði ég.
Þú ert ekkert að segjast vera lítill og krumpaður.
Nei, ég veit ekki hvort nokkur myndi skilja það.
Segjum tveir, sagði guð.

Dagsetningin

Mjög margir hafa líkama samt ekki allir einsog ég hef ekki líkama en ég er með herbergi og sit þar á stóli og horfi á dagatal á veggnum tilað vita hvort dagarnir silist ekki áfram. Ég heyri aldrei neitt, ég held að allir séu horfnir úr byggingunni en samt er ljósið kveikt, ég lét múra uppí eina gluggann sem var einu sinni dansaði ég í herberginu en nú sit ég bara á stólnum stundum dett ég af stólnum og sofna á gólfinu en sest svo aftur í stólinn og horfi á dagatalið það er alltaf sami dagurinn 17.september 1979

*

22 febrúar 2010

Skynsemin og guð

Ég er búin að kveikja á stóru tölvunni.... ég er búin að kveikja á stóru tölvunni.... og í útvarpinu er Páll Skúlason að tala um skynsemina og guð. Hugsa heiminn útfyrir ramma skynjunar, sagði hann og ég er að reyna að koma mér að verki, - heyri bara suðið í tölvunni en ætti ég að opna skjal, setjast í þægilega tölvustólinn, halló, Elísabet, hvað ertu að pæla, er vit í heimspeki, hrein og frjáls hugsun og lögmál tilað lifa eftir, heyri ég og skynsemin tekur við.... heyrði ekki meir....

Stjörnubjart

Það er stjörnubjart og himinhvolfið svo tignarlegt og fallegt, skínandi stjörnur, vinir mínir, alltaf á sama stað, afhverju ætti ég að vera að flytja.

Guð lítill og krumpaður

Einu sinni var maður að labba og þá hitti hann guð, guð var lítill og krumpaður, maðurinn þekkti ekki guð svo hann spurði:
Hver ert þú?
Ég er guð.
Guð?
Já.
Hvernig getur þú verið guð?
Nú?
Þú ert svo lítill og krumpaður.
Já, ég er samt guð.
Ég hélt að guð væri risastór og væri allt í öllu.
Þú ert með mikilmennskubrjálæði, sagði guð, allt er lítið og krumpað.

Saga um breytingar og allt er gott

Einu sinni var ég alltaf að hugsa um að breyta öllu, færa skápinn þangað sem kommóðan er, skipta um gluggatjöld, kaupa nýjan lampa, færa rúmið þarsem bókaskápurinn er og ég hugsaði og hugsaði um þetta þangað til ég varð svo þreytt á að hugsa að ég sagði:Allt er gott, skápurinn er góður þarsem hann er, mig vantar ekki nýjan lampa, rúmið er gott þarsem rúmið er og þá spratt upp sagan hér að ofan, um guð, -

17 febrúar 2010

Mína mús í Emblu Karen

Bráðum á Embla Karen afmæli, hún verður tveggja ára, í dag er hún í Öskudagsbúningi sem mamma hennar saumaði og leikur Mínu mús, ég vildi gjarna sjá hana. Það væri gaman.

Merkileg með mig

Hundarnir komnir í heimsókn, Zizou og Keano komu í morgunkaffi og ég held að þau langi út, gera svona úmm úmm úmm hljóð við útidyrnar sem ég þarf að mála, eða reyndar fyrst að fá trésmið tilað laga listana og svo er gólfdúkurinn eitthvað að bólgna út en kaffið tókst ágætlega og það er bjart úti en örugglega skítkalt, öskudagur og ég á engan búning, ekki öskudagsbúning, og ég er að reyna að vera soldið merkileg með mig.

Sómabátur

Mig dreymdi líka ég var að fara í samfloti uppá Akranes, sjóleiðina, á sómabát, ég var síðust frá bryggju og það var eitthvað vesen. Sjórinn var annars sléttur.

Nóbelsdraumur

Mig dreymdi ég skvetti kaffi framan í eða á brjóstið á Nóbelsskáldinu, hann var gamall í draumnum og með Alzheimer, og ég gerði þetta óvart eða af hvatvísi, man það ekki, það var fólk í kringum okkur og það varð uppnám, svo seinna í draumnum ætlaði ég að biðja hann afsökunar en þá var hann kominn í vörslu Jóns Viðars og hann var eitthvað að pússa hann til, held það hafi verið á Leikmunasafninu, hitt var meira svona Naustið staðurinn sem ég skvetti kaffinu.

09 febrúar 2010

Faðmaðu þinn innri krítíker

Það er til bók sem heitir þetta, Embrace your inner.....critiker

Við erum semsagt öll með innri krítíker sem gagnrýnir okkur svo við förum ekki yfir strikið og svona, en stundum fer gagnrýnandinn yfir strikið, þe. gagnrýnir okkur endalaust og miskunnarlaust, hverja hreyfingu, hugsun, orð og gerðir. Hann er mjög þreyttur á þessu en fær aldrei hvíld og þá verður hann grimmur, geri ég ráð fyrir, gagnrýnandinn sést mjög oft í andliti fólks, hrukkunni milli augabrúnanna til dæmis, það er ekki endilega áhyggjuhrukka. Hann felur sig oft í áhyggjum og hinu og þessu.

gagnrýnandinn minn starfar ekki aðeins í hausnum á mér, heldur líka öðru fólki, hann plantar sér í annað fólk og gagnrýnir mig þaðan, þetta gerist án þess ég þurfi að vita hvað fólk hugsar, ég skynja það bara, eða jú auðvitað veit ég það, að öðru fólki er illa við mig, álítur mig fávita, geðsjúkling, gamla fyllibyttu, skrítna manneskju, manneskju sem á engan bíl eða kærasta, og það dásamlega við þetta er að ég veit þetta ánþess fólk þurfi að segja mér það, gagnrýnandinn minn er sannkallaður TÖFRAGAGNRÝNANDI, ....

*

05 febrúar 2010

Merkilegt

Ég veit hvað ég vil segja en skortir hugrekki tilað segja það.

A hell of a story

Einu sinni var lítil yndisleg manneskja sem hét Elísabet og hún lifnaði við.