30 júní 2009

Ella Stína Jackson og Michael Jökulsdóttir

Ég er búin að lesa allt um Michael Jackson uppá síðkastið nema ég stillti mig um að hlusta á síðasta samtalið en stóðst ekki mátið að kíkja á síðustu myndina af honum en bað svo guð fyrirgefningar á þessari óþarfa hnýsni. En ég er búin að bjóða börnunum hans að koma hingað á Framnesveg í fóstur ef þau vilja, þau mundu örugglega kunna vel við sig, þó veit ég ekki með garðinn, þau mundu kannski slá hann fyrir fósturmömmu sína, og ég bíð spennt eftir að heyra um nýju lögin, en eftir öllu þessu að dæma virðist maðurinn hafa verið alkóhólisti ogeða fíkill, og dauði hans slys. En alkóhólistar lenda einmitt mjög oft í slysum, fjölskyldan ætlaði að svipta hann forræði og koma honum í meðferð en það tókst ekki, kannski hefði verið hægt að bjarga lífi hans, svo hefur hann örugglega verið skíthræddur við yfirvofandi tónleika en ég kannast við það, ef ég hef ekki komið fram lengi finn ég miljón ástæður tilað sleppa því, eða ef ég hef ekki selt bækur lengi, einsog ég hef ekki selt bækur í tvö ár og verið ógeðslega blönk en í gær fór ég og seldi bækur og það var mjög gaman að hitta fólk og heyra allskonar setningar sem hrutu af vörum þess, og selja bókina, - en það sem ég ætlaði að segja útaf því að það átti að svipta Michael forræði að ég var einu sinni svipt forræði og sett inná Klepp, þá var ég tvítug og hafði lent í tveimur áföllum sem virtust kalla fram sjúkdóminn geðhvörf, maníu nánar tiltekið þarsem ég gekk um göturnar í kyrtli og fannst ég vera Jesú og ætti að frelsa heiminn en mamma vildi ekki láta frelsa heiminn svo hún setti mig inná Klepp og það bjargaði örugglega lífi mínu, annars hefði ég getað lent í slysi.

29 júní 2009

Já, ég veit það

Í hvert skipti sem einhver segir við mig:Þú ert svo mikið fórnarlamb, - það er reyndar bara einn maður sem segir það við mig, Garpur sonur minn, þá tek ég heilshugar undir það og segi: Já, ég veit það, ég er svo mikið fórnarlamb.

Pytturinn

Fórnarlambið var fast í pytti sem örlögin, - eða bensínafgreiðslumaðurinn höfðu skapað því, og kannski bara bensíntankurinn því afgreiðslumennirnir sjást ekki lengur.

28 júní 2009

Hvernig má þekkja fórnarlambið?

Fórnarlambið ber sig yfirleitt mjög mannalega, það er að leita að smugu!

Regla fórnarlambsins

Fórnarlambið þarf ekki að fara eftir reglum.

Það er bara ein regla í lífi fórnarlambsins: Ég á bágt.

Og það er ekki regla.

Fórnarlambið "hlýðir" samt þessari reglu,

og "refsar" þeim sem brjóta hana.

*

Gróði og tap fórnarlambsins

Hvað er fórnarlambið að forðast með því að leika fórnarlamb?

Og hvað ávinnur það sér með því að leika fórnarlamb?

STÓRU SPURNINGARNAR::::

Fórnarlambið forðast ábyrgð, ... að taka ábyrgð á tilfinningum sínum, það verður sárt en ekki reitt.

Og það ávinnur sér virðingu fyrir að útmá sjálft sig og taka þátt í leiknum með öllum hinum fórnarlömbunum.

Fimm viðhorf fórnarlambsins

1. Þarf ekki að vera heiðarlegt. (Það á svo bágt.)

2. Þarf ekki að veita öðrum athygli. (Það getur það ekki.)

3. Þarf ekki að sýna hlýju. (Því er svo kalt.)

4. Þarf ekki að taka ábyrgð á að fullorðnast. (Það átti svo erfiða æsku.)

5. Þarf ekki að vera spontant. (Það gæti komist upp um það og þessvegna hugsar það frammí rauðan dauðann.)

Skoðum þetta nánar:

Á fórnarlambið bágt? Er það getulaust? Er því kalt? Átti það erfiða æsku? Getur komist upp um það? Þarf það að hugsa?

Nei, ekkert af þessu stenst. ÞETTA ERU ALLT BLEKKINGAR.

*

Og fyrir þá sem hafa ekki vit á raunveruleikanum þá eru blekkingar hluti af raunveruleikanum, þær standa ekki ofan við eða til hliðar við raunveruleikann, þær eru partur af honum.

Eftir öllu þessu að dæma lifir fórnarlambið stórkostlegu lífi (þrælskipulögðu og útsmognu) svo það er engin ástæða tilað hætta að vera fórnarlamb. Eða hvað, framhald í næsta bloggi.

Viðhorf fórnarlambsins

Tilfinningar byggjast á viðhorfum svo það er spennandi að athuga í þessari smásjárrannsókn hvaða viðhorf fórnarlambið hefur til lífsins, það vill tildæmis láta standa stórum stöfum: FÓRNARLAMB. F-Ó-R-N-A-R-L-A-M-B.

Fórnarlambsskoðun

Ég hef beðið guð um að leyfa mér að sjá fórnarlambið í sjálfri mér. Þetta er mjög erfitt blogg, ég strika út hverja setninguna á fætur annarri, fórnarlambið vill ekkert láta sjást, það vill bara vera hresst og yfirborðskennt, ég meina er það bannað, og sýnast gáfað og skemmtilegt, það vill ekki vera að væla á bloggsíðum heimsins, þá gæti komist upp um það og það misst öll völd. Svo ég veit ekki hvað ég á að skrifa. FÓRNARLAMBIÐ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Heyrt á kaffihúsi

Það er bannað að veiða í hafi gleymskunnar...

27 júní 2009

Nefið

Ég fór í fegrunaraðgerð í dag, ég komst loks að, biðlistinn var víst mjög langur, ég byrjaði á því að láta laga á mér nefið.

26 júní 2009

Salt frá Enkeladusi

Á Enkeladus einu af tunglum Satúrnusar hefur nú fundist salt sem bendir til lífs eða að það geti þróast. Þetta minnir mig á saltkrúsina sem ég erfði frá afa og ömmu á Reynimel, hún er hvít úr postulíni með tréloki og bláu blómi. Þegar ég var lítil þá var þar örugglega salt frá Enkeladusi.

Söngur er heillaráð

Ætlaði bara að minna á það að þegar maður byrjar að hugsa er heillaráð að syngja.

Michael Jackson dáinn...

En fallega tónlistin hans lifir, algjört undrabarn og villingur og meistari sveiflunnar, tónlistin hans svo ...........klikkuð og falleg, og maður verður að DANSA!!!

If you aint got the swing, it aint mean a thing!!!!!!!!!!!!

Það var annað undrabarn hann Garpur sem kynnti mig fyrir Jackson og bræddi niður fordómana. Nú er ég að spila BILLY JEAN.

25 júní 2009

Sturlunga er gamansaga

Ég er að lesa Sturlungu, ég ákvað nú að taka þetta létt, ég var orðin svo leið á öllum þessum körlum sem segja: ÞAÐ ER VOÐALEGA ERFITT AÐ KOMAST INNÍ STURLUNGU. Svo ég les hana bara einsog hverja aðra bók, og þegar ég var komin að fjórtánda húskarlavíginu uppgötvaði ég að þetta hljóta að vera gamansögur.

Og meiraðsegja eftir voðaatburðinn: Flugumýrarbrennu þarsem Gizzur faldi sig í sýrukerinu, þar segir: Það var kalt í sýrunni.

Ha ha ha ha ha...

Ég heyri hlátrasköllin í samtíðafólki mínu á landnámsöld... "kalt í sýrunni...." ha ha ha.

Jarðskjálfti

Það kom jarðskjálfti þegar ég var uppí rúmi að lesa Sturlungu, ég hugsaði: hvað er að gerast, og hélt áfram að lesa Sturlungu.

24 júní 2009

Mömmuröskun eða mótstöðuþrjóskuröskun

Þegar ég fór í Listaháskólann ákvað ég að ganga bekkjarfélögum mínum ekki í móðurstað en það hafði ég reynt frá barnsaldri, ég gekk foreldrum mínum í móðurstað (þau tóku að vísu ekki eftir því) bræðrum mínum, litlusystur, afa mínum, Íslandi, manninum mínum fyrrverandi og auðvitað reyndi ég að ganga s0num mínum í móðurstað....bíddu þessi var lúmskur!!!

Hlutverkið var að fara með mig þegar ég byrjaði í skólanum en ég var að velta því fyrir mér áðan hvaða hlutverk hafi tekið við, hvort það hafi semsagt verið mótstöðuþrjóskuröskun, eða hvers vegna fékk ég 6.0 í meðaleinkunn, sennilega af því ég er snillingur og rekst ekki í svona meðalmennskustofnun.

Ég var að hugsa um þetta á leiðinni úr sundi, eða í sund, því ég er alltaf að hugsa um að mig langar svo að kaupa heilu kassana af grillmat og gefa sonum mínum og tengdadætrum, alltaf að hugsa um að passa barnabarnið, hundana, og eitthvað fleira, vera góð, næs, skemmtileg, næs,áhugasöm og vitur með ráð við öllu á hverjum fingri. (Ég gat ekki einusinni gefið tengdadóttur minni almennilegt ráð með að steikja læri þótt ég hafi steikt hundrað læri.) Og þá fékk ég alvarlegt tilfelli af mömmuröskun þegar ég sms-aði syni mínum eftir jafnteflisleik: Hlakka tilað heyra um leikinn!!! En draumurinn um grillmatinn virkar ekki nú um stundir, í fyrsta lagi á ég engan pening fyrir grillmat og í öðru lagi er ég ekki næs og vitur nema einn dag í einu og þá yfirleitt bara smá parta úr deginum.

Svo ég var að hugsa um að gerast mamma sjálfrar mín, (þótt ég eigi bestu mömmu í heimi) en ég var að hugsa svona mömmu sem segir, settu á þig bodylotion, kveiktu á reykelsi, fáðu þér vítamín, en þá mundi ég eftir einu: Ég er uppkomin, og þarf því ekki mömmu nema rétt svona að heyra í henni og hlusta á hana segja mér að ég sé með OF SÍTT HÁR. (Alvörumamma mín!)

Svo mömmuröskunin er dated, og mótstöðuþrjóskunin er líka dated... úr gildi... komin fram yfir síðasta söludag, - svo í hvaða hlutverki á ég að vera.

Kannski kærleikskrúttina, kynnast mér einn dag í einu, því ég er ég enn að kynnast sjálfri mér eða einsog frægt er orðið: Daginn sem hún kynntist sjálfri þér.

Hvenær kynntist þú Elísabetu?

Já, ég kynntist henni tildæmis í gær þegar hún bað guð um að taka frá sér allan hræðsluáróðurinn sem hrannast upp í höfðinu á henni og guð einn virðist geta tekið burt.

Ég á von að kynnast henni næst þegar hún sættir sig við að guð einn geti tekið þetta í burtu.

Annars er hún dásamleg manneskja. Jamm.

*

Því má bæta við að ég labbaði í sund, fór í pottinn, synti hálfan kílómeter, aftur í pott og á leiðinni heim fann ég fyrir hamingjuna. Frekar erfið sundferð!!! Þurfti á sundenglum að halda. Samt sá ég vatnið glitra á botninum einsog alltaf er svo fallegt. Og ég spurði guð í sambandi við hugsanir mínar sem gerðu árás í sundinu: Verður þetta alltaf svona. Guð svaraði engu, guð er svo leyndardómsfullt, annars er ég mjög þakklát, það virkar alltaf, en ég er með svona heila sem er einsog tunglið að því leyti að stundum er þakklætið minnkandi og stundum er þakklætið vaxandi.

Það getur gert mann soldið upptekin af sjálfum sér.

Þessvegna er ég að fara með stelpu í gegnum annað sporið. Fjúkkett!!!

Það minnir mig á að ég kynntist Elísabetu best þegar hún sætti sig við það að það að hjálpa öðrum hjálpar henni sjálfri jafnvel þótt hún þurfi að labba alla leið uppá Hverfisgötu.

HELJARSKINNIÐ.

23 júní 2009

Minn haus

Ég hallast að því að guð sé eina lausnin, allavega við mínum haus.

*

Þúsundasti gesturinn???

Virðist hafa brotist inní heimsveldið síðan 18.maí... samkvæmt mínu tímatali en best að vaska aðeins upp. Og niður.

22 júní 2009

Skap? Skap.

Skap. Ég þarf að skrifa aðeins um skap. Ég sá að Ómar Ragnarsson skrifar á móti þeim sem honum sýnist. Mér er alltaf ráðlagt að biðja fyrir öllum. Er það málið? Þetta er ekki alveg svona einfalt en ég er orðin soldið syfjuð svo meira á morgun um skap.