29 apríl 2010
22 apríl 2010
Embla Karen æðstakrútt
Embla Karen Æðstakrútt...
ærnar, kýr og smalinn
Gleðisumar gæfufútt
göngum inní dalinn.
ærnar, kýr og smalinn
Gleðisumar gæfufútt
göngum inní dalinn.
Hún segir mér...
sko, það kommentarar enginn ef þú segist eiga geðveika systur, hvað þá að þú segir að það sé ömurlegt, fólk vill bara að þú sért voða umburðarlynd, víðsýn og fordómalaus, en þetta er systir mín, og hún vill ekkert að ég sé umburðarlynd, víðsýn og fordómalaus, hún vill bara að ég sé góð og henni finnst það vera rosalegt mál að vera með geðhvörf, en mér finnst það ekkert mál og ég er alltaf að segja henni það, en það er bara einsog enginn hafi veikst í heiminum nema hún, og ég held það sé svoldið svoleiðis, en hún segir mér alltaf þegar hún sér tunglið merla á sjónum. og ég ein veit þegar fegurðin er að bera hana ofurliði og hún hugsar með sér hvort hún eigi eftir að muna þetta kvöld.
21 apríl 2010
Ástarsorg
Ég er náttúrulega stundum bara þreytt á henni af því hún er systir mín og ég elska hana en þetta tekur á, ég er úrvinda eftir samræður við hana en best er að segja við hana:Hættu að hugsa og treystu guði. En þá líður mér einsog húns páfagaukur eða gæludýr og best sé að tala við hana einhvernveginn. Ég veit ekki í hverju hún lenti, ég held hún hafi lent í ástarsorg.
Heimsókn systurinnar
Það er kannski ekki ömurlegt, en stundum ömurlegt, - hún getur snúist í hringi yfir engu, hún er svo hrædd við að fara í maníu að það mig oft góða stund að róa hana niður, hún heldur ef hún fer seint að sofa þá fari hún í maníu, ef hún steypir sér á kaf í skriftirnar þá fari hún í maníu, ef hún verður ástfangin þá fari hún í maníu, ef hún skrifi leikrit þá fari hún í maníu, það er einsog hún sé í fangelsi og ég heimsæki hana þangað.
20 apríl 2010
Mín geðveika systir
Það er ömurlegt að eiga geðveika systur, við erum kannski boðnar í mat og gestirnir varla búnir að stinga uppí sig einum bita þegar hún byrjar og segist vera með geðhvörf. Ég er ekki að segja að það standi í neinum en það kann auðvitað enginn við að loka á hana, en hún segist gera þetta í nafni hreinskilni og opinnar tjáningar. Svo þegar við komum heim er hún alveg eyðilögð og sérstaklega daginn eftir en hún er alltaf í þunglyndi á morgnana og fer að ásaka sjálfa sig fyrir að geta ekki talað um annað. Hún fer yfir samræðurnar í huganum, hvað hún hafi sagt, hvað hún hefði átt að segja. Ég reyni alltaf að segja henni að vera ekki að skamma sjálfa sig, þetta sé nú alltí lagi og hún geti talað um eitthvað annað næst. En ég fæ engan frið fyrir henni, hún tekur aldrei mark á mér og byrjar uppá nýtt, hún geti aldrei stillt sig og hvað sé eiginlega að henni. Ég þykist þá fara að lesa en hún tekur af mér bókina og spyr hvað sé eiginlega að sér. Ég mundi segja henni að hún væri með geðhvörf ef hún færi þá ekki að ásaka mig fyrir að nudda henni uppúr sjúkdómnum, svo ég reyni að stinga uppá því að fara í göngutúr en þá er hún viss um að það verði brotist inn, eða kvikni í húsinu svo við förum ekki neitt, auk þess þurfi hún að fá sér kaffi og hrista af sér þunglyndið, já það er ömurlegt að eiga geðveika systur. Stundum finnst mér einsog henni sé haldið sofandi.
Tengslanet
Hún biður mig um að segja eitthvað á ráðstefnunni; Tenglsanet, , bara eitthvað, syngja, dansa, þegja, bara eitthvað, þetta er á Hávallagötunni og jarðarfarargestir að týnast í jarðarför, mér sýnist meiraðsegja Davíð Oddsson í einum jeppanum ætla að lauma sér bakdyramegin, en aðallega koma tveir aðilar tengdir geðsjúkdómum, annar á jeppa, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og hin gangandi kona, móðir geðklofasjúklings, oft í sjónvarpinu, - eru þetta skilaboð til mín að tala um geðveiki, mér finnst ég hafa sagt svo mikið um það, hverju ætti ég að bæta við, ha..... að ég átti einu sinni flygil.
Ég lyfti mér upp yfir norðlensku fjöllin með brjóstsykur í munninum
Ég lyfti mér upp yfir norðlensku fjöllin með brjóstsykur í munninum
19 apríl 2010
Hamingjusöm, glöð og frjáls
Þá hef ég ástæðu tilað deyja ekki strax og lifa lengur, ég hef öðlast frelsi, og það er einsog hafið, vænti ég, og tunglið, stækkandi, minnkandi á hreyfingu, allskonar á litinn, og ekki svona sjálfgefið og innpakkað einsog smjörstykki. En frelsi frelsi frelsi,.... fyrsta tilfinningin var hræðsla... við frelsið.... en ég er semsagt óbundin og flýg um og smýg ofaní jörðina og útum allt, líka til hliðar þarsem er hliðarvitund og hliðarvindur og massa strókur, frelsi já, böndin leysast, hlekkirnar falla af, hugsunin verður lengur að finna allskonar táknmál tilað bindast niður, eða eilíflega uppvið altarið, bundin í guðdómlegum eyðifirði mót opnu hafi og niðursteypandi fjöllum þarsem vaxa kýr og fikra sig eftir hamrabeltinum, heldur frjáls einsog fuglinn, einsog fiskurinn, skýið, og allskonar, - hamingjusöm, glöð og frjáls.
15 apríl 2010
Innbrot
Það er einsog hafi verið brotist inní mig og öllu snúið þar á hvolf og hugsanir eru á þeytingi útum allt. Og ná ekki saman, þræðirnir slitnir....
11 apríl 2010
Morgunverk í hádeginu
Ég svaf ekki hjá neinum í nótt svo það er frá engu að segja en var að gera Feng Sui í allan gærdag og búin að taka allt niður af veggjum nema rauðu slæðuna frá Bagdad Café og bráðum neyðist ég tilað fara útað labba og fá súrefni og labba og labba og labba í bókabúð með bænabækur því það vantar, gaman hvað ég fæ mörg komment hér á síðuna, og Tjaldurinn kominn í Trékyllisvík og vaknaði uppí reiði útí fyrrverandi manninn minn og bað guð að taka reiðina frá mér, halló, hvar er framtíðin, er ég föst í fortíðinni, NEI, en meira Feng Sui, Jökull kynnti mig fyrir þessu, maður á víst sérstaklega að hugsa um anddyrið og svo koma hundarnir á morgun og ég er að viðra mottu útá tröppum sem eru einskonar svalir og það þarf að múra tröppurnar og ég hugsa um hendur, eða öllu heldur arma.... og hvað er það sem ég ekki sé, og gleðina, ég er að forrita mig uppá nýtt með gleðinni, setja inn gleði í staðinn fyrir allt draslið, dreslið, jebb... þetta er uppá Skólavörðustíg þessi bókabúð.
08 apríl 2010
Elísabet
Það vantar ástina í líf mitt, - ég er að skilja það, - sérstaklega þegar hverfið er allt fullt af innbrotsþjófum.
06 apríl 2010
05 apríl 2010
Írafellsmóri opnar skápana
Einn daginn opnuðust allir skápar, ég held það hafi verið Írafellsmóri að sýna mér hvað ég lokaði inni, - aðrir sögðu að frosthörkur hefðu þessi áhrif á viðinn, - en þessar frosthörkur höfðu verið viðvarandi dögum saman, og svo bara vissi ég einhvernveginn um leið.
Írafellsmóri
Írafellsmóri... ættaður frá Írlandi, ekki vera hrædd við sprellið, ... sprellið... Írafellsmóri hvað heldur að ég sé, er drama frá toppi til táar... Ókei, segir Írafellsmóri, sprell heimspeki... hm.
Fimmta hestaljóð
Bara ef ég mætti vera hestur og þeysa beint af augum, og þyrfti ekki alltaf að vera í símanum eða Facebook, heldur hófarirnir leystust úr álögum og breyttust í tíu fingur.
Fjórða hestaljóð
Bara ef ég mætti vera hestur væri allt í lagi og ég væri að skrifa ódauðlegt snilldarverk, úr lendunum, sveigjunni á hryggnum, sterklegum hnjánum og öllum þessum vöðvum sem ég veit ekki hvað heita.
Ekki hestur
Það hefur komið í ljós að þessi sem ég hélt að væri Eiríksjökull heitir Geitlandsjökull og það er til Geitlandsjökull eitt og tvö, og nú er ég að fá mér kaffi af því ég kom heim í gær, dauðþreytt af því ég hafði ekki sofið en gat svo ekki sofnað þegar ég kom heim og sá fyrir mér kindurnar í fjárhúsinu, öll þessi augu, allar þessar nasir, öll þessi horn.
Svo það má segja ég hafi sofnað í fjárhúsunum.
Og þegar ég vaknaði sá ég fyrir mér hestana í freðnum móunum, eitthvað að bíta, eða horfa útí loftið, svo það má segja að ég hafi vaknað í móanum og komist að því að ég er ekki hestur.
Svo það má segja ég hafi sofnað í fjárhúsunum.
Og þegar ég vaknaði sá ég fyrir mér hestana í freðnum móunum, eitthvað að bíta, eða horfa útí loftið, svo það má segja að ég hafi vaknað í móanum og komist að því að ég er ekki hestur.
Dögun og miðnætti
Það er einsog himinninn sé blátt flauelshaf sem tunglið dansar í og vefur sig hverri slæðunni af annarri.
*
Dögun yfir Langjökli, ... bleikar línur skrifaðar á himininn.
*
Dögun yfir Langjökli, ... bleikar línur skrifaðar á himininn.
Andleg vakning í gilinu
Frosinn lækurinn hlykkjast einsog kirkjutröppur upp gilið, að fossinum þar sem brúðurin stendur í klakaböndum og hlær að mér.
Ógleymanlegt vonandi
Fylgdist með tunglgaldri hér í Lundarreykjardal, tunglið kom eldrautt uppúr potti Skjaldsbreiðs, færði sig hikandi uppá himinhvolfið og dansar nú með stjörnuhirð
03 apríl 2010
Hausinn
Frosinn lækurinn
hlykkjaðist einsog kirkjutröppur
upp gilið
að fossinum
ekki hemaður eða hélaður
heldur frosinn
svo hann sýndist
úr marmara eða silki
og efst í gilinu
stóð fossinn
eða var það brúður
í hvítum kjól
eða var það bara pilsið
það vantaði
allavega á hana
hausinn.
hlykkjaðist einsog kirkjutröppur
upp gilið
að fossinum
ekki hemaður eða hélaður
heldur frosinn
svo hann sýndist
úr marmara eða silki
og efst í gilinu
stóð fossinn
eða var það brúður
í hvítum kjól
eða var það bara pilsið
það vantaði
allavega á hana
hausinn.
Gilið
Í gilinu fann ég leyndarmálið mitt
frosinn lækurinn hlykkjaðist
einsog kirkjutröppur
upp að fossinum
sem stóð þar einsog brúður
frosin af hamingju
hræðslu
eða leyndarmálinu.
frosinn lækurinn hlykkjaðist
einsog kirkjutröppur
upp að fossinum
sem stóð þar einsog brúður
frosin af hamingju
hræðslu
eða leyndarmálinu.
01 apríl 2010
Leiðinn
Þetta er búið að standa yfir í meiren þrjátíu ár, og alltíeinu fékk ég leið á því, þessi seigdrepandi hugsun sem hefur verið einsog stálkló um heilann og lagt undir sig tilfinningalífið, frumurnar og innyflin, fjöllin núna og myrkrið, himintunglin og hendurnar á mér, - og þá kemur þessi leiði einsog frelsandi engill, - og ég eignast sjálfa mig, að minnsta kosti til hálfs....
ég elska mig, ég er svo æðisleg, skemmtilega hugsandi, töfrandi falleg og einstök og mikið undur hér á jörð með heilan heim á bak við mig... og næ stundum í alla aðra heima líka.
Hamingjan.
ég elska mig, ég er svo æðisleg, skemmtilega hugsandi, töfrandi falleg og einstök og mikið undur hér á jörð með heilan heim á bak við mig... og næ stundum í alla aðra heima líka.
Hamingjan.
Norðurljós á himni
Norðurljósin eru einsog veggir í höll alheimsins....
og tunglið er að koma upp.... eldrautt
og ég er að fara að sofa.
og tunglið er að koma upp.... eldrautt
og ég er að fara að sofa.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)