20 apríl 2010
Mín geðveika systir
Það er ömurlegt að eiga geðveika systur, við erum kannski boðnar í mat og gestirnir varla búnir að stinga uppí sig einum bita þegar hún byrjar og segist vera með geðhvörf. Ég er ekki að segja að það standi í neinum en það kann auðvitað enginn við að loka á hana, en hún segist gera þetta í nafni hreinskilni og opinnar tjáningar. Svo þegar við komum heim er hún alveg eyðilögð og sérstaklega daginn eftir en hún er alltaf í þunglyndi á morgnana og fer að ásaka sjálfa sig fyrir að geta ekki talað um annað. Hún fer yfir samræðurnar í huganum, hvað hún hafi sagt, hvað hún hefði átt að segja. Ég reyni alltaf að segja henni að vera ekki að skamma sjálfa sig, þetta sé nú alltí lagi og hún geti talað um eitthvað annað næst. En ég fæ engan frið fyrir henni, hún tekur aldrei mark á mér og byrjar uppá nýtt, hún geti aldrei stillt sig og hvað sé eiginlega að henni. Ég þykist þá fara að lesa en hún tekur af mér bókina og spyr hvað sé eiginlega að sér. Ég mundi segja henni að hún væri með geðhvörf ef hún færi þá ekki að ásaka mig fyrir að nudda henni uppúr sjúkdómnum, svo ég reyni að stinga uppá því að fara í göngutúr en þá er hún viss um að það verði brotist inn, eða kvikni í húsinu svo við förum ekki neitt, auk þess þurfi hún að fá sér kaffi og hrista af sér þunglyndið, já það er ömurlegt að eiga geðveika systur. Stundum finnst mér einsog henni sé haldið sofandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli