25 október 2011
Má ég verða stór?
Í dag er rigning og ég held það sé þriðjudagur, laufin eiginlega farin af trjánum og ég ætla lesa tvö handrit eftir sjálfa mig og fara útí búð og kaupa ávexti. Ég bað guð um sjálfstraust í dag.... og svo er ég fatta að ég er alltaf að raða hlutum og það er ekkert nýtt. Ég sit í stofunni, hún er svo falleg og alveg ný stofa og líka Skáldaherbergið einsog Óskar kallar það, veit ekki hvað ég á að gera við Einar Ben. kannski biðja hann um að fara með Einræður Starkaðar. Var að passa Emblu í gær, svo yndislegt barn og húmoristi, kveikir bros í mínu ömmuhjarta, og já áðan fékk ég mér reyndar tvær skálar af púðursykri og hörfræjum með AB mjólk - light. Og í nótt dreymdi mig að Siggi og Dagný höfðu verið að gera upp Suðurgötuhúsið mitt, og Risið líka, ég spurði sérstaklega útí það, þar með var ekkert pláss fyrir mig, er þá verið að gera upp ástsýkina, eða er húsið orðið skynsamlegt, er ég að tapa einhverju sem skiptir mig máli en ég trúi ekki á, - er það ástin. Má ég verða stór?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli