30 maí 2013

Glósa

Atburðirnir við eldhúsborðið í dag og atburðirnir á Eyrarhálsinum fyrir margt löngu.

Lillý Elísabet hefur svo fallega rödd

Gamli heilinn man allt en þekkir ekki tímann.....

Gamli heilinn geymir allt en veit ekkert um tímann, þessvegna tekur maður æðisköst þótt langt sé um liðið frá atburðinum. Þessvegna verður maður að kynna sér allt um nýja heilann eða framheilann en ég man ekki hvað hún sagði, ég verð að spyrja hana.

Beta best

Hún var alltaf að keppa við hann og vildi vera betri en hann þangað til fattaði að hún var best.

Ella Stína hjartans

Ella Stína var í hjartanu og það var allt í hjartanu, lokaða herbergið, hlekkirnir og heimurinn, já og dansinn auðvitað, því það rúmast allt í hjartanu því þar getur maður séð það því einsog Litli Prinsinn sagði.
Hryggilegt að ég hafi gefið ómenni tíma minn og ást.

Þetta er hætt að vera skemmtilegt

Loksins loksins

Einu sinni elti ég barnaperra og í kvöld fattaði ég loksins jákvæða hlið þess máls; þá veit ég þegar það endurtekur sig.

Hún vildi vera hann, þegar hún endurtók nafnið hans var hún kannski að reyna breyta sér í hann svo hún þurfti ekki að vera hún sjálf....

BRÉFIÐ

EINU SINNI ELTI ÉG BARNAPERRA INNÍ FRÍMERKJABÚÐ OG SÍÐAN ER ÉG ALLTAF AÐ HUGSA UM AÐ SKRIFA BRÉF

Einkenni sjúkdómsins

Skortur á raunveruleika
Hlaupið útum allt
Þráhyggja
Tortryggni
Uppgjöf
Þreyta
Markaleysi
Stjórnleysi
og eitthvað fleira....

dúllerí

dúll

DÚLLDÚLLDÚLL.....




Einu sinni var kona sem langaði að komast útúr lokuðu herbergi og var mest að hugsa um að fá sér sígarettu og vískí, hik!

Heilbrigði parturinn, heilbrigði parturinn, heilbrigði parturinn

Verið þér sælar

Konan í sögunni hér að neðan hringdi í manninn og sagðist ekki getað komið, hún hefði verið með mígreni í 3 daga og ætlaði að taka því rólega, það var einsog maðurinn teldi sig ráða yfir konunni því hann sagði bara: Verið þér sælar.

Var hún leiðinleg?

Það var maður sem hringdi í konu og spurði einsog hann væri að tala við vændiskonu hvort hún gæti komið klukkan 22.40 og gefið sér unaðsnudd, hann bað hana reyndar ekki heldur skipaði henni það. Og það merkilega var að konan hafði áhyggjur af því að hún væri leiðinleg ef hún neitaði.

29 maí 2013

Sjúklegt ástand

Ef maður er í ofbeldissambandi og erfitt að komast útúr því getur það verið vegna þess að maður hlustar ekki lengur á viðmið sín og mörk, og fer þar af leiðandi inní sjúklegt ástand.

Fórnarlambið og harðstjórinn

Ef fórnarlambið tekur á sig sök getur harðstjórinn verið áfram í hásætinu.

Vörðurinn sendir póstkort

Það er bara ég ein sem á þig, og ég ein sem skil ég og ég ein sem elska þig. Bestu kveðjur, Vörðurinn.

Sólrauða skýið

Við erum orðin svo gömul og grá og grálynd og glettin nei óglettin og hundgömul, hundhundhund og hvenær hvarf sólrauða skýið.

Virkið

Einu sinni var maður og það var ekkert að honum, bara allsekki neitt, hann var samt ekki fullkominn, það var bara ekkert að honum og hann gerði aldrei neina vitleysu, samt var hann vitlaus, já þessi saga er skrifuð í flýti, það var ekkert að honum. Hann var einsog óvinnandi virki, virkilega virkilega virkilega eitthvað að.

28 maí 2013

Dauðinn og pillurnar

Mig langaði tilað taka sextíu svefnpillur tilað losna við hann. En fattaði þá að ég myndi ekki losna við hann; hann er er dauðinn.

23 maí 2013

Blóðprufa og dans

Ég fór í blóðprufu í dag, konan sagði ég væri sérstök og saug úr mér blóðið í þrjú glös, hún sagði að allir væru sérstakir. Ég dansaði smá og ég dansaði út.

Í stuttu máli.

Ég fór í blóðprufu og dansaði út.

Sól og blíða

Rússneska geðveikrahælið

Þau sátu saman í bílnum hans og hann sagðist hafa verið að lesa viðtal við hana í blöðunum að hún hefði verið að standa í erfiðum skilnaði. Já, það er rétt, sagði hún, ég sagði þér upp um daginn. Ég tek ekkert mark á því, hreytti hann þá útúr sér, og geðlæknirinn þinn sagði mér líka að taka ekkert mark á því heldur. Henni fannst þá skyndilega að hún stödd á rússnesku geðveikrahæli á 17.öld. Og kannski var hún það.


Og velti því fyrir sér hvað það hefði tekið stuttan tíma að komast þangað. En þannig er það með margt í lífinu, það tekur engan tíma.

Edrúafmælisdagur 20 ár og 7 mánuðir

Ég keypti húsið

Hún fór að búa með honum og hann með henni. Hún átti húsið, hún hafði verið að kaupa það síðustu tuttugu ár einsog gerist og gengur á Íslandi. Hann flutti inn með nokkrar styttur úr Kolaportinu og gamla yfirlitsmynd af Ísafirði. Hún kom myndinni fyrir ofan við píanóið, bjó til pláss handa honum í fataskápnum með því að hann fékk helminginn og svo framvegis. Hann setti tvo ofna í húsið, hún borgaði annan þeirra. Svo var hún nýbúin að kaupa ljósakrónur, eina á 35 þúsund, aðra á 25 þúsund og þá þriðju á 15 þúsund. Hann setti þær allar upp og fór svo hamförum í húsinu, setti upp hillur, fatahengi, pússaði gamalt borðstofuborð og svo framvegis, allt án þess að spyrja hana eða ráðfæra sig við hana. Þá hefðu þau verið meira saman í þessu en hún hafði sosum ekki beðið um álit hans á ljósakrónunuum enda komu þær til áðuren sambúðin hófst, hún hafði að vísu sýnt honum tvær þeirra, og svo hafði hún keypt afskaplega rómantísk gluggatjöld á 45 þúsund í Álnabæ, á meðan var hann í Góðahirðinum og keypti kommóðu forljóta með leyfi að segja, og eitthvað fleira, hann keypti sængurföt í Rúmfatalagernum þegar hún vildi versla í Fatabúðinni. Það var ekkert gert saman þótt þau væru farin að búa saman. Einu sinni dró hún hann í Fatabúðina en hann vildi heldur sitja útá tröppum og reykja. Svo skipti hann um allar ljósaperur í íbúðinni að henni forspurðri svo það dimmdi yfir öllu. Hann vildi hafa næturgluggatjöld á vorin en hún vildi hafa vornóttina.

Svo eftir einhvern tíma og kannski þegar sambúðinni var að ljúka sagði hann ásakandi að hún hefði bara ekki keypt neitt í húsið. Hún var þá búin að gleyma ljósakrónunum og gluggatjaldinu en það var einkenni á þessu sambandi að gleymskan hélt um stjórnartaumana og þessar ásakanir fengu á hana og ef eitthvað fékk á hana glutraði hún öllu niður, því þetta hljómaði einsog skammir sem það voru og ásakanir, og þess vegna tók það hana soldinn tíma að finna rétta svarið þegar hann sagði að hún hefði ekki keypt neitt í húsið.

Ég keypti húsið. Já en ég keypti húsið. 

Ástarjátning

Hún sagðist hafa verið kíkja eftir honum á Skjálfandaflóa þegar hún hafði gefist upp við að skanna Ísafjarðardjúpið og þá sagðist hann aldrei hafa fengið aðra eins ástarjátningu, en kannski var hún bara að hafa auga með honum.

Afgreiðslustúlkan

Alltaf þegar hann gaf henni gjöf og hann gaf henni aldrei annað en nælonsokka eða brjóstahaldara, þá fylgdi með saga af afgreiðslustúlkunni,  löng og ítarleg greinargerð.

Jökulsdóttir skáld.

Hann bauð mér í mat um daginn og notaði tækifærið og hreytti ónotum í listamenn, og svo með fyrirlitningu í röddinni uppnefndi hann mig Jökulsdóttir skáld. Það var hægt að greina meiri fyrirlitningu í röddinni hjá honum en þegar hann kallaði mig fæðingarhálfvita, pöddu og óþverra.

Samtal

Talaði við hann í gær, hann var á sjónum í sólarlaginu og fór um það fögrum orðum, ég spurði hann útí bátinn, veiðarfærið, aflann, kvöldmatinn, mannskapinn, - sjálf sagðist ég vera að skrifa, en hann spurði ekkert útí það og sýndi því engan áhuga.

22 maí 2013

Helvítis djöfull

Hann er kominn inní æðarnar
hverja hugsun í höfðinu
maginn útblásinn
rassinn stíflaður
og ég vakna máttlaus
og kem mér ekki á fætur
nema blóta hressilega
helvítis djöfull.

Hvernig er hatrið?

... var hatrið þetta ægilega leyndarmál, hvernig er hatrið og hvernig á hún að geta hatað, hún getur ekki hatað og ekki elskað og ekki neitt, hún er innilokuð og fyrir utan er sumarnóttin.

19 maí 2013

Ekkert, nema elska pínulítið í viðbót

Jónas Mjólkurlíter

Dreymdi Jónas, hann var búinn að opna blómabúð í Tjarnargötunni þarsem Skólavörubúðin var einu sinni eða um það bil, hann ætlaði að skutla mér uppí Breiðholt en svo var hann farinn að drekka einn bjór svo ég bauðst til að keyra, en það var samt einhver krókur, ég þurfti semsagt að komast vestur í bæ.

Þessi Jónas var ráðgjafi minn í meðferð og spurði mig hvað mjólkurlíterinn kostaði.

Gerður var líka í draumnum og við skutluðum henni heim, hún bjór í græna húsinu hans Baldvins leikara nema það var hinumegin við götuna í draumnum.

Minnir Óskar hafi verið þarna eitthvað líka.

Og svo var þröng hættuleg gata og bílarnir keyrðu nálægt hver öðrum.

13 maí 2013

Gleymska

Ég gleymdi næstum að fara úr vagninum, það er ekki lengur gaman að gleyma, það er einsog að týnast.

11 maí 2013

Fyrirgefning

Þú verður að fyrirgefa honum, sagði vinkona mín svo ég bað til guðs, og þá kom sú hugsun að það væri ekki hægt, þetta væri svo mikill glæpur, ég bað því aftur, og þá kom það væri svo mikið vesen að ég þyrfti að reisa heila borg úr rústum og rústa henni aftur, - svo ég bað aftur og þá kom friður. Og frelsistilfinning.

05 maí 2013

Stjörnurnar á himnum

Mér þætti það virðingarvottur um ást okkar að yður legði niður deilur, tortryggni og rangindi um mig og segði mér frekar hvað við eða ég þarf að laga. Fyrirgefðu.

************************************************************

Þetta sms fékk ég í kvöld og við þennan mann vil ég segja að ég skulda ást okkar ekki neitt og gott ef hann hætti að rukka mig um ást eða peninga, já eða virðingu, ég lagði mikið í þessa ást, og veit ekki um hvaða rangindi hann er að tala, kannski það að hann hélt framhjá mér frá fyrsta degi sambandsins með því að vera á stefnumótalínum og kom í sambúð með mér með þessa stefnumótalínu, síðast þegar ég sagði honum upp rukkaði hann mig um peninga, nú um ást að ég skuldi ástinni virðingarvott, maður sem barði hnefanum hér í loftið, skvetti kaffi framan í mig, reyndi að sparka í mig, hefur öskrað á mig í tvö ár, kallað fjölskyldu mínum öllum illum nöfnum, rakkað niður vini mína, gagnrýnt mig stanslaust, komið með endlausa neikvæðni,

og ég get ekki sagt honum hvað hann á að gera, ég fann sjálf uppá því að fara í Kvennaathvarfið, geðdeild og Náttúrulækningahælið tilað skoða sjálfa mig einsog það heitir og nú er ég að taka sprorin, þetta er þekkt meðal sumra manna að segja, segðu mér hvað ég á að gera. Ég hef sagt þessum manni að ég er hætt að laga sambandið.

ÉG ER HÆTT AÐ LAGA SAMBANDIÐ. ÉG ER AÐ LAGA STJÖRNURNAR Á HIMNUM.

03 maí 2013

Góða kvöldið

það er nótt

og feisbúkk er frosin og sjórinn er fallega næturblár og ég náði í stígvélin mín úr viðgerð í dag og fór á fund og  kíkti á ljóð og fékk hrós fráleikstjóra fyrir handrit, gaman, og borgaði fullt af skuldum og sá vorið aðeins og það var einsog kötturinn hoppaði uppí rúm þótt hún sé dáin, skrítið og ég er með blálakkaðar neglur, mjög flott og skrítið að geta ekki skrifað, guð er kannski að stoppa mig því ég hef skrifað svo mikið.