26 október 2008

Ég er sökudólgurinn

Leitinni að sökudólgnum er hætt, sökudólgurinn er kominn í ljós, hann hefur skriðið fram úr skjóli sínu og játað eftirfarandi, það er semsagt ég og ástæðan fyrir kreppunni er sú að:

1. Ég keypti ekki tjaldvagn.
2. Ég keypti ekki flatskjá.
3. Ég keypti ekki hornsófa.
4. Ég keypti ekki jeppa.
5. Ég keypti ekki íbúð á Manhattan.
6. Ég keypti ekki einkaþotu.
7. Ég keypti ekki fótboltalið.
8. Ég keypti ekki grill á 300.þús.
9. Ég keypti ekki hús á Ítalíu.
10. Ég keypti ekki Magasin du nord.
11. Ég keypti ekki tískufyrirtæki.
12. Ég keypti ekki 30 strokleður.
13. Ég keypti ekki moggann.
14. Ég keypti ekki hótel.
15. Ég keypti ekki stærri ísskáp.
16. Ég keypti ekki gervihnattasjónvarp.
17. Ég keypti ekki sumarbústað.
18. Ég keypti ekki jörð.
19. Ég keypti ekki kvóta.
20. Ég keypti ekki foss, norðurljós, Kerið í Grímsnesi, ekki einusinni eina litla þúfu.

*

Ég játa og sé núna að ég hef stefnt þjóðarbúinu í þrot, ef bara ég hefði keypt allt þetta hefðu komið peningar inní þjóðarbúið, það munar um eina manneskju, en hvað gerði ég, ég fyllti ekki ísskápinn og lifði á kartöflum í sumar meðan krónan féll, - og ég játa eitt í viðbót:

MÉR LÁÐIST AÐ MÆLA TIPPIÐ Á MÉR.

Því fór sem fór.

Og ég mun nú taka út mína refsingu sem er:

1. Taka slátur á hverjum degi til jóla og hafa slátur í jólamatinn.
2. Vera rosalega andleg frá morgni til kvölds.
3. Sækja öll námskeið um innhverfa íhugun og andleg verðmæti sem í boði eru.
4. Prjóna þartil fer að blæða úr fingrunum.
5. Keyra mig upp í drama hvenær sem einhver minnist á kreppu.
6. Spreða þessu drama útum borg og bý.
7. Virkilega taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. Aldrei að sleppa úr tækifæri.
8. Læra að finna upp hjólið, eldinn.
9. Aldrei að kenna kapítalismanum um hvernig fór heldur einhverju svakalega dularfullu sem kallað er ástandið.
10. Kenna öllum öðrum um þótt ég sé búin að játa.
11. Vorkenna ríkisstjórninni.
12. Læra gamalt handverk, einsog tildæmis að búa til ljós úr lýsi.
13. Selja auðlindirnar tilað redda málunum.
14. Minnast aldrei á hvað það var nú gaman í einkaþotunni.
15. Jarða allar minningar um grillið, jeppann, laxveiðarnar.
16. Læra Einræður Starkaðar utan að. (Eftir Einar Ben.) Segja tíu sinnum á dag: Ég er Einar Ben. Í dag eru Einar Ben. Og hart í bak.
17. Gleypa í mig viðtöl við Dorrit þarsem hún segir mér að vera nægjusöm.
18. Athuga hvort ég finn eitthvað nýtilegt á strandstaðnum þegar enginn sér til.
19. Segjast ætla hjálpa til.
20. Vita að ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu en passa að minnast aldrei á það. Þá gæti einhver haldið að við búum í lýðræðisþjóðfélagi.

*
Já, svo ætla ég að mæla einbýlishús á nóttunni og hjálpa ríkisstjórninni að finna fleiri sökudólga.

Því fyrst hún talar svona mikið um sökudólga hlýtur hana að hungra í þá, á meðan beinist athyglin ekki að henni, á meðan ríkisstjórnin er svona mikið í sviðsljósinu þá fattar enginn að þetta var hún.

Við trúum ekki að neinn geri neitt vont í sviðsljósinu.

*

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hola
http://pescaenourense.blogspot.com/

Nafnlaus sagði...

Samkvæmt þessu virðist þú hafa keypt snekkju.

Kveðja úr Trékyllisvík,
H.

Nafnlaus sagði...

Snekkju!!!

Eru það útreikningar sem staðfesta það...

snekkju, já ég man það núna, ég keypti snekkju, ég var búin að gleyma því, enda var þetta bara lítil snekkja, og bara mjög lítil, snekkju, ertu viss um að ég hafi keypt snekkju, ég man ég bað um lán fyrir snekkju, en fékk það ekki, ég fór með það í blöðin, en fékk samt ekki snekkjuna, mér þætti gaman að vita hvar þessi snekkja er núna niðurkomin, þessi sem ég man ekki eftir,
en það átti að taka af mér þessa snekkju, og þá bað ég um lán fyrir henni, en fékk ekki lánið og sagt að þetta væri röng atburðarás,

en hafi ég keypt snekkju þá tek ég auðvitað út mína refsingu, sem væri kannski að fletta snekkjutímaritum á biðstofu bankastjóra.

Elísabet

Nafnlaus sagði...

Ég er bara ekki búin að ná þessu, keypti ég snekkju, - ég hélt ég væri svo pottþétt, ég man ég var að pæla í að kaupa snekkju og heyrði um einhverja sem keyptu snekkju, en snekkju, ég er að pæla í ef ég rétti út höndina, þá er hún kannski þar...