16 mars 2013

Jarðarför Þorvaldar

Fór fram í dag í Hallgrímskirkju, enn absúrd þegar ég skrifa þetta, í lokin þegar kistan var borin út og sett á mold á hana fannst mér alltíeinu að við værum stödd í innsetningu eftir Þorvald Þorsteinsson og þegar allir gestirnir voru í biðröð í erfidrykkjunni og við vorum að velta því fyrir okkur hvað væri að gerast stakk ég uppá því að það væri ljósmyndari að taka myndir af hverjum og einum og svo opnaði Þorvaldur sýningu:Gestir í jarðarför minni. Það stafaði svo mikilli hlýju frá Þorvaldi, hann var alltaf að hlusta og hlusta og hlusta einsog maður væri að segja eitthvað merkilegt og hann væri þáttakandi og hann var að hlusta og svo hló hann og sneri sér í hring og hló og augun tindruðu og hann hreyfði sig svo mikið og hló og hlustaði og sagði eitthvað fallegt einsog þegar hann sagði að bloggið á þessu Heimsveldi væri einsog Chaplinmynd. Og ástin hans og Helenu var ein sú fallegasta, þau voru alltaf kát og einu sinni komu þau fljúgandi upp tröppurnar þegar kærastinn hafði yfirgefið mig og vildi ekki taka þátt í því að ég hafði slasað mig, og mér fannst heimurinn svo tómur og einskis virði, þá voru þau nýbúin að gifta sig, og ég sagði þetta hefði verið fyrsta rifrildið okkar, til hamingju sögðu Helena og Þorvaldur, til hamingju.

Engin ummæli: