14 mars 2008

Stelpan og sólargeislinn

Einu sinni var stelpa sem bjó í húsi sem hét Ótti. Ótti hafði verið reistur fyrir langa löngu og átti gamla og merkilega sögu, ártalið stóð utaná húsinu einsog á gömlum og merkilegum húsum. Og þarna bjó stelpan ár eftir ár og vildi ekki flytja úr húsinu, svo fór eitthvað að gerast, sumir halda að það hafi verið sprunga í húsinu þarsem sólargeisli náði að brjótast inní húsið, og það gerði hann dag eftir dag, svo var einn sólargeisli sem gerði útslagið og þá varð stelpan svo leið á sólargeislunum, alltaf þessi sólargeisli, hugsaði hún, þetta er örugglega sami sólargeislinn og svo reyndi hún að finna sprunguna og múra uppí hana en ekkert gekk, þetta var þannig sprunga, svo einn daginn hrundi húsið, og þá skein sólin öll á stelpuna og þá bara breyttist allt.

*

Það er til annar endir á þessari sögu og hún er sú að þegar stelpan fékk leið á sólargeislanum þá fékk hún leið á öllu öðru og hún fékk meðalannars leið á að vera hrædd og full af ótta, og þá vildi hún vera öðruvísi og þá varð hún öðruvísi. Hún hnussaði svoleiðis að hnussaði bara og það kom frá líkamanum en ekki málstöðvunum. Lífið er dásamlegt. Það er ekki hættulegt að skrifa það. Lífið er dásamlegt.

*

There is a crack where the light gets in. (Leonard Cohen)

Engin ummæli: