29 júní 2012

Röddin

Ég hringdi í hann útá sjó og hann er með fegurstu rödd í heimi.

28 júní 2012

Tímamót

Þjáningin er búin,.... nú verður lífið bara gott og yndislegt og friður í höfðinu á mér,...

bros

er pínu hrædd svo það er best að fara í göngutúr, og pínu hamingjusöm líka, kveikti á útvarpinu, vaskaði upp, sat útá tröppum í sólinni, fékk mér kaffi, braut saman nærbuxur, gerði magaæfingar. get sagt þetta hér fyrst enginn les þetta, bros.

27 júní 2012

stórtíðindi

synti kílómeter, ótrúlegt afrek, 20 bringu, 10 bak og tíu bakskriðsund og fékk mér orkudrykk á sundlaugarbakkanum, gekk útá sögu og náði í hárkamb og keypti mér rúgbrauð í melabúðinni og losandi já einmitt í apótekinu og labbaði svo heim og hingað er ég komin,... með soldið mikið af hugsunum sem eru allar óþarfar því það er enginn dauður enn. sætt og elísabet ég elska þig.

26 júní 2012

Sólar lífið

fór í sund í dag og ætlaði ekki að geta synt, svo kom spurning hvernig má koma fram við elísabetu jökulsdóttur þegar ég var að synda ferð númer 19 og afhverju ég ætti að gera þetta sem ég hef verið beðin um en ákvað að láta það í hendurnar á æðri mætti. Og fékk mér svo malt á eftir. Það var dýrðar sól og ég gat synt þótt ég væri þunglynd í byrjun. Elska lífið.

26.júní

Á tröppunjum í sólinni á svörtum púða og hvít blóm klippt af runna í ungversku könnunni á bak við mig, neitaði kókflösku áðan, með kaffið mitt á kollinum og fuglarnir komnir á sinn stað og tjörnin sem Embla bjó til glitrar í sólinni.

25 júní 2012

Sat í garðinum

með djúpfjólubláum þyrnirunna,....

Jónsmessan

reyndist göldrótt, ég uppgötvaði soldið sem hafði lengi hvílt á mínum huga, það leystist og ég sá hvað var raunverulega á seyði, .... svo settist ég á rúmið og þá kom soldið gott svar, vonandi er það rétt, ég var dauðsyfjuð þegar ég kom heim frá því að passa Lillý og þá voru fuglarnir ennþá úti og inni var allt dótið á víð og dreif á gólfinu, það var eitthvað svo yndislegt, ég setti það í hattaöskjuna og fór að sofa, tók eina fennegan og eina serókvel, Embla var hér í heimsókn og við fórum í afmæli til Ronna, og löbbuðum alla leiðina, þar á undan fórum við í Nóatún og Apótekið og keyptum afmælisgjöf. Það var svo gott að fá Emblu aftur í heimsókn, hún hefur ekki komið svo lengi, svo vaknaði ég einsog venjulega með Heklu á heilanum og litla mígreni rúsínu í þriðja auganu og fór alltíeinu að pæla í hvort ég ætti að heimsækja Önnu Siggu á Ísafirði og dansa fimm ryþma dans.

24 júní 2012

Vaknaði

Vaknaði kúrði lengur fékk mér malt og tvær engifersöl fór á fætur hellti uppá kaffi fékk mér fullt af vatni með klaka. Er ég í eyðimörk? En burstaði líka tennurnar, tók lyfin, vítamín og leit örugglega útum gluggann.

Jónsmessunótt

Ljósblár spegilsléttur sjórinn hvít sængurfötin bylgjast hjartað slær ekki rótt.

Jónsmessunótt

JÓNSMESSUNÓTT Ljósblár spegilsléttur sjór og hvít sængurföt ekkert um hjartað. Ljósblár spegilsléttur sjór hvít sængurföt blóðrautt. ... og þetta er sennilega best,... Ljósblár spegilsléttur sjór hvít sængurföt hjartað slær ekki.

Draumabrot

Aðfaranótt laugardags dreymdi mig eitthvað afa og ömmu á Reynimel, og eitthvað fleira, jú Rúnar Guðbrandsson en man ekki meir eða hvað gerðist.

23 júní 2012

Halló

Í dag á ég edrúafmæli 19 ár og sjö mánuðir, sólin skín, grái kötturinn okkar mjálmar í grasinu, ég keypti malt og melónu, og datt í hug nýtt leikrit, um reiða konu sem segir: Hann hefur flætt yfir líf mitt og ég er að reisa flóðgarða, en sólin skín og ég sit á tröppunum og ætla passa Lillý í kvöld og var að hugsa hvað það væri gaman ef Embla gistir og við getum búið til litla tjörn, og hvað ef skvísurnar hans Kristjóns kæmu, halló.

22 júní 2012

Látrabjarg í pósti

Kærastinn sendi mér Látrabjarg í pósti, -

21 júní 2012

Hún sjálf var ástin

En afhverju var hún svona reið, hún hefur bara orðið reið út af einu, að hann flæddi inní líf hennar einsog fellibylur og ástin hennar hefur ekki sést. Ástin hennar hefur horfið og hún sjálf var ástin.

frjálst

ella stína var á ellu stínunum á ellu stínu sem sjón dró í gegnum ellu stínu tilað komast heim á ellu stínu, ella stína treysti sjón tilað koma henni undan ellu stínu en hún vildi allsekki vera þessi ella stína sem var á ellu stínunum á ellu stínu og óttaðist að hún myndi ná þeim og kaffæra þau í ellu stínu svo bara ef þau kæmust heim og gætu lokað ellu stínu yrði allt gott og ella stína gæti byrjað að skrifað um það hvernig er að hafa ellu stínu á ellu stínunum svo hún geti ekki um frjálst ellu stínu strokið.

Hver er presturinn?

Ella Stína vill bara komast heim til sín tilað geta skrifað undir verndarvæng Sjón, sem sagði að hlutirnir mættu vera súrealískir, en hún er að flýja undan presti og getur verið að þessi prestur sé annar en hann er.

Og hver ekki

Ella Stína dró Ellu Stínu gegnum Ellu Stínurnar, hún var á leið heim á Ellu Stínu þarsem ríkti Ella Stína og enginn kæmist tilað trufla hana, þessvegna munaði miklu að komast undan prestinum sem var að elta Ellu Stínu og Ellu Stínu og enginn vissi hvað hann hugðist fyrir en hann hafði verið dæmdur fyrir Ellu Stínu, alveg voðalegt Ellu Stínu og var ekki vel þokkaður, svo Ella Stína var soldið rugluð útaf þessu öllu saman og vissi ekki alveg hver var Ella Stína og hver ekki.

Hann sá mig minnka

Ella Stína var á snjóþotu og Sjón dró hana gegnum snjóskafla, á eftir þeim var prestur sem hafði verið dæmdur fyrir ofbeldisverk gagnvart konu, hann virtist vera að reyna að ná Ellu Stínu, ef presturinn var fortíðin hvað var Sjón þá, skáldskapurinn? Eða súrrelaisminn, Ella Stína hafði verið á bar og hafði drukkið þar ótæpilega þegar presturinn kom og hótaði að berja hana, Ella Stína flúði út og beint í flasið á Sjón sem var að væflast með snjóþotu og hún hoppaði rakleiðis á snjóþotuna, heim sagði hún, heim á Framnesveg, hann reynir að ná okkur, hver er það spurði Sjón. Ég held það sé barþjónninn, sagði Ella Stína. Barþjónninn? Já barþjónninn. Nú hvernig stendurðu á því, afhverju varst þú á barnum, þú er bara barn, ég er barn á barn...um, sagði Ella Stína, en það var þannig að ég var kona og varð að minnka mig og ég minnkaði mig alveg niðrí Ellu Stínu, ég var með þessu manni uppí sumarbústað af því ég elskaði hann, elskaðir þú mann, þú ert bara barn, já en manstu ekki að ég minnkaði mig, sagði Ella Stína, ég breytti mér í barn, eða konan breyttist í barn, hvar er konan núna, spurði Sjón, hún vill komast heim, hún er svo viðkvæm þessi kona, hún þolir bara að vera hún sjálf þegar hún er heima hjá sér og óhult frá þessum manni,en afhverju er hann að elta hana ef þú ert bara barn, hann sá mig breytast,hann sá mig minnka.

Tilbúin....

...tilbúin að fara útúr húsinu,....hafði greitt á sér hárið farið í bað lokað gluggunum lesið ævisögurnar raðað diskunum ry

Tilbúin

Allt í einu fann ég að ég var tilbúin að fara útúr húsinu, að ég var tilbúin, ég hafði verið að láta líða úr mér og passa það, öll þessi ár, eftir að þeir fluttu burtu. Allur þessi tími, þessi góði og göldrótti tími með gleði og sorgum, mat og ekki mat, mamma og ekki mamma, fótbolti og körfubolti og handbolti og glíma og prakkarastrik og sjónvarp og tölvur og stelpur og raddir og fótatak, það er alltí lagi að ég sé ég, ég má alveg taka mér tíma að nú sé þessi tími liðinn og ég geti farið burtu.

Tvær bumbur

Mín bumba er einsog ég sé komin níu mánuði á leið, segir hann og klappar sinni bumbu sem hann segir velmegunarbumbu.

Góðan daginn

Í dag þegar ég vaknaði um eittleytið og fór niður og fékk mér kaffi og þá spratt ósjálfrátt hátt og snjallt og ég breiddi út faðminn: Góðan daginn. Það var við norðurgluggann, þar sem ég bíð eftir hvítu blómunum.

Mitt líf að kremjast á milli

Dreymdi ég var með manni sem ætlaði að sýna mér hvernig ofbeldi væri, með því að þykjast kýla mig mörgum sinnum í andlitið en hann var bara að þykjast og spurði viltu þetta og hættu að vilja þetta. Og ég fann ég vildi það ekki, þetta var tortímandi viðbjóður og í draumnum var þetta IB. Þetta er ekki góður draumur, ég er baraa upptekin af ofbeldi og ekki ofbeldi og mitt líf að kremjast á milli. Svo var í draumnum mín fyrrverandi kirkja eða eitthvað líkt henni. Og ég held líka að ég sé með einhverskonar þrumuleiftur.... ha, þrumuleiftur, já en hvar er mitt þrumuleiftur og vinstri höndin hreyfir sig vitlaust og maginn er of stór, hvað geri ég ég er búin að hugsa um það í mörg ár að láta taka ljósmyndir af mér, eða í fjögur ár og árin hafa bara liðið og ég hef líka hugsað um að fara í líkamsrækt en sömu ár hafa liðið.

20 júní 2012

bannað að skammast

ég er í banni að skamma sjálfa mig, og vera upptekin af öðrum, ég er í fyrsta sæti.

paddan

hulda og laufey komu í morgunkaffi og lásu pödduna. það var gaman. margt sem ég sá, held að aðkomukonan hafi breytt sér í pöddu en hvað þá með heimakonuna. lífið er dásamlegt og ég á leiðinni í sund ef ég kemst, fór á fund í hádeginu, það var kraftaverk. soldið feimin, dreymin og dró seiminn, nei djók. og maðurinn útá sjó.

19 júní 2012

Sjálfstraustið

Það er nú merkilegt hvað sjálfstraustið getur horfið, kemur það við að vakna á morgnana klukkan níu eða hvað, þegar maður er upptekin af einhverjum öðrum endalaust, ég er stundum svo lítil þótt ég sé stór. Og ég var að naglalakka mig, það er rosalega fínt, alveg klassi, var í handsnyrtingu og nuddi handanuddi og naglabandasuddi og spjallaði við dömuna sem handgerði mig, hand made Elisabet, og ég kann ekkert á myndavélina hver getur kemmt mér á hana og mig dreymdi ekkert í nótt, það er þriðjudagur, og hvað á ég að fara skrifa næst.

18 júní 2012

að hugsa til þess

mér finnst svo voðalegt að hugsa til þess að við eigum eftir að deyja, við höfum elst og tíminn hefur liðið og stoppar ekki, þess vegna finnst mér gott að hugsa um hann.

Kaffið mitt

Ég er alltaf í samanburði og keppni við hann, mér finnst hann tildæmis mikið merkilegri en ég, svoleiðis var það líka með Inga, enda gerir hann lítið úr kaffinu mínu,.....

Draumur

Daginn eftir Óskar fór dreymdi mig hann í skipstjórastól, svo fór hann niður einsog kippt væri í spotta.

Að vera sæt

Fara í andlitshreinsun, fót og hand, litun, plokkun og nudd, horfa á eitthvað fallegt, lesa bækur, fara útúr bænum, ekki vera hrædd.

Sambandið

Fór í rúmið klukkan eitt, kíkti í rithöfundabók sem Pétur Blöndal gaf mér og svaf svo, vaknaði um sjö leytið held ég og fannst sambandið vera búið, fór aftur að sofa. Svaf vel og svaf til hádegis, það var undursamlegt, hitaði mér kaffi og fékk fyrirspurn hvort ég gæti passað Lillý.

Suðurgata 8a

Dreymdi ég bjó í Suðurgötu og búið að jarða Óskar og ég að koma heim og Kiddi sem er nýlátinn spurði hvort hann mætti koma og gista en ég sagði mig langaði að vera ein eftir jarðarförina, svo mætti hann koma og leggja sig, svo var einhver stelpa líka sem var svipað ástatt fyrir og Kidda sem vildi fá að vera, en allavega ég kom inn og uppgötvaði það var búið að breyta öllum gluggum þannig að þeir voru hættulegir fyrir börn en hægt að hleypa meira lofti inn um þá. Svo var ég þarna.

15 júní 2012

sól úti

það er sól úti og ég er eftir mig óendanlega þreytt og með þursabit því ég þoli ekki ástina eða hvað er það sem ég þoli ekki þessa endalausu spennu og svo er ég alltaf í stríði við sjálfa mig. Hér kemur stríðið. ég. afhverju ertu í stríði. ella stína. ég vil ekki verða stór. ég. afhverju ekki. ella stína. þá teygist úr mér og ég stækka og það er sárt. ég. en það er sárt að vera alltaf svona lítill. ella stína. þá verð ég að kveikja á kerti ef ég stækka. ég. og er það ekki fínt. ella stína. fínt. ég. já kveikjum á kerti og stækkum pínulítið. ella stína. hvað er að stækka. ég. viðurkenna hvernig manni líður. ella stína. ég viðurkenni aldrei neitt. ég. þá verðurðu eftir. ella stína. ég vil vera eftir. ég. en þá geturðu dáið, frosið í hel. ella stína. það er gott. ég. kveikjum á kerti handa frostinu. ella stína. bara pínulitla stund. ég. já. pínulitla stund.

skilin eftir tilfinningaalega

og svo var farangur hans yfirfarinn, leyndist hún einhverstaðatr í tödskunni.

12 júní 2012

Lillý á Kaffivagninum

Ég og Líllý fórum í göngutúr á bryggjuna í gær sáum báta og fengum okkur kaffi á kaffivagninum og þar dugguðu rugguðu bátarnir.

11 júní 2012

150 kíló

Hann segir hún sé hundrað og fimmtíu kíló á lyfjum og geðlyfjum og hin er líka hundrað og fimmtíu kíló en var spýta áður.

10 júní 2012

Lillý og fótboltinn

Sá fótboltaleik í gær, svo mikil frelsun, að horfa, gleyma sér og var að passa Lillý, hún fór hamförum um íbúðina opnaði alla skápa lyfti lóðum lék sér að öllu dótinu, borðaði banana hló og skríkti og bræddi mitt ömmu hjarta.

09 júní 2012

Hlaðgerðarkot

Fór í Hlaðgerðarkot, helgur staður, sóleyjar og steiktur fiskur, sjúkdómurinn í öllu sínu veldi og vonin vonin vonin....

08 júní 2012

Herðakistillinn

Ég er komin með herðakistil því hjarta mitt neitar að opnast, það er reyndar ekki spurning um það heldur er hjartað horfið og þá get ég ekki verið ég sjálf hedlur einhver önnur leiðindagella í staðinn fyrir þetta djúsí fyrirbrigði sem ég er ég, svo á ég vera ástfangin af mér og nú nú nú.

07 júní 2012

Í jarðarför

Ég held hún hafi verið búin að ákveða þetta soldið.

gekk ekki sem skyldi

ég og hann fórum í bíó í gær og það gekk ekki sem skyldi, það var björt júnínótt

06 júní 2012

rifrildi, norðanátt og sættir

ég reifst við manninn minn, hann sagði ég væri hrædd, og afhverju ég væri reið, ég sagðist vera hrædd hrædd við að hverfa og mást út í sambandinu og detta inní ástsýki, en svo er komin norðanátt og trén sveiflast í vindinum og áðan sýndist mér trilla í vandræðum. maðurinn minn er að bólstra stólana, ég lagði mig, það er sigur, mér finnst ég alltaf þurfa að vera gera eitthvað, og það er að koma nýtt barnabarn.

05 júní 2012

Mataræði

ÉG var að drekka rauðrófusafa fyrir meltinguna og AB mjólk með hörfræjum og kaffi.
Já, ég byrjaði í sambúð eftir 20 ára hlé og síðan hef ég verið upptekin við að færa hluti til og frá eða býsnast yfir því að hann færi hluti til og frá, það er búið að vera sól í tíu daga svona steikjandi og ég þarf að fara uppá skattstofu og ganga frá virðisaukaskattskýrslu og síðan ætlaði ég að að búa til handrit af Ellu Stínu sögum, ég er auðvitað dauðhrædd við ástsýkina og meðvirknina og afhverju þarf ég alltaf að vera hrædd, þetta hefur verið dásamlegt hús, er ég að geðjast honum með því að vera hrædd.... eða reið. Ég veit ekki hvort ég get alltaf verið að pæla í hlutunum, það gerir mig geðveika enda fór ég inná geðdeild í fimm daga,....með geimveru sem ég fékk lánaða hjá litlu frænku minni og horfði á sjónvarpið og varð sæt af því og er núna að hugsa um að kaupa mér Barbídúkku.
jæja, vita hvort þetta virkar, fatta ég hef ekkert skrifaða síðan ég byrjaði í sambúð þann 2. mars og nú er komin júní....