29 desember 2007

Elísabet í dægursveiflunni

Ég vakna í þunglyndi á morgnana, sannfærð um að ég sé komin með krabbamein og hafi lifað lífinu til einskis og stutt eftir, um kvöldið þegar ég fer að sofa er ég orðin nokkuð hress, svo hress að ég tími helst ekki að fara sofa og er klukkutíma að sofna, þetta er kallað dægursveifla.

Þegar ég fer í skólann þarf ég venjulega að drífa mig og fá mér kaffi, svo þunglyndið er ekki eins slæmt, en svo fór ég uppí Borgarfjörð í gær og gisti þar í nótt í Lundarreykjardal hjá Kolbrá systur minni og Óla á Hóli, og hún eldaði svo góðan mat, og ég svaf í sama herbergi og mamma og mamma andaði alla nóttina og stjörnur blikuðu úti, svo skærar, miklu skærar en í borginni og í morgun sá ég rönd skera myrkrið, og vissi það sem hjarta mitt veit að ég ætti að eignast jörð og nokkra þunglynda hesta tilað dást að og sjá styrkinn þeirra og fegurð, ég er náttúrubarn og hætti ekki að vera það þótt ég segi það, en þegar ég vaknaði í morgun þá var ég ekki að hugsa eitthvað um þunglyndi, heldur áruhreinsun.

Og þá vissi ég að dögunin, og stjörnubjarta nóttin, kyrrðin og andardráttur mömmu höfðu hreinsað áruna mína.

Engin ummæli: