19 desember 2007

Netið kemst í samband

Karlmenn eru öðruvísi en ég. Þeir kunna á netið. Netið mitt hefur legið niðri og í dag komst það í lag. Það komu fjórir karlmenn við sögu. Fyrst hringdi ég í SKO og lenti á engum öðrum en Sævari. Sævar er stórvinur minn, rappari og gefur út disk í febrúar. Hann hafði tekið eftir þessum fína dóm um lásasmiðinn í Fréttablaðinu og eftir strangar mælingar hélt hann að lan-línan væri biluð. Þá hringdi ég í Gústa vin minn sem kom og reif allt úr sambandi og setti aftur í sambandi og komst að því að ráderinn væri bilaður. Í því kom Heiðar skólafélagi minn og ég spurði hvort við værum ekki á leiðinni uppí Krókháls að ná í nýjan ráder og hann játti því en fyrst töluðum við um sálarlíf hans og Heiðar keypti lásasmið. Þess má geta að Gústi varð að fara eftir kaffið því hann var á leiðinni austur fyrir fjall og ég bað hann um að taka lásasmiðinn í Selsund. Þar er hann sennilega búinn að skipta um allar skrár, annars er það svona staður þarsem allt opnast af sjálfu sér og maður þarf bara að segja töfraorðin: Ég er komin. Heilræði lásasmiðsins eru reyndar líka töfraorð. Heiðar talaði um sálarlíf sitt í tvo klukkutíma og við þurftum að skipta um herbergi tilað gera því almennileg skil en fórum svo uppí Krókháls þarsem yndisleg afgreiðslustúlka stakk nýjum ráder í poka. Þegar ég kom heim setti ég allar snúrur í ráderinn og hugsaði: Ætli þurfi ekki að kveikja á þessu. Gústi hafði ekkert minnst á það, bara sagt mér hvar snúrurnar ættu að vera, þær áttu meðal annars að vera í lan-portinu. En það gerðist ekkert. Ég bilaðist þokkalega. Þessi ráder var örugglega ónýtur. Ég hringdi aftur í SKO og talaði alvöruþrungin við einhvern Ásgeir. Hann sagði mér að kveikja á rádernum og spurði svo hvort græni liturinn væri orðinn appelsínugulur, hann myndi ýta á takka hjá sér og eftir tíu mínútur ætti litabreytingin að hafa átt sér stað. Þá væri netið tengt. Mér fannst við hljóta að vera í einhverju tilfinningasambandi við svona galdra.

Engin ummæli: