27 desember 2007

Konan í mér

Á Írlandi uppgötvaði ég að konan í mér var föst í tveimur hlutverkum, hlutverki píslarvottarins og hlutverki reiðu konunnar. Það vantaði allt jafnvægi, það var tóm þarna á milli, kæmi mér ekki á óvart þótt þar væri sársaukinn holdi klæddur sem er snillingur í að gera sig tilfinningalausan, og þarmeð fást engar upplýsingar, en allavega þegar ég kom heim þá fann ég þessa sem er á milli, hún bara svona skoðar þetta í rólegheitunum, og hlustar á samræðurnar.

Píslarvotturinn: Ég á ægilega bágt.

Reiða konan: Þú ert aumingi.

Píslarvotturinn: Ekki láta svona við mig.

Reiða konan: Það ætti að útmá þig.

Píslarvotturinn: Hvað hef ég gert.

Reiða konan: Þú hefur ekkert gert.

Píslarvotturinn: Ég geri alltaf allt.

Reiða konan: Þú ert lömuð af aumingjaskap.

Píslarvotturinn: Ekki slá mig.

Reiða konan: Ég kem ekki nálægt þér.

Píslarvotturinn: Hvert ertu að fara.

Reiða konan: Ég er farin.

Píslarvotturinn: Hvert ertu að fara. (Fær hóstakast) Hún er í kokinu á mér.

*

ps. Lestu samræðurnar aftur og hugsaðu þér að reiða konan segi ekki neitt. Það er þannig sem reiði mín hagar sér, hún þegir og beinist inná við. Og svo fær píslarvotturinn í magann. Dásamlegt líf.

Engin ummæli: