20 desember 2007

Skiptu um lás

Heilræði lásasmiðsins eftir Elísabetu Jökulsdóttur er ekki saga um ást eða fallegt samband heldur sálarlífið á bak við atburðarásina. Hinn faldi veruleiki verður ljóslifandi á hverri blaðsíðu. Herbergi sálarlífsins sem hafa verið lokuð lengi opnast. Höfundur leggur upp í sjálfsskoðun af sjaldséðri einlægni og átakanlegri ástríðu. Hugurinn talar án ritskoðunar, allt skoðað og allir möguleikar rannsakaðir.

Við lestur bókarinnar er óhjákvæmilegt að líta á sjálfa sig og lífið útfrá víðara samhengi. Einstaklingurinn í nærsýn er töfrum líkur, er veröld sem virðist án enda ef við skoðum bara dýpra.

Sagan er líka um barnæskuna, litlu stelpuna sem er að reyna að skilja heim fullorðinna. Pabbastelpa með stóra hjartað sem alltaf slær til hans og þau skynja þarsem heimar þeirra mætast. Dásamleg ástarsaga dóttur til föður sem aldrei var til staðar í lifanda lífi en samt eru þau órjúfanleg heild, tilfinningarnar svo stórbrotnar að orðin eru máttlaus verkfæri en í staðinn er það andinn sem svífur yfir í þessari bók sem gefur þér visku tilað skilja meira.

Ekki bókstafir einir en líf, þú finnur lífið kvikna í lestri þessarar bókar sem snertir við öllum og öllu því hún hefur að geyma það sem við hugsum en ekki segjum.

Áslaug Einarsdóttir, tónlistarmaður. (Mbl. 20.des.2007)

Engin ummæli: