28 júní 2008

Líþíum-saga

Líþíum er salt úr jörðinni. Það er í lotukerfinu með gulli, silfri, vetni og öðrum efnum jarðarinnar. Þegar ég var á geðdeild 1997 var ég greind með geðhvörf. Það var einhver léttir sem fylgdi því og útskýrði allt þetta "rugl". Allt þetta rugl þýddi ekki bara meiriháttar sturlun sem ég hafði glímt við þetta sumar og næstum kostað mig lífið, heldur allskonar litlar uppákomur, allskonar viðhorf til lífsins. Svo ég var fegin að heyra þetta frá læknunum. Þeir sögðu ég ætti að taka líþíum, það kom ekki til greina, ég ætlaði ekki að verða einhver pillukerling, en fyrst og fremst ætlaði ég að lækna mig sjálf. Verða fræg og rík fyrir vikið. Allir áttu á geta bent á mig: Hún læknaði sjálfa sig. Hún fann leiðina.

Svo fór ég í allskonar óhefðbundnar lækningaaðgerðir, (ég er ekki að gera lítið úr þeim, ég held að þær á endanum hafi hjálpað mér og átt þátt í því að ég fór loksins að taka lyf)

En í tvö ár streittist ég á móti, fór í heiftarlegar maníur og gat varla fermt tvíburasyni mína, ég gat ekki hugsað um ömmubörnin mín, ég gat ekki klárað bækurnar mínar og aftur og aftur stofnaði ég lífi mínu í hættu með áhættuhegðun og stjórnleysi. Minn eigin haus réði heiminum.

Svo hitti ég gamlan mann á götu: Það verður stofnaður Geðhvarfahópur í kvöld, sagði hann. Ég hugsaði um að fara en hugsaði líka um að hætta við. Þannig hugsaði ég og hugsa reyndar ennþá stundum. Svo spurði ég tvíburana hvort ég ætti að fara og sembeturfer tók ég mark á þeim þegar þeir sögðu mér að fara. Ég var næstum því farin að gráta á fundinum af því þar var bara venjulegt fólk. Myndin af mér var greinilega mynd af skrímsli, það uppgötvaði ég þarna um kvöldið.

Eftir tvo mánuði var ég farin að taka líþíum. Margir á fundinum notuðu það lyf, aðrir notuðu önnur lyf. En líþíum var talið best. Eiginlega töfralyf og uppgötvaðist fyrir tilviljun. Og hvað réði úrslitum, ég hafði hlustað á þau, þau voru bara í fínu lagi þótt þau tækju lyf. Þau sögðu mér að úthaldið myndi aukast og ég myndi ekki hætta að fá skrítnar hugmyndir.

Ég ætti að gefa þessi séns í tvör ár!!! Tvö ár, hugsaði ég, ég hafði hugsað um tvo mánuði. Síðan eru liðin 9 ár. Og ég passa alltaf uppá líþíumskammtinn minn. En ég þarf að passa uppá svefninn, tilfinningarnar, sjálfa mig svona í kristalsformi.

Það gerðist ekki neitt þegar ég fór að taka líþíum. Það var það merkilega, ég hélt kannski að það myndi vaxa á mig þriðja höndin eða eitthvað slíkt en fyrsta sem ég gerði var að pota í naflann á mér...

Ég hafði ekki snert á mér naflann í mörg ár.

Samkvæmt óhefðbundnum læknisaðferðum, tildæmis orkustöðvunum á jafnvægisstöðin aðsetur í naflanum. Og geðhvörf snúast um jafnvægi.

Ég fór að greiða á mér hárið.

Ég fékk meira útúr kynlífi.

Og ég veit það ekki, það bara svona varð allt í lagi, án þess ég geti haft um það stórkostleg lýsingarorð.

Konan á strætóstoppistöðinni sagði: Þú hefur lifnað við, og vinur minn fyrir norðan sagði: Það er einsog innra sárið hafi gróið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ef geðveikin er falin í því að halda að maður sé geðveikur?
"it is insane to think you are insaine"
jú það hljómar flottara á útlensku.
ég ætti að skrifa kvót.

eða þannig

Lísbet

Nafnlaus sagði...

nei, nei, þetta er bara svona einsog fótbrot, það er hægt að brotna á sálinni, eða hinni andlegu hlið, sem er ein af þeim veggjum sem húsið manns er gert úr,

knús, ella stína

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta :-)