08 mars 2010

Daginn sem pabbi dó

Þegar pabbi minn dó var ég á Ísafirði. Ég var símalaus. Um kvöldið kom ég heim með litla strákinn minn í íbúðina sem rík ekkja hafði lánað mér gegn því að vélrita fyrir hana minningargrein. Pabbi hafði komið því í kring. Hann hafði verið þennan vetur á sjó á Ísafirði en var nú farinn suður. Ég held ég hafi kvatt hann á einhverju götuhorni nema hann hafi komið í heimsókn, ég man það ekki. En þarna um kvöldið var miði utaná hurðinni: Þú átt að hringja heim. Það var þriðjudagur. Ég gaf syni mínum tveggja ára að borða, háttaði og svæfði og fór svo hinumegin við götuna þarsem Villi Valli rakarameistari og harmóníkkuleikari og Guðný kona hans bjuggu í litlu rauðu húsi við hliðina á blómasölukonunni sem seldi ekki öllum blóm.

*

Svo fékk ég að hringja. Það svaraði enginn hjá mömmu svo ég hringdi í afa og ömmu. Afi svaraði. Og sagði að pabbi væri dáinn, hann hefði verið á spítala, svo hefði hann dáið. Bræður mínir hefðu ekkert vitað af honum á spítalanum. Þegar samtalinu lauk var ég enn að velta þessu orði fyrir mér: Dáinn, dáinn, dáinn, .... hvað þýddi þetta. Fór svo inn til Guðnýjar og Villa og Valla og sagði þeim tíðindin. Æ, elskan, sagði Guðný og faðmaði mig, mér fannst hún úr öðru efni en ég, allavega faðmlagið. Ég var úr steini eða einhverju þvíumlíku. Elskan mín, sagði hún aftur. En Villi Valli sagði: Hann pabbi þinn! Ég klippti hann fyrir fáeinum vikum, hann var svo rauðhærður og með þetta þykka mikla hár. Svo fór ég heim til mín, hinumegin við götuna og hugsanirnar þyrluðust í höfði mér einsog óveðursbylur:

Dáinn, hvernig dáinn, hvernig gat hann dáið, hver átti nú að kenna mér að skrifa!

*

Engin ummæli: