Síðasta veturinn sem pabbi minn lifði veitti hann mér enga athygli, horfði ekki á mig, talaði ekki við mig, - ég frétti af því seinna að hann hefði verið andvaka nóttina sem ég var úti á fylleríi og lét ekki sjá mig, - en honum var semsagt alveg sama um mig og talaði ekki við mig, samt sátum við í sömu stofunni, - ég sat í mínum stól, líkaminn frosinn en hausinn rauðglóandi og hugsanir mínar snerust í hringi á rússabanaferð, - mig langaði að stökkva á fætur, öskra á hann: Sérðu mig ekki, ég er hérna líka, hvernig geturðu látið svona að þykjast ekki sjá mig. En ég þorði því ekki.
1. Ég gæti dottið í gólfið
2. Ég gæti misst málið
3. Ég gæti ruglað orðunum
4. Hann gæti farið að hlæja að mér
5. Hann gæti sprungið af hlátri eða starað á mig með fyrirlitningarsvip sem gæfi eftirfarandi til kynna: Hvaða viðbjóðskríp er þetta, hvaða óskapnaður er þetta!!!
Svo ég sat bara áfram frosin í stólnum.
*
Svo dó hann. Í apríl, nánar tiltekið 25.apríl. Tíu árum síðar hringdi í mig kona og sagði að pabbi hefði séð svo eftir framkomu sinni á þessum tíma, - en ég notaði tækifærið tilað kenna mér um dauða pabba. Ef ég bara hefði risið upp, öskrað á hann, látið hann heyra það, sent frá mér lífsmark, þá hefði hann hrokkið við og hugsað: Ó, hér á ég dóttur og ég verð að lifa fyrir hana, ég verð að hrökkva upp, ekki upp af heldur hrökkva upp og byrja að lifa og vera til fyrir dóttur mína.
Þannig kenndi ég mér um dauða pabba.
Það er mjög hentugt að fá svona hugmyndir.
Maður virkilega fílar sig einsog guð.
Þessvegna var mjög fínt þegar ég öðlaðist trú á æðri mátt og komst að því að ég stjórna ekki heiminum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli