25 mars 2010

Ísbjörninn í Lundarreykjardal

Ekki segja mér að það geti ekki verið ísbjörn í Lundarreykjardal því hvað var hann þá að gera í Þistilfirði.

*

Það er stjörnubjart og kyrrt nema nokkrir karlar og fáeinar áhyggjur í höfðinu á mér.

*

Heilsaði uppá kindurnar í fjárhúsinu eftir kvöldmatinn svo þær sæju amk. eina manneskju á dag fyrir utan Tómas á Kistufelli sem gaf þeim í morgun, sjálf var ég bara að heilsa uppá þær og sagði þeim hvar Kolbrá, Óli og Magdalena væru og svo var ég farin að kalla þær: Elsku kindurnar mínar áðuren ég vissi af. Mér sýndist ég sá nýfædd lömb en það reyndust vera liggjandi kindur.

*

Ég gæti verið úti í alla nótt, það er dimmblá rönd við fjallið, held það sé sumarnóttin.

*

Ég hélt það væri lóan en það var útvarpið.

*

Svo heilsaði ég uppá merina með folaldið, oh það er so fallegt, mosagrátt með stjörnu og hryssan er jörp. Folaldið og hundurinn Þorri voru að leika sér í dag. Í sólskininu.

*

Engin ummæli: