27 mars 2009

Sálfræðingur Maríönnu spyr um frægðina

Maríanna, afhverju er svona mikilvægt að verða fræg!?

Mikilvægt! Það er lífsnauðsynlegt.

Hvernig lífsnauðsynlegt.

Svo ég geti dregið andann.

En frægðin sjálf, hvað felst í henni.

VIÐURKENNING.

Viðurkenning?

Svaka viðurkenning.

En hvað með að þú gefir þér sjálf viðurkenningu?

Ha ha ha hahahahahahhaha.

Já, hvernig líst þér á það?

Ha haha hahahahahahahahahhaha.

Finnst þér það fyndið?

Ha hahahahahahahaha. Ahahhahahahahahhhahahahha.

Hvað er svona fyndið við það?

Hver ætti að vita af því ef ég gef mér viðurkenningu. Ætti ég kannski að kaupa mér tösku og hringja svo í Séð og heyrt: Maríanna gaf sér rauða tösku. Nei, ég hlusta ekki á svona sálfræðikjafftæði að ég eigi að gefa mér sjálf viðurkenningu, ég hef lesið heilu sjálfshjálparbækurnar um þetta og það er alltaf verið að tala um þetta í prógramminu. Nei, mig vantar alvöru viðurkenningu, frægð!

Mundi þér þá líða betur?

Nei, ég yrði fræg.

En yrði ekki rosa mikið að gera hjá þér.

Nei, ég myndi ráða mér aðstoðarmenn.

En þeir gætu eitrað fyrir þér.

Maríönnu svelgdist á. Svo stóð hún upp og hellti úr skálum reiði sinnar, ég hafði aldrei séð hana reiða, hún sat venjulega bæld og niðurdregin í stólnum, nú blasti hún við einsog eldhaf og hvæsti: Þú ert ekki sálfræðingur, þú ert norn, við erum komin í of mikið tilfinningasamband, eitrað fyrir mér!!! Þetta þýðir að þig langi tilað eitra fyrir mér.

Ég held að engan langi tilað eitra fyrir þér Maríanna.

Engin ummæli: