03 febrúar 2008

Pappírar undirritaðir

Ég man það núna að ég á sjálf hausinn á mér en þar hefur maður haft aðsetur í háa herrans tíð, afskaplega leiðinlegt verð ég að segja og hvar eru gallabuxurnar mínir og litirnir, og ég get ekki skilið tilveru mína nema skilja hana uppá nýtt, og ég er svona að velta fyrir mér hvernig ég öðlast yfirráð yfir hausnum á mér því ekki er hann í hjartanu á mér, því hjartað er lokað og þar hefur enginn verið á ferðinni í háa herrans tíð, mjög lengi meina ég, ég elska mig, ég er svo frábær og yndisleg, og hvar eru litirnir mínir og svo vantar mig nýtt rúm, þvottavél, kuldaskó og elskhuga, og ég er að hugsa að yrkja ljóð sem ég orti í dag og það er svona.

Ég sendi þér norn,
eina nornina í viðbót
og svartan væng
sem sólin skín ekki á,
en ég úthelli tárum mínum,
þau hrynja sem perlur
í ísilögðum helli
já, ég hef verið hér áður.
Það var hingað sem ég ætlaði að komast.

Og nú sé að veggirnir
eru klæddir rauðu flaueli,
hún situr og saumar úr blóði mínu
saumar nafn þitt
inní heilann á mér.

Og þá veit ég
að ég þarf að opna hjartað,
þar er guð lokaður inni.

Já, þá er þetta kannski bara spurning um guð, að treysta guði, hæ guð, ég er komin, bara treysta guði. Því mér er ekki treystandi, ég bara undirrita eina pappírana enn.

1 ummæli:

Elísabet sagði...

Þetta er frábært ljóð hjá þér Elísabet, þú ert frábær og yndisleg og svo sæt og einstök og ekki láta hugfallast þótt þú fáir ekki komment. Komment er ekki allt í lífinu.