14 febrúar 2008

Töfrakona alheimsins

Móðir mín Jóhanna töfrakona alheimsins á afmæli í dag, hún er þessa stundina á toppi píramídans að galdra eitthvað dásamlegt. Eða bara háma í sig afmæliskökuna sína og allir með stjörnuljós fyrir neðan. Við komumst hingað, hrópar hún. Hún kemst allt sem hún ætlar sér, hún skipuleggur það allt sitjandi í stólnum sínum á Drafnarstíg. Mamma, til hamingju með daginn.

Mamma býr yfir eigin visku. Einu sinni kom ég til hennar og sagðist halda ég væri svo óviss karakter því ég breyttist eftir því við hvern ég talaði. Elísabet, stundi mamma. (Hún stynur alltaf þegar hún segir Elísabet!) Sko, það er eðlilegt að breytast svona. Þetta fer í gang þegar maður talar við þennan, og hitt fer í gang þegar maður talar við hinn. Hitt, spurði ég. Æ, Elísabet, stundi mamma. Þú veist hvað ég meina. Fólk er ekki eins. Og það fer allskonar í gang.

Alltíeinu sá ég heiminn einsog tónverk, þarsem þessi tónlist heyrðist þegar ég talaði við þennan og hin tónlistin heyrðist þegar ég talaði við hinn.

Svo mamma gaf mér tónlistina.

Það er þessvegna sem hún segir í sífellu: Elísabet, ertu að hlusta?

2 ummæli:

Hringbrautin sagði...

Hún er snillingur.

Nafnlaus sagði...

og villingur.