Í skólanum eru tvær stúlkur, Ásta og Júlíana, þær eru alveg ótrúlega gáfaðar og sniðugar, ég fékk að kenna þeim örsögugerð í síðustu viku og í dag var ég að kenna þeim að skrifa leikrit. Það endaði reyndar með að þær kenndu mér meira. Loksins lærði ég eitthvað í þeim efnum!!! Svo fékk ég kjötsúpu í skólanum hjá Hrefnu í Árnesi sem ég held að kunni allt milli himins og jarðar, einsog tildæmis að búa til þráð þar á milli.
Krían er komin og segir krí krí, svo það er spurning hvenær Vííí komi og segi Ví Ví.
Það er yndislegt hér í Árneshreppi og nú er vestanáttin að ganga niður svo sennilega neyðist ég tilað fara útað labba en í gær labbaði ég útað Vatnslæk og viti menn!! Fann gyllta jólakúlu, og örpínulítinn dansandi krossfisk og sá stuðlaberg, rekaviðardrumba og fugla sem flugu upp þegar ég nálgaðist. Kettirnir kúra og bíða næturinnar, það virðist vera þeirra tími enda verður einhver að passa uppá nóttina.
Annars er ég að lesa heimsbókmenntirnar, Kurt Vonnegut, Sláturhús 5, sem ég hef aldrei lesið. Og svo eru leysingar.
Leysingar.
Já leysingar.... í mínu sálarlífi, ég finn hvernig sálin glitrar í þessum leysingum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli