18 maí 2009
Á rekanum
Sólskinsdag í síðustu viku spurði Maddý hin tígulega kona úr Norðurfirði og fyrrverandi prinsessa úr Stóru-Ávík hvort ég vildi ganga með henni Ávíkurekann. Þetta fannst mér mikil upphefð og neitaði ferð útí eyju að setja upp fuglahræður sem var líka mjög freistandi boð. En við Maddý fórum í Kolgrafarvík, Hellisvík, og allskonar víkur sem of langt mál væri að telja, þetta var einsog meiriháttar hugleiðsla að ganga rekann og mega nú austrænir jógar fara að vara sig með sínar hugleiðslur þegar rekinn er annarsvegar. Því svo kom líka þoka, hún læddist inn við Krossnesið og lagðist svo einsog sæng yfir alla víkina og síðan lét hún (þokan) þyrlu fljúga um í þokunni. Mjög dularfullt. Maddý gaf mér staf og þótt hún hafi búið þarna allt sitt líf hafði hún ennþá lifandi áhuga fyrir skrítnum steinum sem urðu á vegi okkar. Við fylltum svo svarta ruslapoka af brúsum og bjuggum líka til brúsagæs en í Kolgrafarvík fundum plastgæs sem vantaði hausinn á. Þegar við vorum búnar að setja brúsa fyrir haus var komin í leitirnar hin sjaldgæfa brúsagæs. Ég fékk allskonar sögur um villingana í Ávík sem höfðu klifrað uppá syllur, stokkið yfir Kistuvoginn. Svo fékk ég álfasögur og ég meiraðsegja talaði svolítið við þessa álfkonu. Það er þó aldrei að vita nema Maddý hafi sjálf verið álfkonan, allavega ljómaði hún einsog sól í þokunni þegar ég spurði um hvenær hún hefði hitt Gunnstein og það allt saman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli