01 maí 2009

Lifi Elísabet

Ég reif bita úr veggnum í gær eða það er að segja ég hjó það með hamri, dúnk, dúnk, dúnk, ég fann að ég saknaði beggja herbergjanna, vinnuherbergis og eldhús en nú myndi koma nýtt, samt fannst mér einsog fortíðin myndi koma því þetta var svona einusinni, en það er frekar rólegt

fuglasöngur og umferðarhávaði, ég fór í sund í gær og uppgötvaði freknur á handarbakinu sem kunningi minn í heita pottinum sagði að væru LIVER-SPOTS. Þeir komu kannski útaf gamma-geislunum sem bárust til jarðar í vikunni, ég ætla vera með læri á sunnudaginn, og dúk á borðinu, ég var að horfa á MUNDU TÖFRANA ... MUNDU TÖFRANA... leikritið mitt,

ég held ég hafi fengið sjokk í vor þegar ég fékk einkunina fyrir það, 6 í einkunn, og hætt að framleiða prótín, ég sé nefnilega að þetta er merkilegt snilldarverk, manneskja að reyna að segja eitthvað, og allt þetta sem ég hélt að ég hefði skrifað of mikið og var að skamma mig fyrir var BRÁÐNAUÐSYNLEGT,... já lífsnauðsynlegt að skrifa, svo bara: Persónurnar þróast ekki neitt, ein persónan bæði dó, og þróaðist í allar hinar, og allar hinar persónurnar þróuðust í Ellu,

Ella var allstaðar og þá var voðinn vís. Þegar hurð raunveruleikans var sett allstaðar þá var hún orðin allstaðar, heimurinn orðinn hún og hún var í sjálfsmorðshættu eða dauðahættu, og hún í rauninni dó í þessu ástandi að vera allir, eða það er að segja eina leiðin út úr því að vera allir var að deyja, og svo dó hún,

Og en bjó sér til nýtt líf þar, lifnaði við, það var magnað að sjá persónur deyja og lifna við, ... einsog við erum að gera í lífinu, hún var í brotum, molnaði, brotin náðu ekki saman. Hún vildi ekki fara út, alveg sama hvað.

Og það er óhugnanlegt að sjá það í listaverki en sjá það bara í listaverkinu og annars ekki.

NÆSTA VERK FJALLAR UM AÐ KOMAST ÚT.

Ókei, metafóra, amma Þóra, en ég get líka alveg sagt ykkur frá því að það er þögn í húsinu fyrir utan tikkið í mér, umferðarniður fyrir utan gluggann, bráðum set ég í þvottavélina, fæ ég djús, tek til, gái á hottmeilið tuttugu sinnum, kannski fer ég í sund, ég er með strik á milli augabrúnanna, ég hugsa til barnanna minna, tengdabarnanna, ömmubarnanna oft á dag, og ég hugsa um hurðina, er ekki bara soldið krútt svona eyðibýlaleg og á ég að fara að selja bækur og hvar á ég þá að byrja.

Lifi Elísabet

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já, ég tek undir það lifi elísabet, voðalega er gaman að sjá svona misjafna stafi, þú ert greinilega farin að læra á tölvuna og svo ertu svo mikið krútt,

en ætlarðu ekkert á feisbúkk with your beautiful face,

þín Gingiríður Fjóla Adamsdóttir

Nafnlaus sagði...

nei, ég ætla ekki á feisbúkk, ég er með tölvufíkn á háu stigi, nei, ekki tölvufíkn heldur
einmanaleika,

þetta er einmanaleikinn,

beta bjútí bros