Ég var auðvitað búin að segja köttunum, Óskari, Kúrt og Bernharð að Vííí væri komin í heiminn, ég tók þá hvern og einn á eintal og klappaði þeim um leið. Ekki samt lengi því ég er ekki gefin fyrir strokur og klapp. Kettirnir eru hinsvegar á annarri skoðun og hér hefur farið fram heilmikil klapp-kennsla þessar þrjár vikur í Trékyllisvík. Þú verður að læra að klappa, segir Bernharð. Alveg rétt, segir Óskar. Þú ert að ná þessu, segir Kúrt. En ég hef satt að segja aldrei verið mikið fyrir að kjá og kjássa börn eða dýr. Mest svona leyfa þeim að vera út af fyrir sig. Sérstaklega er mér illa við að taka upp nýfædd börn, og segja do do do eða gúgglí gúgglí gúggíddí gúgg.
Það er í mesta lagi fyrir foreldrana. En ég man hinsvegar hvað það var guðdómleg stund þegar ég fékk að halda á henni Emblu Karen Garpsdóttur aðeins fimm daga gamalli.
En nú í kvöld ákváðum við semsagt að halda veislu yfir því að Vííí væri komin í heiminn með athyglina á þá semsagt, ég kveikti samt á kerti og sauð svo fisk, um leið og ég setti fiskinn í pottinn komu þeir hlaupandi í andaktugum fögnuði og sátu svo dáleiddir í eldhúsinu þangað til fiskurinn var tilbúinn. Svo skammtaði ég á þrjá diska, gjöriði svo vel.
En þess má geta að þótt Bernharð sé hér greinilega mesta veiðidýrið þegar ég sé til hans á nóttunni þá hélt ég þegar ég heyrði hann í fyrsta sinn koma skokkandi eftir ganginum að það væri verið að banka.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli