08 maí 2009

Hreyfing við kirkjugarðinn

Útum gluggann minn sé ég hreyfingu við kirkjugarðinn, traktor og tveir bílar. Mér datt í hug að kannski séu þeir að taka Guðmundi vini mínum í Ávík gröf. Og það snjóar, snjófjúkið æðir áfram og það er hvítt niður í hlíðar, en um leið og ég gerði mér grein fyrir að hann Guðmundur eða lík hans yrði lagt ofaní kalda jörðina þá fylltist ég sorg því ég hef alltaf séð hann skellihlæjandi, beinlínis súpandi hveljur af hlátri yfir einhverju gleðilegu, þurfti ekki að vera merkilegt, eða þá að hann byrsti sig tilað skipa húskörlum sínum fyrir svo halda mætti öllu gangandi, þessi tilfinningaríki stórbóndi og þá tek ég líka eftir svona aftanítrukkbíl, það gæti hafa verið bíllinn sem kom í gær og kom með líkið, hlykkjaðist alla þessa löngu og fallegu leið, hrikalegu leið, og nú er ég orðin soldið orðmörg en það eru ekki nema fáein orð sem komast fyrir á legsteininum.

Og öldurnar æða að landi, einsog hvítfext stóð af frísandi hestum, æða uppí land og brotna.

Engin ummæli: