21 maí 2009

Fuglanótt

Nóttina sem hún Vííí kom í heiminn hegðuðu kettirnir sér undarlega, murruðu og vildi strokur og kjass í meira mæli en áður. Ég vaknaði klukkan fjögur og var andvaka eftir það fram undir morgun. Ákvað að fara á fætur svo ég gæti sagt henni hvernig nóttin í Trékyllisvík hefði verið nóttina sem hún fæddist á Akranesi. Og það var fuglanótt, ég hef aldrei séð fleiri fugla, þeir klufu loftið, loftið var krökkt af fuglum, þeir létu sig fljóta í stríðum straumum niður með ánni, svifu á öldunni og spókuðu sig í flæðarmálinu. Og söngurinn... kvakið, blístrið, ... tilbeiðslusöngur, út við sjóndeildarhringinn var dögunin að hefja sitt morgunstef, og þegar ég gáði útum gluggann til fjallsins var þar kona að hengja þvott á snúru.

*

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elísabet, þetta er svo fallegur texti, hann ætti að fara á almanak, og hafa Fuglanótt í almanakinu,...

þín Þrúða Friðgerður Másdóttir
Starrahólum eitthvað